Glóandi hraun rennur að Grindavík, þar sem kindur eru innilokaðar í fjárhúsum. Ekki er talið óhætt að sækja dýrin að svo stöddu, enda neyðarástand og hættulegt að vera á vettvangi. Fyrr í dag var fjölmiðlafólki var hleypt inn í bæinn en nú hefur verið lokað á allt aðgengi að bænum. Hættan liggur meðal annars í óvissunni, hraunflæðinu og gaseitrun.
Dýraverndarsamband Íslands biðlar til almannavarna og annarra ábyrgra aðila í aðgerðunum, að koma skepnunum til bjargar, ef þess gerist nokkur kostur.
Um er að ræða 30 kindur sem eru innilokaðar í fjárhúsi nærri götunni Bakklág, auk þess sem sauðfé er lokað inni í fjárhúsum við bæði Sjávarbraut og Þórkötlustaðahverfi. Ítrekar Dýraverndarsambandið mikilvægi þess að „dýrunum sé hleypt út strax svo þau geti forðað sér úr þeim hættulegu aðstæðum sem nú eru á svæðinu.“
Bærinn var rýmdur í nótt og var mannlaus þegar gosið hófst. Þegar líða tók á morgun var stórum og dýrum vinnuvélum bjargað, en þær eru meðal annars notaðar til þess að reisa varnargarða. Við þær aðgerðir brotnaði rúða á einu vinnutækinu vegna hitans sem liggur frá hrauninu.
Dýrin urðu hins vegar eftir í bænum.
Athugasemdir