Þessi grein birtist fyrir rúmlega 10 mánuðum.

Álftadauði í gæsaveiðilandi á borði lögreglu – Fuglar lokkaðir á „blóðvöll“

Þær elska korn og þeg­ar því er dreift í tonna­vís á akra og tún eru þær mætt­ar um leið. Hundruð­um eða þús­und­um sam­an. Kroppa korn­ið. Þar til skot­hríð­in hefst. Þess­ar veiði­að­ferð­ir á gæs eru vel þekkt­ar. En um­deild­ar. Fleiri fugl­ar, sum­ir frið­að­ir, sækja í beit­una. Og eiga þá á hættu að lenda í skotlín­unni.

Álftadauði í gæsaveiðilandi á borði lögreglu – Fuglar lokkaðir á „blóðvöll“

Magnveiði á gæs, þar sem hver veiðimaður skýtur jafnvel tugi fugla á einum morgni, hefur verið stunduð í mörg ár á Íslandi, aðallega á Suðurlandsundirlendinu. Gæsin sækir þangað í kornakra og er beinlínis lokkuð á veiðisvæðin með fæðugjöf fram eftir vetri. Þarna koma þær saman í hundraða eða þúsundavís. Svangar og grandalausar. Við akrana bíða svo menn ofan í byrgjum. Klæddir felulitabúningum. Vopnaðir byssum. Og þegar rétta augnablikið kemur er hleypt af. „Þeir bara skjóta, skjóta, skjóta,“ segir einn viðmælandi Heimildarinnar um aðferðirnar sem eru löglegar en „siðferðislega á gráu svæði“, að mati fuglafræðings.

Þessi stórtæka gæsaveiði á kornökrum, sem hér verður kölluð magnveiði, er stunduð á nokkrum fjölda jarða eða skika á láglendi Suðurlands, ýmist af leigutökum eða landeigendum. Leyfi til veiða eru svo gjarnan seld til fólks, bæði Íslendinga og útlendinga á gæsaveiðitímabilinu sem stendur frá 20. ágúst til 15. mars. Veiðidagurinn getur, eftir því sem Heimildin kemst næst, kostað á bilinu 50–120 þúsund, eftir því hvar og hvenær er veitt.  

„Þetta er eins og að fóðra smáfugla úti í garði og skjóta þá svo út um bréfalúguna“
Skotveiðimaður um aðferðir við magnveiðar

Hver veiðimaður getur átt von á því að veiða tugi fugla á einum degi. Jafnvel hundruð, líkt og einn viðmælandi Heimildarinnar staðfestir. „Skutum tæplega 50 fugla, hefðu vel getað verið fleiri ef við hefðum hitt betur,“ skrifar veiðimaður nýverið á Facebook-síðu aðila sem býður upp á magnveiðar á landi sínu. „Þúsundir fugla á flugi um svæðið“, bætir hann við.

Þessi veiðimennska á lítið skylt við rómantísku staðalímyndina af velútbúna veiðimanninum sem gengur með byssu á bakinu um heiðar og fjöll til að skjóta, af þekkingu og virðingu fyrir dýrum, í matinn fyrir sig og sína. „Þetta er brútal. Viðbjóðslegt,“ segir einn viðmælandi. „Þetta er siðlaust,“ segir annar.

Það sem mörgu fólki, veiðimönnum sem öðrum, hugnast ekki við þessar aðfarir er t.d. aukin hætta á að særa fugla, að þeir séu lokkaðir með beitu og hversu gríðarlegt magn sé stundum veitt.

„Það er óviðunandi að menn séu að fóðra andfugla og skjóti þá síðan tugum saman á blóðvelli,“ segir Linda Karen Gunnarsdóttir, formaður Dýraverndarsambands Íslands (DÍS). „Sumir fuglarnir geta sloppið helsærðir. En það er erfitt að sjá og finna fugl sem kemst særður burt þegar þeir eru skotnir svo margir saman.“

Hún minnir á að samkvæmt reglugerð um fuglaveiðar eigi að elta uppi og aflífa særða fugla. DÍS hafi hins vegar fengið ábendingu um særða andfugla í grennd við þessa staði og að verið sé að drepa friðaða fugla. Það sé lögbrot.

