Klukkan 10:18 á miðvikudaginn barst lögreglunni á Suðurnesjum tilkynning um að grunur léki á að maður hefði fallið ofan í sprungu í Grindavík. Tveir menn voru að vinna við að fylla í sprungu í garði í Grindavík. Annar maðurinn brá sér frá og þegar hann kom aftur var vinnufélagi hans horfinn. Hafði maðurinn verið að vinna við að fylla í sprungu með jarðvegsþjappara í ytri Grindavík, nyrsta hluta bæjarins, skammt frá aðkomu þeirra sem keyra Grindavíkurveginn til bæjarins. Verkfæri mannsins fundust ofan í sprungunni.
Sprungan sem um ræðir teygir sig í gegnum alla Grindavík frá norðri til suðurs og suðausturs. Húsið við sprunguna er við Vesturhóp 29, norðarlega í bænum, en hinum megin í bænum, við Staðarvör 4, langleiðina að mörkum byggðar í suðaustri og rétt hjá grunnskólanum, fann íbúi sprungu á rölti í garðinum sínum í lok nóvember síðastliðins. Maðurinn gekk um garðinn á sama stað og börn hans léku sér vanalega í fótbolta, þegar hann fann jörðina síga undan sér. „Hvað ætli sé að gerast hérna? Hér eru krakkarnir búnir að vera að mikið í fótbolta. Þetta er eitthvað grunsamlegt hér. Það er ekkert undir þessu. Hér er bara allt farið. Þetta er bara á lóðinni hér heima,“ sagði hann í myndbandi sem hann deildi á Facebook. Hann opnaði síðan gat með kústskafti og spurði svo: „Hvar endar þetta?“
Engin slys urðu á fólki vegna sprungunnar syðst í bænum.
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, sagði í samtali við mbl.is að í sprungunni í Vesturhópi, þar sem maðurinn hvarf á miðvikudag, hefði verið „einhver hindrun sem losnar með þessum hörmulegu afleiðingum að fyllingin fer niður og maðurinn með“.
Vísir greindi frá því að jarðvegsþjappa hefði fundist á staðnum. „Erfitt að segja hvernig þetta gerist nákvæmlega,“ sagði Úlfar Lúðvíkssyni lögreglustjóri á Suðurnesjunum í samtali við Heimildina þegar hann var spurður um hvernig maðurinn hefði fallið ofan í sprunguna.
Upphaflega var karfa látin síga niður í opið
Viðbragðsaðilar voru mættir á staðinn fljótlega eftir að útkallið barst. Vinna við að ná manninum úr sprungunni hefur verið í gangi síðan á miðvikudag. Grafa vann linnulaust við að stækka opið við sprunguna til að gera aðgengi björgunaraðila betra á staðnum. Grafan var „í raun og veru bara að hreinsa það svæði í kringum þar sem sprungan opnaðist,“ sagði Úlfar.
Upphaflega var notast við körfu sem var látin síga niður í op sprungunnar. Vanir fjalla- og rústabjörgunarsveitarmenn víða að af landinu og sigmenn sérsveitar lögreglunnar létu sig síga niður í sprunguna. „Þeir sigu niður í körfunni einn eða tveir í einu, aldrei fleiri en tveir,“ sagði Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar í samtali við Heimildina. Vaktaskipti voru á björgunarsveitarfólki í morgun.
Kafbátadróni leitaði í vatninu
Aðstæður voru þannig að ekki var hægt að senda kafara niður í vatnið en fjarstýrð neðansjávarmyndavél hefur verið notuð í leitinni. Sérsveit ríkislögreglustjóra vinnur á staðnum ásamt verktaka sem á kafbátardrónann sem hefur verið notaður í leitinni.
„Holan niður er raun og veru bara svona gat ofan í stærri helli. Sprungan nær eitthvað til beggja hliða,“ sagði Jón Þór. „Þetta er stóra sprungan sem nær í gegnum bæinn. Hún er misdjúp og á einhverjum stöðum er grunnvatn.“ Talið er að vatnið sé um 13 til 14 metrar á dýpt. Samkvæmt Einari Sveini Jónssyni, slökkviliðsstjóri Grindavíkur, eru um það bil 20 metrar niður að vatninu frá opinu.
