„Ég heiti Sandra Grétarsdóttir og við erum á bókasafninu í Sólheimum. Ég er að ná í bók sem ég pantaði og er mjög spennt að lesa og svo kíki ég í blöðin í leiðinni. Ég er búin að bíða spennt eftir henni, DJ-Bamba, og loksins er hún laus.
Það er svo margt sem hefur verið mér ofarlega í huga, kannski heimsmálin hvað mest. Ég vona það besta á þessu ári, að stríðinu ljúki. Svo reyni ég að hugsa líka um það jákvæða og að vera bjartsýn um að þetta ár verði gott ár, að öllu leyti, fyrir heiminn, mig sjálfa og alla. Þetta verður frábært í alla staði, það er ekkert öðruvísi.
Líf mitt breyttist þegar ég eignaðist dóttur mína fyrir 35 árum síðan. Allt breyttist, ástin, ábyrgðin, já og vonin. Vonin um að heimurinn yrði góður hennar vegna og fyrir okkur öll. Að henni myndi farnast vel. Það var klárlega stærsta augnablikið í mínu lífi.
Það hefur svo margt mótað mig, ég veit ekki hvað mótaði mig mest. Það er kannski námið sem maður var í. Ég var í háskólanámi í lögfræði. Samt sem áður, ég hef ekki unnið við það síðustu árin. Svo hef ég líka lært dáleiðslu. Það mótaði mig ansi mikið. Það er það sem ég lærði, það er meðferðardáleiðsla. Sú aðferð sem ég nota er kölluð hugræn endurforritun. Það mótaði mig mjög mikið og heldur áfram að gera. Bæði að læra það og líka að hjálpa öðru fólki með því að dáleiða það. Ég hef séð miklar breytingar á fólki eftir slíka meðferð.“
Athugasemdir