Í Facebook-hópnum „Hundasamfélagið“ sköpuðust nýlega miklar umræður um konu sem er sögð vera þekkt í miðbænum fyrir einelti í garð hundaeigenda. Hún er sögð stunda það að elta fólk og taka myndir af því þegar það er úti að ganga með hundana sína.
Fjölmargir hundaeigendur virðast kannast við þá upplifun að konan angri þá. „Skelfing er ég fegin að vera flutt. Get gengið með mína tvo í friði þar sem ég bý núna,“ skrifar ein kona á Facebook. Heimildin ræddi við þrjá eigendur sem lýstu upplifunum sínum af konunni. Einn þeirra hefur ítrekað lent í henni, annar segir sér hafa liðið eins og hann hefði drukkið eitur eftir að hafa hitt hana fyrir.
Var ógnandi og hræddi hundinn
Omel Svavarss hundaeigandi segir við blaðamann Heimildarinnar að konan hafi hlaupið „gargandi“ á eftir sér um 500 metra þegar Omel var að viðra hundinn sinn fyrr í mánuðinum.
Það sem konan hafði út á göngutúrinn að setja var að hundur Omelar hefði pissað utan í hús nokkurt. Hún hafi viljað að Omel þrifi upp eftir hundinn sinn þrátt fyrir að rigning væri úti. Omel segir hins vegar að hundurinn hafi ekki gert þarfir sínar á hús heldur laufhrúgu sem á vegi hans varð. „Ekki eignir einhvers annars.“
Omel segir að konan hafi tekið sig upp á síma og verið mjög ógnandi. „Hún fór upp á háa C-ið. Ég fór sjálf í varnarstöðu til að verja hundinn minn og varð reið. En það að vera reið er bara ein tegund af hræðslu,“ segir hún. Omel segir hundinn sinn hafa sömuleiðis orðið mjög hræddan við konuna og liðið illa við atvikið.
Omel segist hafa breytt gönguleiðinni sem hún fer yfirleitt til þess að þurfa ekki framar að lenda í konunni þegar hún viðrar hundinn sinn. „Ég fer núna frekar niður að Sæbraut frekar en upp í miðborg eins og ég er vön.“
Ítrekuð atvik síðustu þrjú árin
Daníel Roche Anítuson býr í nágrenni við konuna og hefur oft lent í því að hún gefi sig á tal við hann og kærasta hans þegar þeir eru úti með hundinn sinn. Hann segist hafa ítrekað lent í leiðinlegum atvikum síðustu þrjú árin, eða síðan hann fékk Yoshi, hundinn sinn.
Daníel hefur, líkt og Omel, lent í því að konan elti sig og hundinn. Hún angri hann alltaf þegar Daníel rekst á hana með hundinn og hann segir það hafi komið fyrir að hún öskri og hóti. Hún biðji iðulega um nafn og kennitölu og nefni að hún muni tilkynna einhver meint brot á reglum um hunda. „Kærastinn minn er mjög stressaður þegar hann fer út með hundinn,“ segir Daníel.
Eitt sinn var konan að leggja bílnum sínum þegar Daníel og Yoshi fóru í göngutúr. Þegar þeir komu aftur heim hálftíma síðar var hún enn í bílnum og hafði beðið eftir því að þeir kæmu til baka. Daníel segist vel skilja hræðslu við hunda. „En þegar hún eltir fólk og bíður eftir fólki í bílnum sínum þá er hún ekki hrædd heldur bara reið, held ég.“
Daníel og kærastinn hans reyna að forðast það að ganga þeim megin götunnar sem konan er og leggja krók á leið sína til að forðast samskipti við hana þegar þeir viðra hundinn. „Ég geri mitt besta að forðast hana. En það er mjög pirrandi að þurfa að snúa við. Hundurinn minn er lítill en hann er þrjóskur,“ segir Daníel og hlær. Ólíkt hundi Omelar er Yoshi ekki hræddur við konuna. „Hann er lítill og skilur ekki hvað er í gangi,“ segir Daníel.
„Maður verður bara fyrir myrkri að tala við þessa konu“
Jón Símon Markússon lenti einnig nýlega í því að konan skammaði hann fyrir að vera úti með hunda í bandi. Hún gekk gagngert að honum og hundunum með ógnandi hætti og bað hann um að halda þeim frá henni. „Hundarnir voru aldrei nálægt henni,“ segir hann.
Jón segir að konan hafi þá farið að taka Jón og manninn hans upp og gengið á eftir þeim. Hún hafi verið með dónaskap og vísað í reglur um hundahald. Jón segir að engar reglur hafi þó verið brotnar, enda hundarnir í bandi. „Maður verður bara fyrir myrkri að tala við þessa konu. Hún var svo neikvæð. Það var eins og að drekka eitur,“ segir Jón um lífsreynsluna sem hann upplifði sem áreitni. „Hún veit alveg hvað hún er að gera. Hún stundar þetta,“ segir hann.
Jón benti konunni á að það væri allt í lagi að vera hræddur við hunda en hræðsla breytti ekki reglum samfélagsins. Hann og maðurinn hans hefðu ekki gert neitt rangt með því að ganga með hundana sína. Hún hafi hins vegar truflað þá, elt þá, tekið myndir og kallað á eftir þeim.
„Hún sakar mann um eitthvað og maður svarar. Síðan fer hún í fæting og tekur myndir. Svo fær hún nafnið manns og segist ætla að tilkynna mann.“ Jón segir þetta valda kvíða og vanlíðan. Fólki líði þá eins og það hafi gert eitthvað rangt. „Þetta er útpælt. Hún gerir þetta til að hafa þessi áhrif. Hún hefur óbeit á hundaeigendum – og hundum sennilega,“ segir hann.
Jón segir alveg sjálfsagt að passa að hundarnir fari ekki nálægt þeim sem eru hræddir við þá. „Ég er sjálfur hræddur við kóngulær. En ef ég sæi einhvern sem héldi á tveimur kóngulóm þá myndi ég ekki nálgast hann til að skamma hann. Ég myndi fara í hina áttina. Hann á alveg rétt á að halda á kóngulóm eins og ég á rétt á að viðra hundinn minn í bandi. Maður er ekki að gera neitt rangt.“
Jón skilur ekki hvernig fólk getur fengið af sér að tala svona við málleysingja. „Hundar eru ekki fávitar, þeir lifa mjög djúpu tilfinningalífi og þeir upplifa kvíða og þunglyndi.“
Heimildin hafði samband við konuna sem um ræðir við skrif fréttarinnar en hún neitaði að tjá sig opinberlega um málið.
Sem breytir því auðvitað ekki að það er óþægilegt fyrir hundana og eigendur þeirra.