Ég kynntist konu einni þegar ég bjó erlendis. Við sóttum sömu jógatímana. Eitt sinn þegar ég var erlendis hafði hún samband og bauð mér á viðburð. Ég sló til þótt ég þekkti hana einungis lítillega. Ég hafði þá ekki hitt hana í nokkur ár. Hún tók brosandi á móti mér með hvítan túrban á höfði. Undarlegheitin slógu mig strax. Hún sagðist hafa tekið upp nýtt nafn og sló um sig á sanskrít. Ég upplifði leikræna tilburði.
Ég leit í kringum mig og sá fleiri hvítkolla. Hún leiddi mig inn í sal og við settumst niður. Hún hóf að tala um lífið og stjörnurnar, áfallasöguna sína, meðalið og andlega leiðbeinendur. Hún sagði þetta fólk vera orðið henni líkt og fjölskylda. Ég þagði og fylltist af grunsemdum. Hún sagði að lærimeistari sinn væri með opið hús og að hún og hinir hvítkollarnir hefðu fengið leyfi til að bjóða þeim sem þau upplifðu að hefðu gott af guðlegum krafti. Ég setti í brýrnar.
Ég bjó mig undir að spyrja hana gagnrýninna spurninga en á sló þögn og hvítkollarnir héldu niðri í sér andanum. Lærimeistarinn birtist og sveif inn í rýmið með appelsínugulan túrban á stóru höfði og veifaði fjöður á yfirlætisfullan hátt. Söngur hófst og gleði hvítkollanna tók yfir. Gleðin var bæði yfirþyrmandi og einkennileg. Lærimeistarinn sagði fátt en skimaði grimmt í gegnum salinn. Ég hallaði mér að kunningjakonu minni og spurði hana hvaða meðal þetta væri sem hún hafði nefnt. Hún leit á mig og svaraði án þess að hika „Sveppir og MDMA, ég smáskammta og fer síðan í ferðalög reglulega til að losa um andlegar stíflur og heilaáföll.“ Þetta sagði hún mér vélræn í bragði, líkt og hún væri að lesa af blaði.
Með þessar nýfengnu upplýsingar um neyslu hennar, breytt útlit, nýtt nafn og blindu hollustu runnu á mig tvær grímur. Innan um síendurtekinn söngvaseið hvítkollanna varð mér loksins ljóst hvar ég væri stödd. Ég sneri mér að henni og sagði alvarlega: „Þetta hljómar eins og sértrúarsöfnuður.“ Hún varð verulega ósátt við mig og bað mig um að fara. Ég frétti ári síðar að hún hefði endað inni á geðdeild í geðrofi vegna hugvíkkandi efna.
Geðlæknisfræðin og vísindin
Mér var hugsað til þessarar kunningjakonu minnar þegar ég hlustaði á Engilbert Sigurðsson, prófessor í geðlæknisfræði og yfirlækni á Landspítalanum, í Kastljósi í síðustu viku. Í því viðtali kom fram að tíu einstaklingar voru lagðir inn á geðdeild Landspítalans í fyrra eftir að hafa farið í geðrof vegna hugvíkkandi efna.
„Sveppurinn kallaðist Mansjúríusveppur og var gríðarstór, svampkenndur og slímugur. Hann var ólystugur með öllu“
Geðrof getur verið hættulegt ástand þar sem fólk getur upplifað bæði sjúklegt óöryggi og mikla aðsóknarkennd. Á valdi ranghugmynda og ofsókna getur fólk gert lífshættulega hluti. Innlögnum af slíkum toga hefur víst snarfjölgað síðastliðin þrjú ár sem og notkun og forvitni landans á slíkum efnum. Margir hafa þó lýst yfir jákvæðri upplifun eftir neyslu hugvíkkandi efna og þess vegna er verið að rannsaka þau í meðferðartilgangi af vísindafólki erlendis.
Stærstu rannsóknirnar sem gerðar hafa verið sýna fram á marktækan mun eftir notkun hugvíkkandi efna á þunglyndi og áfallastreituröskun. Í þeim rannsóknum eru hugvíkkandi efnin þó einungis partur af mun umfangsmeiri meðferð. Undirbúningsmeðferð, yfirseta, umsjón og eftirfylgni heilbrigðismenntaðra einstaklinga eru sögð jafn veigamiklar breytur og hugvíkkandi efnin sjálf.
Hrifnæmi landsmanna
Þegar ég var um 8 ára gömul reið yfir áhugaverð hegðun hér á landi. Hegðun þessi fólst í því að drekka seyði af svepp. Sveppaseyðið átti að vera allra meina bót, lækna margvíslega andlega kvilla og vildu sumir halda því fram að þeir sem drykkju seyðið samviskusamlega gætu orðið allt að 130 ára að aldri. Sveppurinn kallaðist Mansjúríusveppur og var gríðarstór, svampkenndur og slímugur. Hann var ólystugur með öllu.