Því það eru ekki eingöngu gæsir sem sækja í kornakrana og fóðurgjöfina. Aðrir fiðraðir grasbítar gera það einnig, svo sem hin alfriðaða álft. Og það í stórum stíl.

Við árbakkannSærðar álftir sækja í var við árbakka. Þar annaðhvort drepast þær eða vargur kemst í þær og drepur. Og síðan étur.

Helsærð álft

„Ég hafði frétt um málið úr nokkrum áttum og ákvað að fara á vettvang og skoða,“ segir viðmælandi Heimildarinnar sem vill, líkt og fleiri sem rætt var við vegna málsins, ekki láta nafns síns getið. „Það fyrsta sem ég sé er helsærð álft á veginum beint fyrir framan veiðihúsið. Hún gat bara hreyft hálsinn. Hún var með skotsár. Ég varð að hringja í mann og biðja hann að koma og aflífa hana.“

Lýsing á því sem fyrir augu bar á þessu gæsaveiðisvæði á Suðurlandi nýverið heldur svo áfram: „Ég ákvað að ganga niður með á sem rennur í gegnum svæðið. Þá blasir við hvítt fiður úti um allt. Svo fer maður að sjá hræ eitt af öðru. Dauðar álftir. Stundum unga með blá fit. Ég taldi líklega um fjörutíu hræ. Og ekki af neinum öðrum fuglum en álftum.“

Lítur málið alvarlegum augum

Bjarni Jónasson, teymisstjóri hjá Umhverfisstofnun (UST), staðfestir að stofnuninni hafi borist ábendingar um dráp á álftum á umræddu svæði. „Við höfum einnig verið í sambandi við lögreglu út af málinu,“ segir hann og ítrekar að álftir séu friðaðar. „Við lítum á að málið sé í vinnslu og tökum því alvarlega.“

Tómas Grétar Gunnarssonfuglafræðingur.

Magnveiði á gæsum virðist hafa aukist síðustu ár og áratugi, að sögn Tómasar Grétars Gunnarssonar fuglafræðings. Ekki sé ólíklegt að þær eigi þátt í því að grágæsastofninn eigi nú undir högg að sækja.

Niðurstöður langtíma vöktunar á íslensk-breska grágæsastofninum hafa sýnt fram á fækkun í honum frá 2012 og í haust var sett á bann við sölu á grágæs þótt enn sé heimilt að veiða hana. „Veiði getur haft áhrif á stofninn og því meiri og þéttari veiði því meiri geta áhrifin mögulega verið,“ segir Svenja Auhage, umhverfis- og vistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun. Hins vegar skorti frekari rannsóknir á tengslum veiða og stofnstærða. Sölubannið geti haft áhrif á magnveiðar en áhrif bannsins á stofnstærð tegundarinnar eigi hins vegar eftir að koma í ljós.

Þegar umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra bannaði sölu á grágæs síðasta haust kom fram að unnið væri að því að útfæra nánar eftirlit með banninu enda höfðu áhyggjur vaknað um að grágæs yrði seld inn á veitingahús og í verslanir sem heiðagæs, gæs af stærri stofni sem má bæði veiða og selja. Ekkert bólar hins vegar enn á því eftirliti, engar greiningar á þeim gæsaafurðum sem seldar eru hafa farið fram. Umhverfisstofnun, sem hefur þetta verkefni með höndum, hefur beðið ráðuneytið um fjárheimildir til verksins. Einnig hefur verið leitað til Matvælastofnunar um aðstoð við sýnatöku „og okkur skilst að málið sé í vinnslu“, segir Bjarni teymisstjóri hjá UST. Engar tilkynningar um sölu á grágæs hafi borist eftir að sölubannið tók gildi.

HrúgurÍ myndböndum og á myndum sem birtar hafa verið á Facebook-síðum í haust má sjá stóra stafla af dauðum grágæsum.

Af þeim myndum að dæma sem settar hafa verið inn á Facebook-síður aðila sem bjóða og stunda magnveiðar, má ætla að bráðin þetta haustið sé sem fyrr fyrst og fremst grágæs. Það kann vissulega að vera að veiðimennirnir geymi þær í tugatali í frystikistum sínum eða gefi vinum og vandamönnum.

