Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir fjármála- og efnahagsráðherra hefur sett Tómas Brynjólfsson í embætti ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu til 31. mars. Þetta segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.
Tómas var áður skrifstofustjóri á skrifstofu efnahagsmála í ráðuneytinu og hefur verið skrifstofustjóri frá 2018. Hann er arftaki Guðmundar Árnasonar í starfi en Guðmundur lét af embætti um áramótin eftir 14 ár í starfi.
Í tilkynningunni segir að senn verði auglýst eftir nýjum ráðuneytisstjóra.
Tómas er með meistaragráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í alþjóðastjórnmálum frá London School of Economics. Áður en hann varð skrifstofustjóri í ráðuneytinu hafði Tómas m.a. verið stjórnandi á EFTA-skrifstofunni í Brussel og unnið að efnahags- og fjármálamarkaðsmálum í stjórnarráðinu frá árslokum 2008.
Athugasemdir