Ef þú býður 200 manns í brúðkaup og ætlar að tala við hvern og einn í 3 mínútur þá tæki það 10 klst. samfellt. Eftir athöfn, myndatöku, mat, ræður og dans er augljóst að þú munt aldrei tala við alla, hvað þá fara á trúnó.
Þegar neyðartilvik koma upp og margir þurfa samtímis að fá þjónustu, þá hugsa ég oft um þessa tölfræði. Þess vegna eru björgunarsveitirnar okkar svo mikilvægar, þær stíga inn þegar verkefnin eru lögreglu og slökkviliði ofviða. Þetta er líka ástæðan fyrir því að félagasamtök og sjálfboðaliðar geta hreyft við málum og haft mikil áhrif, eins og samtök um jafnrétti, fötlun eða náttúruvernd. Við sáum í IceSave-málinu hvernig sjálfsprottin samtök gátu viðað að sér meiri þekkingu, fleiri lögfræðiálitum og stærra tengslaneti heldur en ríkisstjórnin á sínum tíma.
„Það þarf að búa til kerfi sem er án fyrirmyndar“
Nú blasir við risavaxið verkefni í Grindavík og einn starfsmaður væri heilan mánuð að opna 4.000 tölvupósta. Nú þarf líklega að stofna öflug hagsmunasamtök til hliðar við bæjarstjórn og ríkið, sem getur sett sig inn í málið frá öllum hliðum. Við eigum frábærar björgunarsveitir en miklu fleiri eru ekki í björgunarsveit og geta lagt eitthvað af mörkum. Hið opinbera á erfitt með að virkja velvilja sem liggur í grasrótinni, en frjáls félagasamtök geta innleyst krafta og tengslanet íþróttahreyfingar, Rótarýklúbba, iðnaðarmanna, arkitekta, listamanna, sálfræðinga og svo framvegis.
Það hlýtur að vera markmið okkar að Grindavík byggist að nýju, að verðmætin sem felast í bæjarfélagi með nágrönnum og vinum, sögu og atvinnu verði framhaldið. Fólk þarf nýtt heimili strax, en ef við viljum að Grindavík endurbyggist, hvað gerist ef allir eru keyptir út og enginn á neitt sem heitir „heima“ lengur? Það þarf að búa til kerfi sem er án fyrirmyndar. Hvernig á að tryggja atkvæðisrétt þeirra sem bjuggu í Grindavík en neyddust til að flytja í annað sveitarfélag? Hvernig getum við síðan lært af reynslunni? Reykjaneseldarnir verða meiri háttar áskorun fyrir alla höfuðborgarbúa út alla öldina.
Athugasemdir