Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Aurskriða menguð spilliefnum ógnar dönsku þorpi

Eft­ir að ljóst þótti að eng­um bönd­um yrði kom­ið á aur­skriðu á förg­un­ar­svæði einka­rek­ins fyr­ir­tæk­is í Dan­mörku, skriðu sem ógn­ar vatns­bóli og þorpi, hélt fyr­ir­tæk­ið áfram að safna þar meng­uð­um jarð­vegi. Svo lýsti það sig gjald­þrota.

Aurskriða menguð spilliefnum ógnar dönsku þorpi
Umhverfisslys Séð yfir athafnasvæði Nordic Waste suður af danska bænum Randers. Á svæðið er safnað saman jarðvegi, oft menguðum, bæði frá Danmörku og Noregi. Neðan svæðisins rennur á ofan í Randersfjörð. Þar er líka að finna lítið þorp. Mynd: AFP

Dönsk stjórnvöld vinna nú í kappi við tímann að því stöðva framrás aurskriðu sem ógnar bæði stóru vatnsbóli, á og litlu þorpi í norðvesturhluta Danmerkur. Í raun er hér á ferðinni 75 metra hár bingur af jarðvegi sem blandaður er allra handa spilliefnum, m.a. þungmálmum og olíu. Safnhaugur hins einkarekna fyrirtækis Nordic Waste.

Ógnin er ekki nýtilkomin en þó nýlega orðin almenningi ljós eftir fréttaflutning síðustu vikna. Í desember vann Nordic Waste að þvi að stöðva skriðuna en eftir barning við hana í níu daga gáfust stjórnendur fyrirtækisins upp og sögðu yfirvöld á svæðinu bera ábyrgð á varnarviðbrögðunum. Eiga að sjá um þau og jafnframt greiða reikninginn. Og um þetta er enn deilt en eitt er þó orðið víst: Hættan var orðin kunn síðasta sumar en allt þar til í desember hélt Nordic Waste áfram að bæta í hauginn. Hann er nú talinn 3 milljónir rúmmetra af stærð og færist hægt og bítandi, í átt að smábænum Ølst þar sem búa um 400 manns.

Uppljóstrunin

Urðunarsvæðið suður af bænum Randers, sem frekar mætti eflaust kalla safnsvæði mengaðs jarðvegs, er lokað almenningi. Fjölmiðlar hafa reynt að fá þar aðgang síðustu vikur en án árangurs. Danska ríkisútvarpið (DR) greip því til þess að leita til starfsmanna fyrirtækisins og sérfræðinga sem þó fá að koma þangað, til að varpa ljósi á hvað átt hefur sér stað.

Í frétt DR á föstudagsmorgun var svo afhjúpað að bingurinn mikli var kominn á hreyfingu þegar í sumar og í haust hafði skriðan eyðilagt að minnsta kosti tvö hús á vinnusvæðinu. Danska jarðfræðistofnunin (GEUS) segir þessar upplýsingar mikilvægar. Stofnunin hefur þegar gert skýrslu um málið en hafði þá aðeins aðgengi að gögnum sem aflað var á vettvangi í apríl. Uppljóstranir DR breyta því miklu. Einn af sérfræðingum GEUS segir við DR að myndir frá urðunarstaðnum sem teknar voru í sumar og haust bendi eindregið til þess að jarðskriðið mikla sé ekki tilkomið af náttúrulegum orsökum, s.s. sérstaklega mikillar úrkomu. En það er einmitt það sem Nordic Waste heldur fram og segir rökin fyrir því að vísa ábyrgðinni á hamförunum frá sér.

Myndir sem teknar voru í júní sýna að þak vöruhúss hafði byrjað að gefa eftir undan skriðu og fáum vikum síðar var það hrunið. Í lok september má sjá að önnur bygging er við það að hrynja og gluggar hafa brotnað undan þrýstingi frá skriðunni. Og aðeins örfáum dögum síðar hefur skriðan gleypt þetta tiltekna hús. Um 80 metrar eru á milli þessara tveggja húsa sem urðu skriðunni að bráð á innan við tveimur mánuðum.