Að grágæsin sé enn aðallega veidd er ekki óvænt því heiðagæs heldur sig að mestu uppi á hálendi. Hún tyllir sér þó einstaka sinnum og í ríkari mæli með stækkandi stofni, á akra og tún að hausti áður en hún heldur til vetrarstöðva á hlýrri slóðum. „Mest af heiðagæsum hefur þó verið veitt á hálendinu,“ segir Tómas. „Menn sitja við vötn og tjarnir á kvöldin og veiða fáar gæsir. Það er mjög skemmtilegur veiðiskapur.“

Hrein og klár atvinnuveiði

Áður fyrr voru grágæsir mest veiddar í túnum. Þær kjósa hins vegar korn fram yfir gras og þess vegna sækja þær í akra á láglendi. Kornrækt hefur aukist á Íslandi sem og annars staðar sem gæti skýrt þá staðreynd að á meðan fuglum á norðurhveli jarðar hefur líklega fækkað um fjórðung eða svo frá 1970 hefur grasbítum á borð við gæsir og álftir almennt fjölgað. „Þessi tengsl milli landbúnaðarlands og gæsa eru mjög sterk,“ segir Tómas. Í dag sé veiði á þeim mikið bundin við kornakra. „Og veiðin er að miklu leyti orðin hrein og klár atvinnuveiði.“

Helstu álitamál í tengslum við magnveiðarnar eru að mati Tómasar tvenns konar: Fóðrunin og vetrarveiðar.

SærðarÍ fyrravetur sáust særðar gæsir á Suðurlandinu á tíma þegar miklar vetrarhörkur geisuðu. Þær draga vængina, líkt og sjá má á myndinni.

Þegar gæsir og aðrir grasbítar hafa étið allt það korn sem eftir er í ökrum síðla hausts er það stundað að dreifa í þá korni. Ýmist korni sem viðkomandi hefur ræktað sjálfur eða hann kaupir jafnvel í tonnavís. „Þetta býr til rosalegan segul fyrir gæsir,“ segir Tómas. Athæfið sé talið löglegt en „þarna er verið að beita fyrir fugla til þess að geta stráfellt þá í atvinnuskyni og það finnst mörgum svolítið ljótt“.

Að mati Bjarna hjá Umhverfisstofnun er ekki ólöglegt að bera út korn fyrir gæsir. Á þessum veiðiaðferðum séu hins vegar misjafnar skoðanir „og ég get staðfest að okkur berast stundum ábendingar þar sem sumum fellur þetta illa“.

Spurð hvort magnveiði á gæs auki líkur á því að særa fuglana líkt og formaður DÍS bendir á segir Svenja hjá Náttúrufræðistofnun málið töluvert flókið. „Kornrækt og veiði á Suðurlandi ganga í takt sums staðar þar sem sumir kornakrar eru aðallega ræktaðir undir gæsaveiðar,“ segir hún. „Þannig að þarna er verið að búa til eftirsóknarvert fæðuöflunarsvæði fyrir gæsir þar sem þéttir hópar safnast saman.“

Með þessu móti er sá tími sem gæsir komast í æti hér á landi mögulega lengdur.

Og þá erum við komin að hinu álitamálinu sem fer fyrir brjóstið á mörgum. „Veturseta gæsa hefur aukist, sérstaklega á láglendi Suðurlands,“ útskýrir Tómas. „Þegar það eru jarðbönn, líkt og í fyrra þegar komu miklir frostakaflar, þá var talsvert af gæsum í bágbornu ástandi.“

Á akriHundruð gæsa og álfta á akri. Þangað koma þær í afgangs korn en einnig er dreift korni til að lokka þær þangað. Myndavélar eru á sumum ökrunum.

