Ef hleypt tekst að hleypa vatni á heitavatnslögn frá Svartsengi til byggðarlaga á Reykjanesskaga í kvöld, líkt og stefnt er að, yrði hiti ekki farinn að komast á hús fyrr en á sunnudag og jafnvel ekki fyrr en seint á sunnudagskvöld.
Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum er farið í nokkrum orðum yfir stöðuna eins og hún er núna og hvað hefur áunnist í viðgerðarmálunum í nótt. 13 þúsund heimili eru án vatns, hús sem í búa tæplega 30 þúsund manns.
„Verið er að vinna í að tengja lögnina sem skemmdist í gær og gengur sú vinna vel,“ er fullyrt í tilkynningunni. „Það má búast við að þeirri vinnu ljúki síðar í dag og komi ekkert óvænt upp þá verður byrjað að hleypa vatni á lögnina í kvöld.“
Vatni yrði hins vegar hleypt „mjög hægt á til að byrja með” til að koma í veg fyrir að lögnin rifni. Búast megi svo við því að hún sé löskuð á einhverjum stöðum.
„Miðað við þetta þá má búast við því að hiti fari að komast á hús á sunnudag og jafnvel seint á sunnudagskvöldið.“
Í tilkynningunni er íbúum Suðurnesja hrósað fyrir að stilla álagi á kerfin í hóf. Eru þeir ennfremur hvattir til að halda því áfram.
Almannavarnir sendu reyndar frá sér tilkynningu skömmu eftir að lögreglan gerði það og sagði að samkvæmt upplýsingum frá HS Orku yrði seinkun á því að hleypa heitu vatni á nýju hjáveitulögnina við Njarðvíkurlögnina sem hraun flæddi yfir í gær. Vinnan hafi reyndar gengið vel, segja almannavarnir, en engu að síður hafi orðið tafir. Nú sé steftnt að því að hægt verði að hleypa vatni á lögnina á miðnætti í kvöld, föstudag.
„Til upplýsinga getur tekið allt að tvo sólarhringa til að ná fullum þrýstingi á lögnina og því þarf fólk að fara sparlega með vatnið áfram eftir að búið er að hleypa heitu vatni aftur á í kvöld,“ segir i tilkynningu almannavarna.
Orkustofnun, HS Veitur og HS Orka hafa frá því í nóvember hvatt stjórnvöld til að hefja undirbúning þess að svona gæti farið. Að eldsumbrotin á Reykjanesi skaði innviði á borð við einmitt þessa heitavatnslögn. Var m.a. mælst til þess að keyptir væru sérstakir hitablásarar fyrir heimili á svæðinu.
Ekki hafði verið brugðist við þessum ábendingum nema að litlu leyti er þessi sviðsmynd, ein sú versta sem hugsast gat, raungerðist í gær. Enda varð raunin sú að íbúar á svæðinu streymdu í verslanir til að kaupa sér sjálfir ofna, jafnvel gasofna, til að halda hita á húsum sínum.
Ekki mikið meira en einn öflugur hárblásari
Raforkukerfið þolir hins vegar ekki meiriháttar álag vegna rafmagnskyndingar. Víðir Reynisson, sviðsstjóri hjá almannavörnum, sagði t.d. í fréttum í gær: „En við verðum að muna það að sú orka sem við getum notað á hverju heimili, er ekkert mikið meiri en í einum öflugum hárblásara. Það er ekki hægt að setja upp fjölda blásara á hverju heimili til að halda uppi miklum hita.“
Allir að gera sitt besta
„Við tæklum þetta í sameiningu,” segir í tilkynningu lögreglunnar á Suðurnesjum til íbúa. „Og vonum að hiti komist á hjá okkur sem fyrst, en það er ljóst að allir eru að gera sitt besta, hvort sem það eru iðnaðarmenn að störfum á hamfarasvæðinu eða íbúar Suðurnesja.“
Athugasemdir