Inn í og undir húsAð minnsta kosti tvær byggingar urðu skriðunni að bráð í sumar og haust.

En hvers vegna telja sérfræðingar GEUS að náttúrulegar ástæður séu nánast útilokaðar?

Af því að skriðuföll vegna úrkomu og annarra veðurfyrirbrigða verða ekki á þeim árstíma sem skriðan var augljóslega farin af stað. „Skriður af náttúrulegum orsökum ættu ekki að hreyfast svona mikið á þessum tíma og á svona stuttum tíma,“ segir Kristian Svennevig, sérfræðingur GEUS, við DR. Slík hreyfing á jarðvegi á sér fyrst og fremst stað síðari hluta vetrar. „En þarna hefur átt sér stað stóratburður um mitt sumar.“ Stofnunin telur því að úrkoma og leysingar geti ekki skýrt aurskriðurnar. Orsökin hljóti að vera of mikil söfnun jarðvegs og úrgangs á svæðinu. Og það aftur þýðir að hamfarirnar nú hafi ekki verið óumflýjanlegar enda af mannavöldum.

Bæjaryfirvöld í Randers eiga að sinna eftirliti með svæðinu. Eftirlitsmenn frá bæjarfélaginu heimsóttu staðinn fimm sinnum frá því í júlí þegar byggingar höfðu þegar farið að láta undan þunga skriðunnar. En þeir gerðu engar athugasemdir.

Það er þó ekki endilega víst að inngrip á þeim tímapunkti, þ.e. síðasta sumar, hefði breytt miklu. Í raun telur jarðfræðistofnunin erfitt að halda aftur af svo miklum massa jarðvegs þegar hann fer af stað. Hins vegar, segja sérfræðingar stofnunarinnar, að það að halda áfram að bæta ofan á binginn hafi ekki verið góð hugmynd.

„Skriður af náttúrulegum orsökum ættu ekki að hreyfast svona mikið á þessum tíma og á svona stuttum tíma“
Kristian Svennevig,
sérfræðingur hjá Dönsku jarðfræðistofnuninni.

Nordic Waste, sem er í eigu eins ríkasta manns Danmerkur, hélt áfram að taka á móti og flytja inn á svæðið mikið magn af jarðvegi allt þar til í desember þegar ljóst var orðið að illa – eða jafnvel alls ekki – yrði ráðið við skriðuna. Aurinn myndi halda áfram að skríða fram. Stundum hægt. Stundum hraðar. Um tíma rann aurinn á um 40 kílómetra hraða á klukkustund niður í Randersfjörð. Nú hefur hægt nokkuð á skriðþunganum. En áfram skríður aurfjallið manngerða fram. Um tvo metra á dag. Og nú undir lok danska vetursins er úrkoman mikil. Það ýmist snjóar eða rignir. Sem gæti aukið enn á hættuna. Ekki aðeins af völdum skriðunnar sjálfrar, aursins, heldur gæti mengað vatn runnið í vatnsbólin. Bæjarfélagið vinnur nú að því að verja vatnsbólið, reyna að koma í veg fyrir einmitt þetta.

Nordic Waste er í bobba. Fyrirtækið sér ekki aðeins um förgun á jarðvegi og ýmsu öðru frá Dönum heldur einnig Norðmönnum. Nýverið sagði forstjórinn Nina Østergaard Borris að það myndi taka fimm ár og kosta fleiri milljarða danskra króna að „endurreisa“ svæðið. Hún sagði málið „miklju alvarlegra en nokkur hefði getað ímyndað sér“.

Bæjaryfirvöld í Randers hafa nú kært Nordic Waste og segja fyrirtækið eitt bera ábyrgð á því sem þau kalla umhverfisslys. Nordic Waste hefur hins vegar gripið til þess ráðs að óska eftir gjaldþrotaskiptum. Það gæti þýtt að reikningurinn fyrir hreinsun svæðisins og aðgerða til að tryggja það, endi á skattgreiðendum.

