Ferðamaðurinn og Youtube-stjarnan Tim Lindon gisti á Silica hótelinu við Bláa lónið aðfaranótt fimmtudags. Klukkan hálfsex að morgni vaknaði hann við háværar sírenur, bank á herbergisdyrnar og fyrirmæli um að yfirgefa hótelið strax. Rétt upp úr klukkan sex hófst eldgos í Sundhnúkaröðinni, en þegar á leið daginn rann hraun yfir Grindavíkurveg og stofnlögn HS-Veitna fyrir svæðið.
En hann vissi það ekki þegar hann var að pakka saman dótinu sínu og gekk út úr herberginu.
Fann hitann frá hrauninu
Í myndbandinu lýsir Tim atvikum beint: „Ég er frekar stressaður, veit eiginlega ekki hvað er í gangi.“ Hann sá svo reykinn og bjarmann af gosinu út um gluggann: „Ég held að þetta sé það sem er í gangi.“
Þegar hann gekk út af hótelinu blöstu logar eldgossins við.
Í myndbandinu má einnig sjá þegar hótelgestum var sagt að fara frá hótelinu, á eigin bílum eða með rútu. Margir keyrðu því framhjá gosinu og sáu það vel, stoppuðu jafnvel á Grindavíkurvegi til að dást að því.
Tim var á bílaleigubíl og var sagt að yfirgefa svæðið á honum. Hann nýtti tækifærið til þess að staldra við og dáðst að gosinu: „Ég finn fyrir hitanum héðan!“
Hann sýndi hversu nálægt gosið var hótelinu: „Ég hef ekki upplifað þetta áður, að keyra og þegar ég lít í hliðarspegilinn sé ég eldgos.“
Flauturnar fóru af stað
Alls þurftu 150 gestir og starfsmenn að yfirgefa hótelið í flýti. Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri sölu-, rekstrar- og þjónustu Bláa lónsins, sagði í samtali við Heimildina á fimmtudag að rýmingin hefði farið fram með yfirveguðum hætti, tekið 40 mínútur og gestir hefðu fengið tíma til þess að pakka í töskur og ganga frá herbergjum. Þetta sýnir myndbandið frá Tim.
Í Spursmálum á Mbl sem kom út í morgun segir Helga að allir gestirnir hafi verið farnir af svæðinu áður en gosið hófst. Spurð út í málið segir Helga í samtali við Heimildina að gestirnir hafi farið út á svipuðum tíma og gaus. „Bílarnir keyrðu fram hjá gosinu. Þetta er náttúrulega bara mínútu spursmál en við vissum alltaf að þetta væri í Sundhnúkagígunum, sem er einhverja þrjá kílómetra frá okkur. Þess vegna vorum við bara með yfirvegaða rýmingu.“
Rýmingin hafi gengið vel. „Það sem var sérstakt við þessa rýmingu núna var að það er búið að koma upp viðvaranaflautum við Bláa lónið og inni í Grindavík,“ sagði hún.
Hljóðið heyrist vel í myndbandinu, sem sjá má hér að neðan.
Athugasemdir