Því þessa vetursetu við oft erfiðar aðstæður eru sumir að gera út á. „Lokka gæsirnar í litla bletti þegar lítið er að hafa og stráfella þær, í desember og jafnvel janúar,“ heldur Tómas áfram. „Það finnst mörgum veiðimanninum subbulegt. En það er ekki ólöglegt.“

Efast um árangur af álftaveiðum

Álftir geta verið skaðvaldur í túnum og á ökrum og hafa bændur óskað eftir heimildum til að skjóta hana. „Líkt og með gæsirnar þá eru álftir ein af þessum tegundum sem skarast á við hagsmuni fólks,“ segir Tómas. Það sé vissulega sjónarmið út af fyrir sig, að stofnar þessara grasbítandi fugla séu að stækka og valda tjóni. „En það er mjög óvíst að veiðar myndu skila einhverju að gagni í þessum tilgangi.“

Máli sínu til stuðnings bendir hann á að undanfarna áratugi hafi líklega um fjórðungur af stofni grágæsar, frænku álftarinnar, verið felldur ár hvert en það hafi lítil sem engin áhrif haft á stofnstærð og dreifingu nema kannski allra síðustu misseri.

Ef álftir væru drepnar í álíka hlutfalli, þyrfti að drepa mörg þúsund á hverju hausti og alveg óvíst að það hefði nokkur áhrif á stofnstærð eða dreifingu. Þannig að til að ná því markmiði að minnka tjón svo einhverju nemi þyrfti mögulega að fara í mjög stórtækar veiðar og slíkt yrði að mati Tómasar mjög óvinsælt. Að halda utan um slíkar veiðar myndi líka fela í sér verulegan kostnað. Álftir hafi einnig mikið aðdráttarafl á verndarsvæðum í Bretlandi og víðar. „Mér kæmi ekki á óvart að fjárhagslegir hagsmunir af lifandi álftum séu í heild meiri en tjónið sem þær valda.“

Það sama gæti átt við um gæsir. Í veiðum á þeim, ekki síst þessari miklu magnveiði, felist miklir fjárhagslegir hagsmunir.

Reyndur skotveiðimaður sem hefur kynnt sér vel fyrirkomulag magnveiða, gagnrýnir þær harðlega í samtali við Heimildina. „Þetta er eins og að fóðra smáfugla úti í garði og skjóta þá svo út um bréfalúguna,“ segir hann um aðfarirnar og heldur áfram í samlíkingunum: „Þetta er eins og að fara til veiða í fiskeldi með net. Það er löngu kominn tími á að taka á þessu ógeðslega og siðlausa drápi á öllum þessum fuglum.“

SkotveiðiGæsaveiði er mikil á Suðurlandi. Síðustu ár hafa þúsundir gæsa verið skotnar ár hvert en nú er grágæsastofninn að minnka og bann hefur verið sett við sölu á slíkum gæsum. Það má þó enn veiða þær.

Hann telur að gæsaveiði hafi breyst hratt á síðustu 1–2 áratugum þegar fleiri aðilar fóru að gera út á magnveiðar líkt og á undan er lýst. Fóðrað sé af kappi síðla hausts, fuglarnir telji sig komna í vænt hlaðborð og fari því ekki til hefðbundinna vetrarstöðva sinna. Svo sé jafnvel allt í einu skrúfað fyrir fóðurgjöfina og fuglarnir horist niður.

Hann gagnrýnir enn fremur að veiðitímabilið standi fram í miðjan mars. Þá þegar séu varppör farin að koma erlendis frá. Sumir séu þá enn að dreifa korni í tún og veiða. „Þetta eru ekki veiðimenn í mínum huga. Þetta kemur í raun engri veiði við.“

Högl í lifandi álftum og gæsum

Um síðustu aldamót sýndi rannsókn fram á að um 13,6 prósent lifandi álfta á Íslandi væru með högl í sér. Þar sem álftir eru almennt farfuglar er ekki hægt að fullyrða að höglin hafi öll komið frá íslenskum veiðimönnum.

Í lok tíunda áratugar síðustu aldar höfðu rannsóknir í Danmörku sýnt að skotveiðimenn særðu oft jafnmarga fugla og þeir veiddu. Viðbrögðin voru þau að hefja vitundarvakningu sem skilaði þeim árangri að áratug síðar voru um 7–11 prósent ungra, lifandi gæsa með högl í sér og um 18 prósent eldri gæsa.  

