Húseigendum er skylt samkvæmt lögum nr. 48/1994 að tryggja eignir sínar gagnvart eldi og náttúruvá. Þessi tvískipting tryggingarábyrgðarinnar á sér bæði sögulegar og tryggingarfræðilegar forsendur. Náttúruhamfaratryggingar Íslands eru arftaki Viðlagasjóðs, síðar Viðlagatryggingar, sem komið var á fót til að takast á við afleiðingar eldgossins í Vestmannaeyjum 1973. Aðeins eitt hús í Vestmannaeyjum var með gilda jarðskjálfta- og eldgosatryggingu þegar ósköpin dundu yfir, en höfðu verið fleiri. Þó önnur hús í Vestmannaeyjum væru tryggð gegn tjóni vegna eldsvoða náði sú tryggingarábyrgð ekki til náttúruvár. Með lögum frá Alþingi snemma í febrúar 1973 var Viðlagasjóði (síðar Viðlagatryggingu) falið að taka að sér að bæta Vestmanneyingum tekju- og eignatjón jafnframt því að fjármagna ýmis verkefni á vegum Vestmannaeyjabæjar. Sjóðurinn var fjármagnaður með aukaálagi á stærstu tekjustofna hins opinbera. Rausnarleg fjárframlög frá norrænum stjórnvöldum námu þriðjungi (32%) af tekjum sjóðsins. Sjóðurinn eignaðist nokkur hús í Vestmannaeyjum. Sjóðurinn lét auk þess byggja eða keypti íveruhúsnæði fyrir Vestmanneyinga „upp á landi“, enda fyrirséð að takmörkuð not yrðu af húsnæði í bænum fyrsta kastið. Innheimt leiga stóð ekki undir rekstrarkostnaði. Þegar frá leið voru hús og íbúðir utan Vestmannaeyja seldar á almennum markaði, en með hagstæðum vaxtakjörum. Þess má geta að íslenska hagkerfið er tæplega 5 sinnum stærra nú en það var árið 1973.
Ákvæði gildandi laga um náttúruhamfarir ná til fleiri tegunda náttúruvár en eru að öðru leyti þrengri en ákvæði í lögunum um Viðlagasjóð frá 1973. Í fjórðu grein laga nr. 55/1992 er kveðið á um að Náttúruhamfaratrygging Íslands skuli tryggja húseignir og lausafé gegn beinu tjóni af völdu eldgosa, flóða og jarðskjálfta. Samkvæmt orðanna hljóðan er stofnuninni ekki heimilt að bæta óbeint tjón, þ.á.m. beint og óbeint tekjutjón af völdum eldgosa, jarðskjálfta, flóða og skriðufalla. Þetta er bagalegt. Ofanflóðasjóði er heimilt að fjármagna forvirkar aðgerðir gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Sjóðurinn er fjármagnaður með sama hætti og Náttúruhamfaratrygging Íslands. Ekki er tekið með sama formlega hættinum á vá tengdri eldfjöllum, jarðskjálftum og eldgosum.
Í VIII. kafla Almannavarnalaga (lög nr. 82/2008) er er lögreglustjórum gefnar víðtækar heimildir til að rýma hættusvæði. Ennfremur til að taka búnað og hús leigunámi í þágu almannavarna. Loks er lögreglustjóra heimilt að skipa húseigendum utan hættusvæðis að taka við fólki brottfluttu af hættusvæði. Skal þá heimilissveitarfélag hins brottflutta fólks greiða kostnað er af hlýst, en á endurkröfurétt gagnvart þeim sem þjónustunnar nýtur.
Skortur á tengingu milli Almannavarnarlaga og laga um Náttúruhamfaratryggingar
Náttúruhamfaratrygging Íslands bætir aðeins skaða á munum og eignum. Samkvæmt Almannavarnarlögum er hægt að rukka þann sem lögreglustjóri gerir að yfirgefa heimili sitt fyrir afnot af neyðarskýli sem sami lögreglustjóri vísar á. Undirrituðum er ekki kunnugt um að umrædd gjaldtökuheimild hafi verið nýtt. En athygli vekur að þolandi hraunrennslis eða snjóflóðs er meðhöndlaður með öðrum hætti en sá sem má þola að húsnæði hans sé nýtt sem neyðarskýli fyrir fólk á flótta undan náttúrunni. Sá síðarnefndi á kröfu á að fá nýtingarsviptingu á húsnæði sínu bætta. Sá fyrrnefndi má búast við að fá munatjón bætt einhvern tíma í framtíðinni en má eiga von á að bera fullan kostnað af að geta ekki lengur notað húsnæði sitt.
Grindvíkingar, Almannavarnarlög og Náttúruhamfaratryggingar
Með vísan til Almannavarnarlaga hefur lögreglustjórinn á Suðurnesjum ákveðið að Grindvíkingar geti ekki nýtt eða notað íbúðarhúsnæði sitt óháð því hvort húsin hafi orðið fyrir skaða sem Náttúruhamfaratrygging íslands bætir eða ekki. Hvorki lög um Náttúruhamfaratryggingar né Almannavarnir kveða á um bætur fyrir þessa notkunarsviptingu. Notkunarsviptingar á grundvelli Almannavarnarlaga eru nokkuð algengar t.d. vegna hættu á ofanflóðum. Slík notkunarsvipting nær yfirleitt til fárra eigna og skamms tíma. Skaðinn vegna notkunarsviptingarinnar er því hvorki mikill né varanlegur. En nú er komin upp sú staða sem lögin virðast ekki hafa gert ráð fyrir þar sem notkunarsvipting sem Grindvíkingar mega horfa upp á er frekar talin í misserum en dögum og nær til á annað þúsund íbúða.
Tillaga að úrlausn
Óháð því hvaða leið er valin til að taka á húsnæðisvanda Grindvíkinga nú þá þarf augljóslega að breyta lögum þannig að Náttúruhamfaratryggingu sé heimilað að greiða íbúðareigendum leigu fyrir húsnæði ef lögreglustjóri bannar notkun húsnæðisins. Eðlilegast er að miða leigugreiðslur í slíkum tilvikum við leigu á höfuðborgarsvæðinu, enda líklegt að flestir sem ákvæðið myndi eiga við leiti þangað. Vel má hugsa sér að setja þak á greiðslur af þessu tagi með hliðsjón af fjölda þeirra heimilismanna sem fyrir notkunarsviptingu verða. Einnig ætti að heimila Náttúruhamfaratryggingu að kaupa ótjónaðar eða hlutatjónaðar eignir sem ekki er heimilt að nota enda fyrirséð að notkunarbann standi um lengri tíma. Eigendur húsa sem ekki má nota ættu að eiga val um það hvort þeir þiggja leigugreiðslur eða hvort þeir kjósa að selja Náttúruhamfaratryggingum eignina.
Athugasemdir