Kjósa
12
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Bannaður á leigubílastæðinu fyrir að leggja starfsfólk Isavia í einelti
2
Fréttir

Bann­að­ur á leigu­bíla­stæð­inu fyr­ir að leggja starfs­fólk Isa­via í einelti

Isa­via seg­ir leigu­bíl­stjóra, sér­stak­lega virk­an á sam­fé­lags­miðl­um, hafa lagt starfs­fólk flug­vall­ar­ins í einelti – með­al ann­ars með ásök­un­um í garð þess og nafn­birt­ing­um á net­inu. Hann hafi ver­ið sett­ur í ótíma­bund­ið bann vegna ógn­andi og óvið­eig­andi fram­komu. „Þetta er nátt­úr­lega óþægi­legt að mæta í vinn­una og verða svo fyr­ir áreiti,“ seg­ir einn starfs­mað­ur við Heim­ild­ina.

Mest lesið í mánuðinum

Hefði ekki dottið í hug að ráða sjálfan sig
2
Viðtal

Hefði ekki dott­ið í hug að ráða sjálf­an sig

Bogi Ág­ústs­son hef­ur birst lands­mönn­um á skján­um í yf­ir fjóra ára­tugi og flutt Ís­lend­ing­um frétt­ir í blíðu og stríðu. Hann seg­ir heim­inn hafa breyst ótrú­lega mik­ið til batn­að­ar á þess­um ár­um en því mið­ur halli á ógæfu­hlið­ina í rekstri fjöl­miðla á Ís­landi. Af öll­um þeim at­burð­um sem hann hef­ur sagt frétt­ir af lögð­ust snjóflóð­in fyr­ir vest­an ár­ið 1995 þyngst á hann. Enn þann dag í dag man hann hvernig var að þurfa að lesa upp nöfn þeirra sem dóu í flóð­inu á Flat­eyri.
„Ég var bara glæpamaður“
3
Viðtal

„Ég var bara glæpa­mað­ur“

„Margt af því sem ég hef gert mun ég aldrei geta bætt fyr­ir,“ seg­ir Kristján Hall­dór Jens­son, sem var dæmd­ur fyr­ir al­var­leg­ar lík­ams­árás­ir. Hann var mjög ung­ur að ár­um þeg­ar ljóst var í hvað stefndi og fann ekki leið­ina út fyrr en ára­tug­um síð­ar. Í dag fer hann inn í fang­els­in til þess að hjálpa öðr­um, en það er eina leið­in sem hann sér færa til þess að bæta fyr­ir eig­in brot.
Hver er Jón Óttar? - „Ég hef sjálfur fylgst með fólki mánuðum saman“
4
Fréttir

Hver er Jón Ótt­ar? - „Ég hef sjálf­ur fylgst með fólki mán­uð­um sam­an“

Jón Ótt­ar Ólafs­son, einn þeirra sem stund­aði njósn­ir fyr­ir Björgólf Thor Björgólfs­son ár­ið 2012, gaf út glæpa­sögu ári síð­ar þar sem að­al­sögu­hetj­an er lög­reglu­mað­ur sem stund­ar hler­an­ir. Jón Ótt­ar vann lengi fyr­ir Sam­herja, bæði á Ís­landi og í Namib­íu, en áð­ur hafi hann ver­ið kærð­ur af sér­stök­um sak­sókn­ara, sem hann starf­aði fyr­ir, vegna gruns um að stela gögn­um.
Bannaður á leigubílastæðinu fyrir að leggja starfsfólk Isavia í einelti
6
Fréttir

Bann­að­ur á leigu­bíla­stæð­inu fyr­ir að leggja starfs­fólk Isa­via í einelti

Isa­via seg­ir leigu­bíl­stjóra, sér­stak­lega virk­an á sam­fé­lags­miðl­um, hafa lagt starfs­fólk flug­vall­ar­ins í einelti – með­al ann­ars með ásök­un­um í garð þess og nafn­birt­ing­um á net­inu. Hann hafi ver­ið sett­ur í ótíma­bund­ið bann vegna ógn­andi og óvið­eig­andi fram­komu. „Þetta er nátt­úr­lega óþægi­legt að mæta í vinn­una og verða svo fyr­ir áreiti,“ seg­ir einn starfs­mað­ur við Heim­ild­ina.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu