Lífið er flókinn vefur atburða, aðstæðna, ákvarðana og afleiðinga. Sérhver aðgerð, sama hversu lítil eða óveruleg hún virðist, á sér orsök sem ýmist er sýnileg eða hulin. Þannig er tilverunni stjórnað af lögmáli orsaka og afleiðinga, á meðan ekkert gerist í tómarúmi.
Eins og flestir er ég sekur um að gleyma stundum þessum einfalda sannleik. Furða mig á aðgerðum, afstöðu eða orðum annarra. Með hækkandi aldri hefur sleggjudómum mínum sem betur fer fækkað, enda hefur lífið kennt mér ýmislegt um aðstæður, orsök og afleiðingar.
Það er öllum hollt að kynnast fjölbreytileika samfélagsins. Að þekkja fjölbreytta flóru fólks, en ekki aðeins þá sem eru eins og þú. Búa eins, borða og lesa það sama og þú, deila sömu lífssýn og pólitísku skoðunum. Það gildir um alla hópa, hvort sem þú hugsar til hægri eða vinstri, ert ríkur eða fátækur, hraustur eða veikur. Við þurfum að skilja hvaðan skoðanir annarra koma, hvaða orsakir liggja að baki og hvernig þær geta nýst til góðs þótt við séum ósammála þeim. Ættingjar, vinir eða vinnufélagar með skrítnar skoðanir geta stuðað mann, en viðhorfin í þeirra garð breytast gjarnan ef við þekkjum orsakir orða og gjörða, þekkjum markmið og þankagang viðkomandi, heilsu þeirra, heimilisaðstæður, sögu, sigra og áföll.
Heimurinn er alls konar
Ég er einn þeirra fjölmörgu sem eiga samsetta fjölskyldu. Hún er stór og fjölbreytt, þar sem fólk býr yfir ólíkum styrkleikum – börn, stjúpbörn, systkin, hálfsystkin, ömmur og afar í allar áttir, mömmur og pabbar. Í gegnum þennan góða hóp hef ég kynnst því hvað fólk er misjafnt og sjálfur öðlast víðsýni og skilning sem mig skorti. Í grunninn er ég nefnilega frekar einfaldur strákur af landsbyggðinni, sem sparkaði bolta á sumrin og renndi sér á skíðum á veturna. Ég var heppinn með aðstæður og lífið var í meginatriðum einfalt fyrir okkur bræðurna, sem nutum góðs af elju og útsjónarsemi foreldra í verkamannastétt.
Mér þótti vænt um heimabæinn minn – og þykir enn – og skildi fyrst löngu síðar áskoranir þeirra bæjarbúa sem tilheyrðu ekki meginstraumnum. Þeirra sem höfðu áhuga á listum en ekki íþróttum, þeirra sem þurftu aðstoð í skóla eða þá litlu samfélagsaðstoð sem þá var í boði. Þeirra sem urðu útundan af einhverri fáránlegri ástæðu. Í minningunni var líka bara ein kynhneigð í bænum, þótt sumir skiptu um lið þegar þeir fluttu í stærra og fjölbreyttara samfélag.
Mér þótti snemma töff að vinna mikið, og dreymdi um að verða sjómaður. Pabbi hafði stundum verið á sjó, þótt vörubílahark hafi síðar orðið ofan á. Rekstur vörubíls var vondur bissness, þar sem eitt sprungið dekk gat étið upp þann litla afgang sem hlaust af ómældri mánaðarvinnunni. Einhvern veginn hafðist þetta samt, og þrátt fyrir brasið hóf ég að þróa með mér aðdáun á einkaframtakinu. Með barnsaugun á vörubílarekstrinum skildi ég fyrst hugtakið gengisfellingu, þar sem draumur föður míns um nýjan Volvo-trukk fuðraði upp rétt fyrir afhendingu bílsins vegna gengisfellingar. Kaupverðið hækkaði um 20% sem var meira en reksturinn réði við og gamla Scanian var látin duga.
Lærdómurinn af því situr í mér og í mínum huga er ráðdeild lykilhugtak í öllum rekstri. Í raun er ég „borderline“ nískur, þótt ég leyfi mér alls konar munað. Ég hef nefnilega líka lært að njóta lífsins með mínu fólki, eyða peningum í ferðalög, áhugamál og upplifanir sem gefa lífinu lit.
Tökum sénsinn
Það var áhugavert hversu víða hugurinn fór, þegar blaðamaður Heimildarinnar bauð mér að skrifa pistil í þessa ágætu greinaröð. Ég hlakkaði til að setja hugsanir mínar á blað, allt þar til ég byrjaði og lenti í vandræðum með að draga þær saman. Kannski er það merki um að ég hafi lært svo margt, en mögulega vegna alls þess sem ég á ólært.
Ég hef þó sannarlega lært mikið af þeirri ákvörðun að skipta reglulega um starf, kynnast nýju fólki og þannig öðlast nýtt sjónarhorn á heiminn. Stundum hefur lærdómurinn reynt verulega á, en á öðrum tímum verið skondinn. Sem aðstoðarmaður utanríkisráðherra fyrir fáeinum árum sat Hrannar litli frá Húsavík stundum innan um heimsleiðtogana og heyrði samtöl sem eru brosleg í baksýnisspeglinum. Hverjum hefði til dæmis dottið í hug, að í samtali sínu við utanríkisráðherra Íslands vildi Erdogan Tyrklandsforseti ekki ræða um valdaránstilraunina í Istanbúl sumarið 2016 heldur víkingaklappið sem stuðningsmenn íslenska knattspyrnuliðsins kynntu fyrir umheiminum það árið?
„Ég hef nefnilega lært að tækifærin birtast þegar augun eru opin“
Fimm til sjö ár í sama starfi hentar mér vel og ég hvet sem flesta til að breyta til reglulega. Ég hef nefnilega lært að tækifærin birtast þegar augun eru opin. Þannig hefur forsjónin leitt mig inn á óvæntar brautir – til dæmis rekstur félagsheimilis í miðbæ Reykjavíkur án þess að ég hefði áður komið að slíku. Þannig varð Vinnustofa Kjarvals til, í niðurníddu húsnæði undir súð sem hafði staðið tómt um árabil. Í okkar hópi fæddist hugmynd og við vorum nógu vitlausir til að hlaupa af stað með hana – kunnandi þá hvorki að laga gott kaffi né taka tappa úr flösku. Nú iðar hæðin sú af lífi frá morgni til kvölds, þar sem fólk úr öllum áttum kemur saman til vinnu, skrafs og ráðagerða.
Ég hef líka gert ótal mistök. Tekið rangar ákvarðanir og komið mér í vanda. Sumar eru beinlínis vandræðalegar, en það veit maður ekki nema maður láti reyna á þær. Láti vaða og sjái hvað gerist. Ég mæli með því.
Athugasemdir (2)