Guðni forseti drap síðasta áramótaskaup. En það var ekki með vilja gert. Guðni er ekki þannig maður. Venjulega lifir skaupið í marga daga. Fólk er að rifja upp og reyna að muna í gegnum vímuþokuna hver var fyndnastur og hermdi eftir hverjum. En yfirlýsing Guðna á nýársdag sló það allt út af borðinu og við tók nýtt skaup: Forsetaskaupið.
Samstundis varð ekki þverfótað fyrir fólki sem lá kylliflatt undir feldi út um allan bæ til að íhuga hvernig það ætti að bregðast við þeim fjölda áskorana sem því hafði borist um að gefa kost á sér til framboðs.
Í felum undir feldi
Fólk undir forsetafeldi skiptist í nokkra flokka.
Í fyrsta flokki eru þau sem hafa lengi ætlað sér í framboð. Oft vegna þess þeim finnst þau einfaldlega svo vel af Guði gerð að að þjóðin bíði þeirra án þess að hafa áttað sig á því, en stundum til að bæta einni skoru við á byssuskeftinu. Þau liggja í raun ekki undir loðskinninu og hugsa, því þar er þrútið loft og þungt, en þykjast gera það til að sýnast ekki of áköf.
Í öðrum flokki eru þeir sem hafa lagst undir feldinn áður, boðið sig fram og tapað. Þeir gefa kost á sér aftur og aftur og verða raðframbjóðendur. Hugsanlega er um að kenna súrefnisleysi vegna langvarandi legu undir skinninu.
Svo er þriðji flokkurinn. Þar er fólk sem lendir í því að einhver segir í hjónarúminu eða morgunkaffinu í vinnunni: „Heyrðu. Þú myndir gera það gott sem forseti. Við höldum framboðspartí í næstu viku, fáum Gerði í Blush til að kynna nýtt tæki, söfnum þessum tuttugu, þrjátíu undirskriftum eða hvað það nú er og málinu er reddað.“
Er enginn starfslýsing?
Þetta er svo sem ekkert nýtt. Það hefur aldrei verið til starfslýsing fyrir embættið. Allir geta einhvern veginn mátað sig í það. Enginn er því fyrirfram óhæfur.
En kannski er rétt að spyrna við fótum áður en á Bessastaði er litið sem leikvöll áhrifavalda á mbl.is? Eða umboðsskrifstofu skemmtikrafta fyrir árshátíðir og Þorrablót? Þar geta raunar orðheppnir og lagvissir nú- og fyrrverandi alþingismennn komið sterkir inn, eins og nýleg dæmi sanna.
Sem betur fer hefur enginn óhæfur verið kosinn, enn. Frá lýðveldisstofnun hefur valist gott fólk sem hefur skarað framúr á sínum sviðum.
Í þau 20 ár sem Ólafur Ragnar var forseti var enginn almennilegur feldur til að leggjast undir. Ólafur tók hann nefnilega með sér heim. En Ólafur er firna öflugur maður, hefur skilað glæsilegu verki og er enn að. Hann var kóngur í ríki þar sem hann setti leikreglurnar sjálfur.
Er ekki forsetinn bara upp á punt?
En er ekki dálítið galið að ráða nýja manneskju í vinnu án þess að vita almennilega hvað hún á að gera, má gera eða má ekki?
Þurfum við forseta til að segja okkur að við séum frábær, til að klippa á borða og lofsyngja Ísland fyrir okkur sjálf á hátíðum og tyllidögum, syngja ættjarðarlög, sem enginn kann lengur, eða horfa á íþróttafólkið okkar í kappleikjum?
- Við erum þegar með mannskap í það.
- Það eru ráðherrar og alþingismenn sem eru í vinnu hjá okkur.
Þurfum við forseta til vera „yfirfrakki“ á stjórnvöld, „öryggisventill“ til að grípa í taumana við stjórn landsins?
- Við erum þegar með mannskap í það.
- Alþingismenn hafa eftirlitsskyldur og geta sett viðhlítandi lög ef við viljum auka gildi þjóðaratkvæðagreiðslna,
Og þurfum við forseta til að taka á móti erlendum þjóðhöfðingjum með pomp og pragt sem er arfur frá gömlum tíma einveldis og evrópskra hirða?
- Við erum þegar með mannskap í það.
- Gestir væru fullsæmdir af því að fulltrúar Alþingis og ríkisstjórnar fögnuðu þeim við komuna til landsins og héldu þeim tilhlýðilegar veislur.
Borðsiðirnir eru ekkert flóknir. Gaffall i vinstri og hnífur í hægri. Ekki byrja að snæða fyrr en allir við borðið eru búnir að fá á diskinn sinn, en skála fyrst til beggja átta og ná örstuttu augnsambandi við við borðfélagana.
Forsetar með öðru
Í ríkisstjórn Svisslands sitja sjö ráðherrar sem þingmenn velja úr sínum hópi á fjögurra ára fresti að loknum þingkosningum. Í janúarbyrjun ár hvert tekur ráðherrann með hæstan starfsaldur við hlutverki forseta landsins. Þannig verða forsetaskipti árlega og ræður starfsaldur röðinni.
Forsetinn axlar skyldur hlutverksins í hjáverkum til viðbótar við störfin í sínu eigin fagráðuneyti, en nýtur stuðnings sérstakrar forsetaskrifstofu árið sem þetta ástand varir.
Á þennan hátt verður forsetinn hverju sinni þjálfaður stjórnmálamaður með djúpar rætur í sögu og stjórnkerfi landsins.
Viola Amherd er hokin af reynslu
Þetta árið gegnir embættinu Viola Amherd. Hún er lögfræðingur og kemur frá kantónunni Valais þar sem fyrstu starfsmenn álversins i Straumsvík lærðu til verka. Í borginni Brig, sem liggur við rætur Simplonskarðsins, fornrar þjóðleiðar yfir til Ítalíu, sinnti hún sveitarstjórnarmálum í meir en tvo áratugi, þar af 12 ár sem forseti borgarstjórnar.
Viola Amherd fór á þing árið 2005 og varð varnarmálaráðherra árið 2019, fyrsta konan í Sviss til að gegna því embætti.
Henni verður ekki skotaskuld úr því að sinna tignum gestum erlendis frá, heimsækja aðrar þjóðir og þing, ásamt því að veita löndum sínum hvatningu og stuðning ef á þarf að halda. En dagvinnan hennar verður eftir sem áður að vera varnarmálaráðherra.
Athugasemdir (1)