Fjöldi samþykktra hælisumsókna fór úr 3.455 árið 2022 í 1.972 í fyrra. Bæði árin voru Úkraínumenn langflestir þeirra sem hlutu vernd, svokallað mannúðarleyfi vegna fjöldaflótta, eða um 70% – 3.881 af 5.427. Úkraínumenn fá almennt samþykkt mannúðarleyfi fljótlega eftir að þeir koma hingað til lands vegna stríðsástands í heimalandi þeirra.
Þetta sést svart á hvítu, reyndar stundum svart á grænu, ef nýbirt tölfræði verndarsviðs Útlendingastofnunar frá því í fyrra er borin saman við árið á undan.
Fólk sem fékk hér samþykkta vernd – viðbótarvernd, alþjóðlega vernd eða mannúðarleyfi – og er ekki úkraínskt var því einungis 30% af þeim fjölda sem fékk samþykkta hælisumsókn hér á landi á tímabilinu. Þetta voru 1.134 árið 2022 og ekki nema 412 í fyrra. Þannig dróst hlutfall samþykktra umsókna fyrir þetta fólk saman um 74% á einu ári.
„Kannski 500“ segir Guðrún
Í Dagmálum Morgunblaðsins í dag sagði Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra að brjóstvit hennar segði henni að Ísland muni ekki geta tekið á móti „nema kannski 500“ árlega. Hvort hún hafi átt við hælisleitendur eða flóttafólk er óljóst og hefur ekki fengist staðfest.
Guðrún tók sérstaklega fram að þetta mat hennar væri ekki byggt á gögnum, fremur tilfinningu.
Helsta ástæðan sem má nefna fyrir mikilli fækkun samþykktra umsókna á milli ára er breyting á viðhorfi yfirvalda til Venesúelabúa sem hingað sækja. Frá árinu 2019 til 2022 veittu íslensk stjórnvöld nánast öllum sem hingað flúðu frá Venesúela hæli vegna óðaverðbólgu og slæms almenns ástands í heimalandinu. Stefnubreyting var tekin í þessum málum í lok árs 2022 og hún kom til framkvæmda í fyrra með þeim afleiðingum að miklum meirihluta umsókna venesúelskra ríkisborgara um vernd var hafnað. Að mati Útlendingastofnunar hafði ástandið í Venesúela batnað. Því mótmæltu venesúelskir hælisleitendur.
Umsóknum fækkar áfram
Á sama tíma og samþykktarhlutfallið dróst verulega saman fækkaði umsóknum lítillega, úr 4520 í 4155, og þeim virðist áfram vera að fækka, miðað við tölfræði ríkislögreglustjóra. Þar kemur fram að alls hafi 343 sótt um vernd hér á landi það sem af er ári, áfram langflestir frá Úkraínu eða 197. Í janúar sóttu alls 170 um hæli hér á landi – 73% færri en í sama mánuði í fyrra. Það sem af er febrúar hafa 173 sótt hér um en þeir voru 470 í fyrra. Orðræða um áframhaldandi fjölgun hælisumsókna virðist því ekki eiga sér stoð í tölfræðinni, í það minnsta ekki sem stendur.
Fréttin hefur verið uppfærð. Áður sagði að dómsmálaráðherra hefði sagt 500 æskilegan fjölda flóttamanna árlega. Við nánari skoðun reyndist óljóst hvort hún ætti við flóttamenn eða hælisleitendur. Það hefur ekki fengist staðfest hjá aðstoðarmönnum Guðrúnar.
Athugasemdir