„Í mínum huga er eina afsökunin fyrir hvers konar sportveiðiskap sú að þú ætlir að borða bráðina sjálfur með þínum nánustu.“
Tómas Grétar Gunnarsson
fuglafræðingur

Í lögum um velferð dýra eru ákvæði sem skylda menn til að standa þannig að veiðum að þær valdi dýrunum sem minnstum sársauka og aflífun þeirra taki sem skemmstan tíma. Þá er veiðimönnum skylt að gera það sem í þeirra valdi stendur til að aflífa þau dýr sem þeir hafa valdið áverkum.

„Þessi aðferð við veiðar er bæði siðlaus og grimm gagnvart dýrunum,“ segir Linda Karen, formaður DÍS, um magnveiðarnar. „Stjórnvöld verða að skoða þessi mál.“

Hún segir fyrsta skrefið að efla eftirlit, ekki síst það sem fram á að fara til að tryggja að grágæs sé ekki seld til veitingahúsa. Þá vill hún að sérstaklega verði tekið á veiðum af friðuðum fuglum.

 „Ég hef veitt gæsir frá því að ég var barn svo ég er nú ekki alsaklaus í þessum bransa,“ segir fuglafræðingurinn Tómas. Hann hafi m.a. reynt sig við veiðar á kornökrum. „Í mínum huga er eina afsökunin fyrir hvers konar sportveiðiskap sú að þú ætlir að borða bráðina sjálfur með þínum nánustu. Þessi magnveiði, hún er nánast bara skotæfing og subbuleg iðja í þokkabót.“ 

Sjálfum finnst honum magnveiðarnar á siðferðislega gráu svæði. Ýmsar spurningar vakni. „Við erum með þessa villtu stofna, sem eru tiltölulega litlir. Er eðlilegt að fara svona með þá? Að keyra veiðina gjörsamlega upp að þeim mörkum sem stofninn þolir? Þessir stofnar eru ekki til fyrir íslenska veiðimenn. Þeir eru partur af vistkerfinu og við deilum þeim með öðrum þjóðum.“

Kjósa
31
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (2)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Vilborg Norðdahl skrifaði
    Þetta er meiri villimennskan. "KARLMENNI" hér á ferð? Er þetta gaman strákar. Alvöru karlmenn skjóta eingungu á fugla og dýr með takkanum á myndavélinni sinni. Fífl.
    2
  • Anton Jóhannesson skrifaði
    Þetta er ljótt, virkilega ljótt.
    3
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Síðasta tilraun Ingu Sæland
2
ViðtalFormannaviðtöl

Síð­asta til­raun Ingu Sæ­land

Flokk­ur fólks­ins var stofn­að­ur til að út­rýma fá­tækt á Ís­landi, sem Inga Sæ­land, formað­ur flokks­ins, þekk­ir af eig­in raun. Hún boð­ar nýtt hús­næð­is­kerfi með fyr­ir­sjá­an­leika og nið­ur­skurð í öllu því sem heita að­gerð­ir gegn lofts­lags­breyt­ing­um. Græn­asta land í heimi eigi að nota pen­ing­ana í heil­brigðis­kerfi og aðra inn­viði sem standi á brauð­fót­um.
Samfylkingin geri „ófrávíkjanlega kröfu“ um flugvöllinn í Vatnsmýri
3
StjórnmálAlþingiskosningar 2024

Sam­fylk­ing­in geri „ófrá­víkj­an­lega kröfu“ um flug­völl­inn í Vatns­mýri

Fyrr­ver­andi formað­ur Sam­fylk­ing­ar­inn­ar seg­ir að það sé „ófrá­víkj­an­leg krafa“ flokks­ins að Reykja­vík­ur­flug­völl­ur verði á sín­um stað þar til nýr flug­vall­ar­kost­ur fyr­ir höf­uð­borg­ar­svæð­ið verði til­bú­inn. Með auknu fylgi Sam­fylk­ing­ar á lands­byggð­inni og raun­ar um allt land hafa við­horf­in með­al stuðn­ings­manna flokks­ins til fram­tíð­ar­stað­setn­ing­ar Reykja­vík­ur­flug­vall­ar breyst tölu­vert.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Leyniupptaka lýsir vinargreiða og hrossakaupum Bjarna og Jóns
1
Afhjúpun

Leyniupp­taka lýs­ir vin­ar­greiða og hrossa­kaup­um Bjarna og Jóns

Son­ur og við­skipta­fé­lagi Jóns Gunn­ars­son­ar þing­manns full­yrð­ir í upp­tök­um sem tekn­ar voru af manni sem sagð­ist vera fjár­fest­ir að Jón hafi sam­þykkt beiðni Bjarna Bene­dikts­son­ar um að þiggja sæti á lista gegn því að Jón kom­ist í að­stöðu til veita veiði­leyfi til Hvals hf. Það verði arf­leifð Jóns að tryggja Kristjáni Lofts­syni nán­um vini sín­um leyf­ið. Það sé hins veg­ar eitt­hvað sem eigi að fara leynt.
„Hann sagðist ekki geta meir“
2
Viðtal

„Hann sagð­ist ekki geta meir“

„Ég gat ekki bjarg­að barna­barn­inu mínu. En ef það verð­ur til þess að ég geti kannski bjarg­að ein­hverj­um, þó ekki nema einu barni, þá vil ég segja sögu okk­ar,“ seg­ir Þór­hild­ur Helga Þor­leifs­dótt­ir kennslu­ráð­gjafi. Son­ar­son­ur henn­ar, Pat­rek­ur Jó­hann Kjart­ans­son Eberl, fannst lát­inn mið­viku­dag­inn 12. maí 2021, að­eins fimmtán ára gam­all. Hann hafði svipt sig lífi.

Mest lesið í mánuðinum

Leyniupptaka lýsir vinargreiða og hrossakaupum Bjarna og Jóns
1
Afhjúpun

Leyniupp­taka lýs­ir vin­ar­greiða og hrossa­kaup­um Bjarna og Jóns

Son­ur og við­skipta­fé­lagi Jóns Gunn­ars­son­ar þing­manns full­yrð­ir í upp­tök­um sem tekn­ar voru af manni sem sagð­ist vera fjár­fest­ir að Jón hafi sam­þykkt beiðni Bjarna Bene­dikts­son­ar um að þiggja sæti á lista gegn því að Jón kom­ist í að­stöðu til veita veiði­leyfi til Hvals hf. Það verði arf­leifð Jóns að tryggja Kristjáni Lofts­syni nán­um vini sín­um leyf­ið. Það sé hins veg­ar eitt­hvað sem eigi að fara leynt.
Grunaði að það ætti að reka hana
4
Viðtal

Grun­aði að það ætti að reka hana

Vig­dís Häsler var rek­in úr starfi fram­kvæmda­stjóra Bænda­sam­tak­anna eft­ir að nýr formað­ur tók þar við fyrr á ár­inu. Hún seg­ir kosn­inga­vél Fram­sókn­ar­flokks­ins hafa ver­ið gang­setta til að koma hon­um að. Vig­dís ræð­ir brottrekst­ur­inn og rasísk um­mæli sem formað­ur Fram­sókn­ar­flokks­ins hafði um hana. Orð­in hafi átt að smætta og brjóta hana nið­ur. Hún seg­ist aldrei munu líta Sig­urð Inga Jó­hanns­son sömu aug­um eft­ir það.
Missir húsið upp í skattaskuld fyrrverandi eiginmanns
6
Fréttir

Miss­ir hús­ið upp í skatta­skuld fyrr­ver­andi eig­in­manns

Fyrr­ver­andi eig­in­kona Sig­urð­ar Gísla Björns­son­ar í Sæ­marki sér fram á að missa fast­eign sína upp í skatta­skuld hans, eft­ir úr­skurð Hæsta­rétt­ar í síð­ustu viku. Hjóna­band­inu lauk fyr­ir rúm­um ára­tug og fjög­ur ár voru lið­in frá skiln­aði þeirra þeg­ar Sæ­marks-mál­ið, sem snýr að um­fangs­mikl­um skattsvik­um Sig­urð­ar, komst upp.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár