Á dögunum voru fimm menn handteknir í Úkraínu og sá sjötti náðist á flótta yfir landamærin. Sumir þeirra eru kaupsýslumenn, aðrir starfsmenn varnarmálaráðuneytisins í Kyiv. Þeir eru grunaðir um að hafa dregið sér 40 milljónir dollara af peningum sem vinaríki Úkraínu lögðu fram til kaupa á skotfærum og það er víst enginn vafi á að þeir séu sekir.
Þetta er því miður aðeins eitt dæmi um hvernig spilltir og siðlausir embættismenn, herforingjar og kaupsýslumenn í Úkraínu hafa makað krókinn af því peningaflæði sem berst til landsins svo það megi verjast hinni grimmilegu innrás Rússa.
Þess eru líka dæmi að komist hafi upp um Úkraínumenn sem reynst hafa beinlínis vinna í þágu Rússa. Þar er bæði um að ræða óbreytta borgara og embættismenn og meira að segja hermenn. Ekki marga en fáeina þó.
Og hvað gerum við? Hvað gerir ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hér uppá Íslandi?
Stekkur hún til og hættir allri samvinnu við stjórnina í Kyiv? Lætur hún stöðva alla aðstoð okkar við landið, bæði fjárhagslega og aðra, út af þeirri spillingu og lögleysu sem komið hefur á daginn í Úkraínu?
Auðvitað ekki.
Þótt vissulega sé misjafn sauður í mörgu fé í Úkraínu, þá látum við ekki nokkra spillta úkraínska einstaklinga koma í veg fyrir að við leggjum hrjáðum löndum þeirra lið í baráttunni við grimman innrásarher. Og ekki einu sinni þó þessir einstaklingar reynist því miður vera allmargir.
Nei, við höldum blessunarlega áfram aðstoð okkar við almenning í Úkraínu og metum að verðleikum tilraunir stjórnarinnar í Kyiv til þess að uppræta spillinguna í landi sínu.
Þannig sýnir ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur að hún hefur siðferðilegt bein í nefinu.
Er það ekki?
Ja, nú læðist að manni efi.
Fyrir örfáum dægrum gerðist það að dómstóll Sameinuðu þjóðanna úrskurðaði að Ísrael bæri að láta af villimannlegum hernaði sínum gegn óbreyttum borgurum á Gasa.
Þetta er ekki orðrétt úr úrskurði dómstólsins og fyrir mína parta hefði hann átt að ganga lengra, en þetta var samt í rauninni það sem í úrskurðinum fólst.
Alveg sama þó glæpamaðurinn Netanyahu reyndi að bera sig borginmannlega og ljúga því að einfeldningum að úrskurður dómstólsins væri í rauninni Ísraelsstjórn í hag.
Enda gripu stjórnvöld í Ísrael umsvifalaust til aðgerða til að reyna að dreifa athyglinni frá úrskurði dómstólsins. Strax daginn eftir töfruðu þau fram væna smjörklípu.
Þá lögðu þau fram ásakanir og vísbendingar um að starfsmenn flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna — sem reynir að liðsinna óbreyttum borgurum á Gasa í þeim hörmungum sem yfir þá dynja — að starfsmennirnir hefðu gerst sekir um viðurstyggilegt athæfi með því að fagna, liðsinna og jafnvel taka þátt í hryðjuverkum Hamas þann 7. október.
Það hljómar náttúrlega ekki vel.
Og einfeldningar ruku upp til handa og fóta — og raunar líka flest þau sem vilja sem minnst af þjáningum Palestínumanna á Gasa vita.
Og ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur skipaði sér nær umsvifalaust í litla fylkingu hörðustu stuðningsmanna Netanyahus.
Með því að stöðva formálalaust fjárhagsstuðning Íslands við flóttamannahjálpina.
Um það gaf utanríkisráðherrann Bjarni Benediktsson út sérstaka yfirlýsingu í gær, vitanlega og væntanlega í umboði allrar ríkisstjórnarinnar.
Stöðva fjárhagsstuðning sem þó hefur ALDREI verið meiri þörf fyrir en einmitt núna.
En hvað er málið?
Eftir því sem næst verður komist hafa ísraelsk stjórnvöld lagt fram ásakanir á hendur tólf starfsmönnum flóttamannahjálparinnar en þeir eru alls 13.000 á Gasa og nágrenni.
