„Ég tel líklegast að næsta gos komi upp á milli Hagafells og Stóra-Skógfells,“ segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði. Það gæti allt eins gerst á allra næstu dögum. Hann telur í raun líklegast að framhald jarðhræringa á Reykjanesi verði, næstu mánuði og jafnvel lengur, á Sundhnjúkasprungunni, sem áðurnefnd fell tilheyra. Gera megi ráð fyrir litlum gosum á þeim slóðum, lík þeim sem urðu í desember og janúar.
En hvar gosið kemur upp á þessari sprungu, sem svaf í um eða yfir 2.000 ár áður en þar varð gos í lok síðasta árs, er stóra málið í þessu sambandi.
„Líkön sem byggja á GPS gögnum sýna að nú hafa um það bil 6,5 milljón rúmmetrar flætt inn í kvikuhólfið kennt við Svartsengi,“ sagði í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands í gær sem samhliða birti nýtt hættumatskort af Grindavík og nágrenni. „Miðað við þetta mat er líklegt að kvikumagnið nái svipuðu rúmmáli og fyrir eldgosið 14. janúar á næstu tveimur vikum og jafnvel dögum. Þetta þýðir að líkurnar á kvikuhlaupi og eldgosi hafi aukist.“
Benedikt Ófeigsson náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni sagði í RÚV í gær að hann teldi, líkt og Þorvaldur, líklegast að næsta eldgos komi upp á svæðinu á milli Stóra-Skógfells og Hagafells. Þar hafi mesta virknin verið undanfarið og gögn bendi til þess að svæðið sé líklegt.
Og það er þessi staðsetning sem Þorvaldur segir tilefni til að hafa áhyggjur af. „Ef gos kæmi upp við Stóra-Skógfell þá gæti hraunið runnið til norðurs,“ segir hann við Heimildina. Síðustu tvo gos hafa verið sunnar á sprungunni og sunnan vatnaskila sem fara um miðju Reykjanesskagans. „Ef það kemur gos á norðanverðri Sundhnjúkasprungunni þannig að hraun færi að flæða til norðurs, þá gæti það flætt að og jafnvel yfir Reykjanesbraut,“ segir hann. Það væri vissulega mjög óheppilegt, ekki síst núna þegar leiðir sunnan megin á skaganum eru ýmist laskaðar eða lokaðar. Og þar með yrði engin greið leið til Keflavíkurflugvallar.
Spurður hvort huga ætti að vörnum til að koma í veg fyrir þessi ósköp svarar Þorvaldur: „Já, því hvað ætlum við að gera? Ég er ekki að segja að það eigi að fara að byggja varnargarða eftir endilöngum Reykjanesskaganum. En ef kemur til þess að hraun fari að flæða í átt að Reykjanesbrautinni og að líkur væru á að það færi yfir hana og ekki yrði mögulegt að keyra til vesturhluta Reykjanesskagans, þá værum við ekki í sérstaklega góðum málum.“
„Við vitum öll hvað það er mikilvægt fyrir samfélagið allt og atvinnuvegina að Keflavíkurflugvöllur haldist opinn, að þangað sé greið og örugg leið“
Keflavíkurflugvöllur er vel staðsettur á Reykjanesskaga með tilliti til hraunrennslis þótt vissulega gæti hann lokast vegna gasmengunar eða öskufalls í þeim eldum sem nú eru hafnir á svæðinu og gætu varað í áratugi eða aldir. En hættan er, líkt og Þorvaldur bendir á, að leiðir að vellinum lokist.
„Við vitum öll hvað það er mikilvægt fyrir samfélagið allt og atvinnuvegina að Keflavíkurflugvöllur haldist opinn, að þangað sé greið og örugg leið,“ segir hann. Áföllin þurfi ekki að raungerast til að ferðamenn hiki við að koma til landsins.
„Við þurfum að hugsa um þetta. Hugsa upp lausnir. Við þurfum að vera viðbúin að geta tekist á við það. Því betur undirbúin sem við verðum, því minna vandamál verður það. Og því minni verður kostnaðurinn. Þegar allt verður farið af stað þá verður dýrt að vera ennþá á byrjunarreit.“
Hann segir ennfremur „afskaplega mikilvægt að hafa þessi mál í lagi svo ferðamenn viti að það sé öruggt að koma hingað, að flugvöllurinn okkar sé öruggur og greiðar og öruggar leiðir að honum.“
Og ef við hugsum til langs tíma, bætir Þorvaldur við, þá væri skynsamlegt að byggja annan alþjóðlegan flugvöll „en ekki líka á svæði þar sem hætturnar eru þær sömu. Ekki vera með öll eggin í sömu öskjunni.“
Athugasemdir