„Það er mjög erfitt að sofa á götunni,“ segir Mohammed Alhaw. Mótmælin á Austurvelli hafa staðið yfir í 13 daga og hafa mótmælendurnir sofið fyrir utan Alþingi sama hvernig viðrar. Þeir vilja þrýsta á stjórnvöld að flytja þá sem hafa fengið samþykkta fjölskyldusameiningu frá Gasa til Íslands.
Birgir Þórarinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, skrifaði í grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag að hann telji að Reykjavíkurborg sé að brjóta lög með því að heimila mótmælendum frá Palestínu að tjalda við þinghúsið. Hann hefur áhyggjur af því að ferðamenn og heimilislausir muni von bráðar færa sig niður á Austurvöll til að sleppa við að greiða fyrir gistingu.
„Þegar ég hringi í mömmu mína í Gasa fer mamma mín að gráta. Hún vill komast til Íslands. Ég get ekki hjálpað mömmu minni og fjölskyldunni. Þegar ég sef hérna er mér sama um allt. Ég vil vera hérna að eilífu,“ segir Mohammed. Hann er 22 ára og vill gera allt sem hann getur til að koma fjölskyldunni sinni frá Gasa.
„Þeir eru ekki einu sinni að fá svör um hver staðan er eða hvort það sé eitthvað plan um að fá þessar fjölskyldur hingað eins og er búið að lofa,“ segir Sunna Axels. Sunna hefur sofið eina nótt á Austurvelli í mótmælaskyni og taldi líklegt að hún myndi sofa þar í nótt.
Það er ekki gaman að sofa úti í tjaldi í þessu veðri
Rúmlega 150 Palestínumenn fengu samþykkt dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar í fyrra. Aðeins tæpur þriðjungur þeirra var þó kominn til landsins í byrjun desember.
„Þetta er aðgerð sem að við erum að gera núna, að vera hér í tjöldum til að sýna ástandið sem að fjölskyldur þeirra eru að búa við. Þau eru heimilislaus, það er búið að sprengja húsin þeirra og þau bíða eftir að komast til Íslands,“ segir Sunna.
„Við erum ekki að elda neitt hérna inni. Það er nóg af mat hérna í kring. Svo er fólk líka að koma með mat til okkur,“ segir Sunna. Spurð um klósettaðstöðu segir Sunna vera nóg af stöðum í kringum Austurvöll. „Svo erum við líka með vinasamtök sem leyfa okkur að nota klósettið hjá sér.“
Athugasemdir (3)