Hin meintu skemmdu epli eru sem sé 0,09 prósent starfsmanna.
Og það er reyndar alls ekki öldungis á hreinu ennþá um hvað starfsmenninir eru sakaðir. Þaðan af síður um hvað þeir eru sekir.
Athugið að það er engan veginn hægt að taka fullyrðingar Ísraelsmanna á þessu stigi sem heilagan sannleika. Stjórnvöld þeirra hafa margoft verið staðin að villandi málflutningi og hreinum lygum.
Þetta vita allir nema einfeldningar.
Ekki vantar samt öflug viðbrögð Sameinuðu þjóðanna.
Guterres aðalritari SÞ hefur upplýst að af þessum tólf hafi níu umsvifalaust verið reknir úr starfi og nákvæm rannsókn muni fara fram á störfum þeirra allra. Hafi þeir brotið af sér muni þeir svara til saka.
Þá rannsókn muni óháður aðili annast.
Einn af tólfmenningunum reyndist vera dáinn og ekki virðist vera alveg á hreinu hverjir þeir tveir eru sem út af standa.
En Guterres segir að það verði líka rannsakað hátt og lágt.
Og aðalritarinn hefur birt mjög afdráttarlausa yfirlýsingu þar sem öll möguleg brot þessa 0,09 prósents eru fordæmd.
Það þurfti ekki hvatningu Vesturlanda til að SÞ brygðust svona skjótt og hart við.
Það þurfti ekki hvatningu Bjarna Benediktssonar eða Katrínar Jakobsdóttur til.
Sameinuðu þjóðirnar brugðust einfaldlega sjálfar við af ábyrgð og festu.
En þrátt fyrir öll vafaatriði málsins, þrátt fyrir að aðeins sé um að ræða örlítið brot starfsmanna flóttamannahjálparinnar og þrátt fyrir þá ótrúlegu neyð sem óbreyttir borgarar á Gasa standa nú frammi fyrir og versnar með hverjum deginum, þá hefur ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, Bjarna Benediktssonar og Sigurðar Inga nú í reynd skipað sér í sveit „hinna staðföstu þjóða“ sem svo voru einu sinni kallaðar.
Hún hámar í sig smjörklípuna frá glæpamanninum Netanyahu (sem er raunar líka fjárplógsmaður í ofanálag við annað) og ríkisstjórn Íslands hefur um leið tekið skýra afstöðu gegn almenningi á Gasa, því eins og Guterres aðalritari hefur líka sagt, þá mun það hafa ólýsanlegar hörmungar í för með sér ef flóttamannastofnunin verður að draga úr eða hætta starfsemi vegna fjárskorts.
En ríkisstjórn Katrínar, Bjarna og Sigurðar Inga virðist láta sér það í léttu rúmi liggja.
Þótt hún styðji (sem betur fer) Úkraínu áfram, þrátt fyrir margsönnuð brot einstaklinga þar, þá gildir öðru máli á Gasa.
Því ríkisstjórn Sigurðar Inga, Bjarna og Katrínar kýs að nota þetta tækifæri til að gefa til kynna óbrotgjarnan stuðning sinn við Netanyahu. Og taka þátt í því með einfeldningum sínum að tortryggja Palestínumenn og alla þá sem reyna að leggja þeim lið.
Og þó er Ísland eitt sárafárra ríkja sem hefur veitt ríki Palestínumanna fulla diplómatíska viðurkenningu.
Katrín Jakobsdóttir sat meira að segja sjálf í þeirri ríkisstjórn sem það gerði.
Og þóttist stolt af.
En nú hafa Bjarni, Katrín og Sigurður Ingi stungið í bakið það hrjáða ríki sem við hétum þá að styðja — og þá hrjáðu þjóð.
Í fyrsta lagi að hamas skuli láta alla gísla lausa. Hafa þeir gert það?
Í öðru lagi, að Ísrael skuli vernda palestínumenn betur.
Af hverju heyrir maður aldrei fyrri hlutann?
Annars er eitt sem tengist úrskurði ICJ og því sem greinin fjallar um; að það væri áhugavert að vita hvort íslensk stjórnvöld séu með þessu að brjóta gegn Genfarsáttmálanum.
Mjög fróðlegt