„Þetta eru mjög erfiðar og krefjandi aðstæður. Við þurfum fyrst og fremst að gæta að því að fyllsta öryggis sé gætt við að senda þau þarna niður,“ sagði Jón Þór.
Stigakerfi til að komast niður opið
„Það er kominn landgangur við opið. Hann er til að tryggja öryggi okkar manna,“ sagði Einar Sveinn slökkviliðsstjóri í samtali við Heimildina í gær. Hann sagði veður leiðinlegt á staðnum, „það er mígandi rigning.“ Landgangurinn var lagður til að auðvelda þeim sem koma að björguninni aðgengi og gera vettvanginn öruggan sagði Einar. Landgangurinn var sóttur á bryggjuna í Grindavík. Í grein Mbl kom fram að 20 hlöss af sandi og grjóti voru flutt með vörubílum á miðvikudag úr sprungunni. Var það gert til að koma í veg fyrir hrun úr sprungunni á sigmennina. Brún sprungunnar var einnig fóðruð neti til að tryggja öryggi þeirra sem leita í sprungunni. Netið er sterkt, líkt og net sem eru notuð á togurum.
„Við erum búnir að koma upp stigakerfi niður þannig þeir geta orðið labbað stigann niður,“ sagði Einar. „Þetta er bara mjög þröngt og erfitt, mjög djúpt niður. Þetta eru eins krefjandi aðstæður og hugsast getur.“ Sigmennirnir fara tveir og tveir í einu niður í sprunguna.
34 litlir skjálftar
„Svæðið verður rýmt ef það kemur skjálfti,“ sagði Einar. Jarðskjálftavirknin hefur verið vöktuð til að gæta fyllsta öryggis á staðnum.
„Í Grindavík hefur verið frekar lítil skjálftavirkni,“ sagði Sigríður Kristinsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands í gær. 34 litlir skjálftar höfðu þá mælst á Grindavíkur svæðinu sólarhring frá því að maðurinn féll í sprunguna.
Skjálftarnir eru „pínu litlir, þeir eru allir minni en tveir,“ sagði Sigríður. „Þeir eru í kvikuganginum milli Hagafells og Stóra-Skógfells.“ Hún sagði skjálftana ekki vera á þeirri stærð að þeir finnist á yfirborðinu í Grindavík.
Í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands í dag kemur fram að eldgos gæti hafist með litlum fyrirvara á svæðinu. Telja vísindamenn að kvikan leiti frá Svartsengi yfir í Sundhnjúksgígaröðina. Gos kæmi þá upp á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells, það er á svipuðum slóðum og gaus 18. desember. Skjálftavirkni á svæðinu hefur verið afar væg.
Sérútbúinn þrívíddarskanni
Mbl greindi frá því seinni partinn í dag að sér útbúinn þrívíddarskanni væri látinn síga niður í sprunguna. Er það gert til að kanna aðstæðurnar í sprungunni betur.
Engar breytingar hafa verið gerðar á aðgengi í Grindavík þrátt fyrir slysið. Í nýju hættumatskorti Veðurstofu Íslands er þó mat á hættu vegna sprunguhreyfinga í Grindavík hækkað.
„Það eru að sjálfum sér engar breytingar á opnun inn til Grindavíkur. Þessi vinna við að fylla í sprungur, þessi viðhaldsvinna inn í bænum, henni er frestað fram yfir helgi,“ sagði Úlfar lögreglustjóri. Fundur með verktökum og öðrum hagsmunaaðilum sem hafa verið að sinna vinnu við jarðfyllingar í Grindavík átti að fara fram á þriðjudaginn.
Leit hætt
Um klukkan sjö á föstudagskvöld var tilkynnt að leit að manninum væri hætt. Í yfirlýsingu frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg kom fram að leitin ætti sér engin fordæmi og hefði verið afar krefjandi. Þá sendi Slysavarnarfélagið Landsbjörg aðstandendum dýpstu samúðarkveðjur. „Það er björgunaraðilum afar þungbært að þurfa að hverfa frá leitinni án árangurs.“
Villan var að enginn virðist hafa haft hugarflug (og ég ekki heldur) að sprungan gæti vikkað aftur þegar neðar dregur. Hörmulegt slys.