Heima hjá mér var hann ræktaður í stórri skál inni í búri og átti hann að bregðast vel við jákvæðu hjali og kvenlegu dekstri. Margt átti að geta dregið úr lækningamætti sveppsins, s.s. neikvæð nærvera, ákveðnir málmar og blátt bann var lagt við að selja hann öðrum. Ekkert af þessum fullyrðingum voru þó rökstuddar með rannsóknum. Ákveðin ofurtrú skapaðist í kringum sveppinn og eftirspurnin var gífurleg. Sveppaæðinu lauk síðar fremur skyndilega eftir að landlæknir gaf út tilkynningu þar sem varað var við neyslu á þessu sveppaseyði. Sveppurinn hafði þá valdið alvarlegum sýkingum erlendis og einnig dauðsföllum. Mansjúríusveppaæði Íslendinga leið undir lok og Tupperware-vörur hófu sókn skömmu síðar. Ég hugsa oft til menningarkimans í kringum Mansjúríusveppinn þegar orðræða um hugvíkkandi efni fer á flug hérlendis.
Sjálfskipaðir sérfræðingar
Upplifun flestra er að þessi aukna notkun hugvíkkandi efna tali inn í hugmyndafræði og hugarheim ákveðinna hópa. Hérna heima fyrir virðist þessi notkun tala helst til þeirra sem aðhyllast andlega iðkun, sinna sköpun og þrá samfélag utan vélrænna svara. Þörfin virðist vera að upplifa hugljómun og sjá allt skýrara. Ákveðinn menningarkimi virðist hafa myndast í kringum efnin hérlendis og hann er áhugaverður út frá m.a. mannfræði, sálfræði, siðfræði og sögu. Fólk er farið að aðskilja og tala um „við“ og „hinir“, titla sig sem fjölskyldur, tala um heilunarmátt ákveðinna aðila og upphefja ofurvenjulegt fólk í hálfgerða guðatölu. Löngum hefur verið rætt og ritað um fólk sem fer illa út úr hópamyndun sem slíkri.
„Leiðtogar slíkra hópa lofa oftar en ekki öllu fögru og rukka ágætis upphæð fyrir meinta uppljómun“
Leiðtogar slíkra hópa lofa oftar en ekki öllu fögru og rukka ágætis upphæð fyrir meinta uppljómun. Ákveðið stigveldi virðist myndast innan svona menningarkima og hið venjulegasta fólk er sett á stall og gert að upplifa sig sem leiðtoga eða sem mikilvægir stuðningsaðilar slíkra. Söfnuðir myndast. Þeir sjúklega sjálfhverfu elska hópamyndanir líkt og þessa og rjúka rakleiðis upp á stallinn og sæma sig glaðbeittir leiðtogatitlinum sjálfir. Aðrir og óstöðugir fela sig oft á bak við góðan ásetning og nærast á hrifnæmi hópsins. Gagnrýni er óvelkomin. Jaðarsett fólk sem illa hefur gengið að finna samhljóm í samfélaginu eða einstaklingar sem þjakaðir eru af áföllum þegja frekar en að hætta á útskúfun úr þessari nýju fjölskyldu sinni.
Skyndilausnir sem lofa vellíðan og andlegri upprisu eru alltaf vinsælar hérlendis. Menningarkimi Mansjúríusveppsins og lyfjadrifnar hugljómanir leiddar af óstöðugu og ófagmenntuðu fólki sanna það. Mér er minnisstætt viðtal við íslenskan athafnamann sem sagði að neysla á hugvíkkandi efnum hefðu bjargað honum úr eilífðardal myrkursins. Viðtalið var áhugavert að því leyti að allan árangur eignaði hann hugvíkkandi efnunum. Aldrei gaf hann hugrekki sínu og þrautseigju gildi. Mikilvægar breytur í aðsókn manna að allri breyttri hegðun.
Lokaorð
Á Íslandi er ekki verið að neyta hugvíkkandi efna í samræmi við verklag og umgjörð erlendu rannsóknanna og því ekki hægt að vænta eða lofa útkomu í samræmi við þær. Hér á landi virðist mikið af ófagmenntuðu fólki stýra ferð þar sem boðið er upp á kostnaðarsöm „ferðalög“ með hugvíkkandi efnum í heimahúsum og öll mistök og hættuástand eru afgreidd með andlegri afvegaleiðingu. „Þetta greinilega þurfti að gerast“, segir sjálfskipaði gúrúinn við aumingja sálartetrið sem hríslast um af áfallaskjálfta og vanlíðan með ælufötuna fyrir framan sig.
Gagnreyndar aðferðir eru sagðar leiðinlegar og úthrópaðar sem úreltar þótt svo að þær sýni enn fram á marktækan árangur. Jákvæðar og marktækar niðurstöður erlendis er ekki hægt að yfirfæra á sumarbústaðarmeðferðir ófaglærðra sjálfskipaðra sérfræðinga. Á Íslandi virðist þetta hafa þróast í gróðamaskínu, ofurtrú á hindurvitni, yfirburði geðþóttaskoðana, stjórnlausa sjálfhverfu og gervivísindi. Kuflklæddar konur með túrban og góðan ásetning og sjálfskipaðir sérfræðingar á of háum stalli þurfa að vera meðvituð um takmarkanir sínar. Annars getur þetta endað illa.
Athugasemdir (2)