Í fyrri hluta þessarar greinar var lagt út frá ummælum Dr. Ólafs Ragnars Grímssonar, fyrrum forseta Íslands, þess eðlis að það þjónaði ekki hagsmunum Íslands að ganga í ESB og að flest nágrannaríki okkar væru ekki þar inni. Í samtali við blaðamenn Morgunblaðsins („Hringferðin“ - er að finna á Spotify) sagði Ólafur Ragnar orðrétt: „Það er athyglisvert, ef þú horfir til okkar nágranna, Grænlendinga, Breta, Færeyinga, Norðmanna, ekkert af þessum ríkjum er í Evrópusambandinu, ekkert.“
Í þessum seinni hluta verður meðal annars fjallað um verðbólgu og vaxtamál. Höfundur vill þó taka fram hér í upphafi þessa seinni hluta að öll stærstu lönd Norðurlanda, Svíar, Finnar (1995) og Danir (1973) eru með í ESB, en Danir fóru inn með Írum og Bretum á sínum tíma.
Verðbólgubál íslensku krónunnar
Verðbólga hefur verið krónískur fylgifiskur íslensku krónunnar. Í þætti RÚV, Kveik, frá 5. desember síðastliðnum, kom fram að á 20 ára tímabili á síðustu öld var meðalverðbólga hér á Íslandi um 30%. Það segir sig sjálft hverskonar skaða slíkt ástand veldur fyrirtækjum og almenningi. Um tíma í kringum 1983 fór verðbólgan í tæp 86% .
Í viðtalinu við Ólaf Ragnar „Hringferðin“, segir hann það „merkilegt“ að það séu aðeins Finnar sem tekið þá ákvörðum og metið hagsmuni sína þannig, að ganga til liðs við evrusamstarfið og taka upp evru sem gjaldmiðil. Skilja má á Ólafi það það sé eitthvað skrýtið, en Finnar eru jú þekktir fyrir að vera klók þjóð, búandi við hliðina á mesta ógnvaldi heimsins um þessar mundir, Rússum.
Í nýlegu viðtali við Olli Rehn, fyrrum yfirmann efnahagsmála hjá ESB (þekkt nafn hér á landi þegar Ísland var í við ræðum við ESB um mögulega aðild) frá því í fyrra, segir hann að um 86% Finna séu ánægðir með evruna. „Evran veitir okkur lægri vexti, stöðugleika og fyrirsjáanleika,“ segir Olli Rehn, sem nú er seðlabankastjóri Finnlands.
„Enda er það svo að húsnæðiseigendur hér á landi borga um 1,5 til 2 fasteignir þegar upp er staðið, miðað við nágrannalönd okkar.“
Fyrirsjáanleiki er t.d. nokkuð sem er (og hefur verið) nánast ómögulegt fyrirbæri hér á landi. Það veit enginn hvað utanlandsferðin kemur til með að kosta, ekki bara vegna sveiflna á gjaldmiðlinum, heldur einnig vegna mismunandi þjónustugjalda og gengis hjá fjármálastofnunum. Sem auðvitað er galið! Sama á við um húsnæðiskaup, enginn veit hvað hann mun borga fyrir sína fasteign þegar upp er staðið. Hvaða skilaboð sendir þetta t.d. ungu fólki?
Almenningurinn valdalausi
Í áðurnefndum Kveiksþætti kom einnig fram, og þetta er löngu þekkt staðreynd, að vel á þriðja hundrað stórfyrirtækja hérlendis gera upp í erlendum gjaldmiðli og vinna í raun í erlendu gjaldmiðlaumhverfi. Þetta gera þau m.a. til að sleppa við óstöðugleika íslensku krónunnar og fá betri vaxtakjör.
En hvað með almenning? Nei, hann verður að súpa seyðið af því í sínu daglega lífi að búa við krónuna, með þeim vanköntum sem henni fylgja, verðbólgu, háum vöxtum og verðtryggingu.
Enda er það svo að húsnæðiseigendur hér á landi borga um 1,5 til 2 fasteignir þegar upp er staðið, miðað við nágrannalönd okkar. Það er því mikið óréttlæti sem fylgi krónunni.
En staðan er samt þannig að það er einskonar „tabú“ að ræða gjaldmiðilsmál á Íslandi, einhver líkti þessu við „fulla frændann í fermingarveislunni.“ Hann er þarna, en enginn þorir að tala við hann eða um. Það er bara sagt „uss uss.“
Þeir sem ræða gjaldmiðilsmál eru gjarnan stimplaðir sem hálfgerðir landráðamenn og að þeir sýni ekki þjóðarhollustu. Því er það nánast eins og trúarbrögð að hér skuli íslenska krónan bara vera um aldur og ævi og annað sé bara ekki til umræðu. Þrátt fyrir ótrúlega galla og ótrúlegan skaða sem hún hefur valdið þjóðarbúinu.
