Gunnar Axel Axelsson, bæjarstjóri í Vogum, segir í færslu á Facebook að ljóst sé að Reykjanesið verði án hitaveitu „í lengri tíma en bjartsýnasta sviðsmyndin“ gerði ráð fyrir. „Hversu lengi ástandið mun vara er enn óljóst en starfsfólk orkufyrirtækjanna og viðbragðsaðilar vinna nú hörðum höndum að því að reyna að tengja hitaveitu á svæðinu með öðrum leiðum. Eins og fram hefur komið munu þær aðgerðir taka einhverja daga til viðbótar og erfitt að segja nákvæmlega til um hvernig það mun ganga og hversu langan tíma það getur tekið að koma aftur hita á svæðið.“
Seint í gærkvöldi varð ljóst að ekkert heitt vatn muni á næstunni streyma um lagnir frá Svartsengi til byggðarlaga á Reykjanesi. Hjáveitulögn meðfram Njarðvíkuræðinni, sem reynt var að nota eftir viðgerð, fór þá í sundur undir hrauninu. „Það er ljóst að næstu dagar og nætur geta því orðið kaldar í húsum á Suðurnesjum,“ sögðu almannavarnir í tilkynningu í nótt.
Svartsengi er lífæð Suðurnesja þegar kemur að heitavatnsframleiðslu. Þaðan hafa 30 þúsund íbúar á Reykjanesi, að tæplega fjögur þúsund íbúum Grindavíkur meðtöldum, heita vatnið sitt. Auk Voga verður ekkert heitt til staðar í Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ og Grindavík.
„Staðan er grafalvarleg“
Gunnar Axel segir að í svona aðstæðum reyni á þolrif samfélagsins og að næstu dagar verða áskorun fyrir íbúa. „Miðað við þá samstöðu og samhug sem hefur birst okkur síðustu daga, þar sem allir virðast reiðubúnir til að leggja fram hjálparhönd, aðstoða nágranna sína og kannski umfram allt sýna ótrúlega yfirvegun í þessum fordæmalausu aðstæðum, þá leyfi ég mér að halda í bjartsýnina. Það verður þó ekki framhjá þvi horft að staðan er grafalvarleg og við þurfum að búa okkur undir það að hún geti versnað. Það búa ekki allir við sömu aðstæður, sumir eiga baklönd og eru jafnvel vel færir um að bjarga sér í en það á ekki við um alla. Nýjustu veðurspár gera ráð fyrir því að aðeins muni draga úr frosti en samt má búast við áframhaldandi talsverðum kulda næstu daga.“
Bæjarstjórinn skrifar að lokum að verkefni þessa laugardags verði vafalaust fjölmörg og að aðgerðastjórn, sem hittist strax í morgunsárið til að fara yfir stöðuna, muni funda reglulega til að taka stöðuna og ákveða næstu skref. „Vonandi færir dagurinn okkur einhverjar góðar fréttir.“
Athugasemdir