„Þetta var heilmikil upplifun, bæði að horfa upp í þyrluna og að horfa svo yfir bæinn á leiðinni niður í varðskipið,“ sagði Þröstur Magnússon, Grindvíkingur og einn hafnarvörður Grindavíkurhafnar. Þröstur fór með þyrlu Landhelgisgæslunnar til vinnu á sunnudaginn þegar gosið í og við Grindavík hófst. „Skrítin upplifun að horfa á bæinn sinn brenna. Ég tók ekki einu sinni myndir, ég var svo dofinn yfir þessu.“
Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti Þröst á Grindarvíkurveg. Þröstur hafði ekki áður farið í þyrluflug, hvað þá sigið eða verið hífður upp í eina slíka. Fóru starfmenn Grindavíkurhafnar um borð í björgunarskipið Þór til að hægt væri að flytja hafnarbát bæjarins til Þorlákshafnar.
Sjónin frá skipinu sagði Þröstur vera skelfilega. „Þetta virkaði á mann sem miklu meiri eldar heldur en maður sér í sjónvarpinu. Svo sá maður þegar það var að kvikna í húsunum. Hvernig það fuðraði og hvernig það komu upp svartir bólstrar. Það var súrrealískt að verða vitni að þessu.“
Skjálfta- og gosfrí
Fjölskylda Þrastar hefur komið sér fyrir í Vogum á Vatnsleysuströnd en þau eiga hús í Grindavík. Býr hann þar með konunni sinni og yngsta syni. Hann segir fjölskylduna hafa það ágætt þar. „Dætur okkar þrjár bjuggu allar í Grindavík, ein var að leigja og er búin að segja upp leigunni sinni og er með búslóðina sína í húsinu okkar í Grindavík.“
„Við höfum bara verið hérna í Vogunum í skjálfta- og gosfríi.“
Þröstur segir að hiti sé kominn aftur á húsið hans í Grindavík. „Maður bjóst við því að allt yrði ónýtt ef að hitinn kæmist ekki á. Þá væri þetta hreinlega bara búið og óþarfi að reyna eitthvað að eiga við þetta hús meir.“
„Eins og að fá kjaftshögg“
Upplifun Þrastar af goshrinunni lýsir hann „eins og að fá kjaftshögg ofan á kjaftshögg, lausa tönn og svo losnar tönnin.“ Gos hófst að nýju á sunnudagsmorgun og hafði bærinn verið rýmdur um nóttina.
„Ég held að það væri farsælast að við Grindvíkingar fengum einhverja langtíma lausn og fólk sem er ekki tilbúið að fara til baka fái þá lausn að geta farið. Ég held að það sé raunhæfast. Það er ekki gott að fjötra fólk við stað sem það vill ekki vera á.“
Fyrsta myndin er af Þresti áður en hann seig um borð í björgunarskipið Þór.
Athugasemdir