Landbúnaðurinn gjaldþrota vegna vaxta og verðbólgu
Nú nægir að horfa til landbúnaðarins um þessar mundir, sem er í raun gjaldþrota, vegna verðbólgu og hárra vaxta. Á meðan Ísland var í aðildarviðræðum við ESB (fyrir um áratug síðan) básúnuðu bændur að ESB myndi rústa landbúnaðinum á Íslandi. Hver er staðan nú og hverju er þar um að kenna? Að minnsta kosti ekki ESB.
Væntanlega verður milljörðum króna mokað inn í landbúnaðarkerfið, nokkuð sem reglulega hefur verið gert. Þeir peningar koma að sjálfsögðu frá almenningi. Þetta er gamalkunnugt og einfalt ráð, að seilast í vasa almennings. Í stað þess að gera þarfar umbætur.
Ólafur Ragnar Grímsson var fjármálaráðherra Íslands frá 1988-1991, þannig að hann veit hvað skiptir máli fyrir fólk. Árið 1988 var um 25% verðbólga hér á landi. Á þessum tíma voru gengisfellingar algengar, sagt var að forsvarsmenn í sjávarútvegi hefðu getað hringt í ríkisstjórnina og beðið um gengisfellingu fyrir sjávarútveginn. Svona rétt eins og að panta pizzu.
Það þýddi auðvitað meiriháttar kaupmáttarskerðingu fyrir almenning og hækkað vöruverð. Þetta bitnaði auðvitað líka illa á öðrum fyrirtækjum en þeim sem voru í sjávarútvegi. Eftir þetta var gerð „Þjóðarsátt“ til að reyna að koma böndum á krónuna og afleiðingar hennar.
30 gengisfellingar
Á árunum 1950-1993 var gengi íslensku krónunnar fellt 30 sinnum! Frá 2001 hefur gengið verið „fljótandi“ þar sem yfirvöld peningamála hér gáfust upp á því að reyna að halda gengi krónunnar stöðugu. Til samanburðar felldu Danir gengi dönsku krónunnar tvisvar sinnum frá árinu 1949 til 2000. Hvað segir þetta okkur? Jú, að krónan sé tæki til þess að skapa óstöðugleika fremur en stöðugleika. Hún er eitthvað fyrirbæri sem stjórnmála og áhrifamenn geta „tuskað til“ – allt á kostnað almennings.
Ísland er með minnsta sjálfstæða gjaldmiðil í heimi og stundum er sagt að „margur sé knár þó hann sé smár“, en það á ekki við í þessu tilfelli. Auðvitað væri gáfulegast fyrir land og þjóð að taka upp þráðinn að nýju um aðildarumsókn að ESB, en um 60% þeirra sem svöruðu könnun um þessi mál fyrr í haust vilja taka upp aðildarviðræður við ESB. Og fleiri eru nú hlynntir aðild að ESB en á móti (Gallup.is, 2022).
Næstum Evrópumet í vaxtakostnaði
Í þeim viðræðum væru gjaldmiðilsmálin einn mikilvægasti þátturinn, þar sem það er samdóma álit allra að gengisfellingar séu ónothæfar sem hagstjórnartæki, enda reynslan af þeim skelfileg. Íslendingar, bæði fyrirtæki og almenningur eiga skilið stöðugleika og fyrirsjáanleika í sínu daglega lífi. Að ekki sé talað um sjálft íslenska ríkið, sem á næstum Evrópumet í hlutfallslegum vaxtakostnaði, aðeins Ítalía borgar meiri vexti, en þeir hafa ekki þótt vera miklir snillingar í ríkisfjármálum.
Árið 2023 borgaði ríkissjóður yfir 150 milljarða í vexti, sem er um helmingur af framlögum til heilbrigðismála árið 2022. Þetta flokkast undir svokallaða „sturlaða staðreynd.“
Þurfum við ekki bara nýtt „sjóðheitt hagsmunamat“ og gefa hinu ískalda frí? Á sínum tíma var hið svokallaða „kalda hagsmunamat“ sem Ólafur Ragnar talar svo gjarnan um sterklega litað af hræðsluáróðri og rangfærslum, sérstaklega í sambandi við umsókn Íslands að ESB. Þar var miklu ryki þyrlað upp.
Það er nefnilega auðveldasti hlutur í heimi að hræða fólk og kjósendur upp úr skónum með óttanum við hið óþekkta. Og þetta er t.d. eitt sterkasta vopnið í vopnabúri svokallaðra „lýðskrumara“ eða „popúlista,“ það gaf góða raun í Brexit og er stöðugt beitt á fólk.
Er ekki kominn tími til að gefa „rússíbanareiðinni“ frí í íslenskum efnahagsmálum? En leita í staðinn að lausnum sem koma á varanlegum stöðugleika?
Athugasemdir (1)