„Rannsókn málsins hefur verið hætt þar sem ekki var talinn grundvöllur til að halda henni áfram.“ Þetta kemur fram í bréfum sem skrifuð voru þann 27. desember síðastliðinn hjá embætti lögreglustjórans á Norðurlandi eystra og stíluð annars vegar á Þórð Snæ Júlíusson og hins vegar á Aðalstein Kjartansson.
Málið sem lögreglan vísar til snýst um að Þórður og Aðalsteinn kærðu Pál Steingrímsson, skipstjóra hjá Samherja, fyrir hótanir í sinn garð eftir að þeir fengu frá honum tölvupóst þar sem sagði að hann sagðist neyðast til að „grípa til annara ráða til þess að stoppa ykkur.“ Kærurnar lögðu þeir fram í september 2022.
„Ég taldi umræddan póst fela í sér hótun,“ segir Þórður Facebookfærslu sem birtist á fimmtudag: „Meðal annars með vísun í að umræddur Páll virðist eiga umtalsvert magn af skotvopnum og hafði birt mynd af slíku vopni á samfélagsmiðlum þar sem hann ýjaði að því að um væri að ræða það vopn sem hann vildi helst nota á blaðamenn. Auk þess hafði Páll oft, með opinberum yfirlýsingum og ummælum á samfélagsmiðlum, sýnt af sér þannig hegðun að mér þótti eðlilegt að efast stórlega um dómgreind hans og jafnvægi,“ segir hann.
Markmiðið að hafa æruna af blaðamönnum
Þórður og Aðalsteinn eru meðal þeirra fimm blaðamanna sem hafa fengið stöðu sakborninga eftir umfjöllun Kjarnans og Stundarinnar árið 2021 um hóp fólks sem kallaði sig „Skæruliðadeild Samherja“. Umfjöllunin byggði á gögnum sem sýndu hvernig stjórnendur, starfsfólk og ráðgjafar Samherja höfðu lagt á ráðin um að ráðast gegn nafngreindum aðilum, til að mynda blaðamönnum, til að hafa af þeim æruna. Á þessum tíma var Þórður ritstjóri Kjarnans en Aðalsteinn blaðamaður Stundarinnar. Báðir starfa þeir nú á Heimildinni sem varð til við samruna miðlanna tveggja.
Í umfjölluninni kom fram að einn þeirra sem gegndi lykilhlutverki í áróðursteymi Samherja var Páll Steingrímsson. Hópurinn var í reglulegum samskiptum við æðstu stjórnendur Samherja um hvernig hann ætti að beita sér. Þessi hegðun átti sér stað allt frá því að Kveikur, Stundin, Wikileaks og Al Jazeera birtu umfjallanir sínar um Samherja og atferli fyrirtækisins í Namibíu í nóvember 2019 og þangað til að umræddar fréttir og fréttaskýringar voru birtar í Stundinni og Kjarnanum.
Aðhafðist ekkert í meira en ár
Rannsókn á lögmæti lögreglurannsóknarinnar á blaðamönnunum vegna umfjöllunar um „skæruliðadeild Samherja“ hefur staðið yfir í nær þrjú ár. Þar hafa blaðamennirnir haft stöðu sakbornings í brátt tvö ár.
Þórður skrifar í færslunni sinni að „málsgögnin sýna að rannsókn málsins samanstóð af einni 22 mínútna langri skýrslutöku yfir Páli sem fór fram í byrjun nóvember 2022. Svo gerði lögreglan ekkert í rúma 13 mánuði, eða þar til að ég spurðist fyrir um afdrif málsins og hún ákvað að fella það niður.“
Aðalsteinn gerir niðurfellingu lögreglunnar á kæru þeirra einnig að umtalsefni í grein sem hann birti á Heimildinni á fimmtudag sem ber heitið: „Það sem lögreglan telur í lagi að segja og hvað ekki“.
Þar segir hann að áðurnefndur Páll sem og Páll Vilhjálmsson, framhaldsskólakennari og bloggari, haldi fram samsæriskenningum um að hann sé glæpamaður fremur en blaðamaður, sem „eitri bjór á Akureyri í þeim tilgangi að komast yfir síma“. Páll Vilhjálmsson hefur endurtekið kallað skæruliðamálið „byrlunar- og símastuldsmálið“ á blogginu sínu.
Aðalsteinn fékk nú fyrir jólin það sem hann kallar „jólakveðju“ í tölvupósti frá Páli Steingrímssyni. Þar var hlekkur á bloggfærslu Páls Vilhjálmssonar þar sem því var haldið fram að Aðalsteinn væri vanhæfur til að fjalla um Samherjamálið í Namibíu af því hann væri til rannsóknar í öðru máli hér á Íslandi.
Halda þeir því á lofti að nektarmynd af innanhúslögfræðingi Samherja hafi verið að finna á síma Páls skipstjóra þar sem gögn um „skæruliðadeild“ Samherja voru geymd og fullyrða þeir því að Aðalsteinn sé til rannsóknar fyrir stafrænt kynferðisbrot gagnvart henni.
„Ég veit ekki hvað hefur verið í síma Páls, enda hef ég ekki séð hann eða skoðað“
„Fyrst umrædd kona sé sakborningur í rannsókn á mútugreiðslum Samherja til ráðamanna í Namibíu sé ég vanhæfur til að fjalla nokkuð meira um það mál,“ skrifar Aðalsteinn í grein sinni: „Ég veit ekki hvað hefur verið í síma Páls, enda hef ég ekki séð hann eða skoðað, en ég veit að þessi samsæriskenning er röng. Ekkert slíkt efni fannst við rannsókn lögreglu og samkvæmt því sem mér var kynnt þegar ég var yfirheyrður í málinu er ég ekki til rannsóknar fyrir stafrænt kynferðisbrot,“ skrifar hann.
Meindýr en ekki blaðamenn
Þórður var gestur í hlaðvarpsþættinum Synir Egils á Samstöðunni rétt fyrir áramótin þar sem hann ræddi kæruna sem þeir Aðalsteinn lögðu fram.
Þann 4. janúar birtit grein eftir Pál Steingrímsson á Vísir.is þar sem hann gerir lítið úr þeim skilningi Þórs og Aðalsteins að hann hafi verið að hóta þeim. Páll segist einfaldlega hafa vera að tala um „meindýr og hælbíta en ekki blaðamenn.“
Hann hefur hins vegar ýjað að því á samfélagsmiðlum hvaða skotvopn hann myndi vilja nota á blaðamenn, ásamt því að birta af því mynd.
Páll heldur því fram í grein sinni að þessi ummæli hans á Facebook um „andstæðinga“ Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja, hafi ekki verið beint að blaðamönnunum heldur vill hann meina að hann sé að ræða við vin sinn, sem er meindýraeyðir, um meindýr og hælbíta. „Virðist sem þeir kumpánar hafi séð sjálfa sig í þessu samtali, einhverra hluta vegna,“ skrifar Páll Steingrímsson.
Aðalsteinn fjallar ennfremur um þetta. „„Við getum verið stolt af því að vinna hjá Máa,“ skrifað vinkona hans í þessum Facebook-þræði og fékk svarið frá Páli um að engir hælbítar fengju að hafa áhrif á það. Hælbítar væru meindýr, sem best væri að skjóta. Síðan birti hann mynd af byssunni sem hann vildi nota. Samhengið er auðvitað öllu fólki nálægt meðalgreind ljóst. Orðin beindust að þeim sem Páll upplifir sem andstæðinga Samherja,“ skrifar Aðalsteinn í greininni.
Fékk aldrei að gefa skýrslu hjá lögreglu
Aðalsteinn og Þórður kærðu Pál Steingrímsson upphaflega til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en þegar þeir kölluðu eftir upplýsingum um hvar málið stæði var þeim tilkynnt að rannsóknin hefði verið send til lögreglunnar á Norðurlandi eystra. Í grein Aðalsteins segir að í svari lögreglunnar við fyrirspurn sem Þórður lagði fram skömmu fyrir jól um hvar málið standi kemur fram að rannsókninni hafi verið hætt þar sem ekki var talinn grundvöllur til að halda henni áfram.
Aðalsteinn segist sjálfur aldrei hafa fengið tækifæri til að gefa lögregluskýrslu „eða benda á samhengi hótunarinnar, né að koma öðru á framfæri en þessu skjáskoti af Facebook. Það eina sem hefur gerst síðan ég kvittaði undir eitthvað eyðublað á lögreglustöðinni við Hverfisgötu þann 5. september árið 2022 er að málið var sent norður án þess að ég fengi að vita það og þar framkvæmdi lögreglan rannsókn sem stóð yfir í innan við hálftíma,“ skrifar hann.
„Það er það eina sem okkur hefur verið gefið að sök að gera, að það er að hafa tekið við gögnum og skrifað frétt um það“
Þórður segir í færslu sinni að hann hafi óskað eftir rökstuðningi hvers vegna málið verði ekki tekið til frekari rannsókna og eftir aðgangi að öllum málsgögnum. „Í rökstuðningnum segir að til þess að eitthvað teljist hótun í skilningi hegningarlaga verði að vera sett fram hótun um að fremja refsverðan verknað af tilteknum grófleika. Lögreglan á Norðurlandi eystra telur það orðalag sem Páll notaði ekki fela í sér hótun um refsiverðan verknað,“ skrifar Þórður í færslunni sinni.
Í viðtalinu á Samstöðunni fjallaði Þórður einnig um hvernig ýmsir fjölmiðlar gefa skoðunum Páls Steingrímssonar og Páls Vilhjálmssonar byr undir báða vængi: „Það sem er alvarlegast er það sem við erum að upplifa í gegnum lögreglurannsókn sem við erum undir og hvernig er verið að fjalla um hana og hvernig ýmsir meginstraums miðlar taka þátt í umfjölluninni um hana vegna þess að þar er undirliggjandi að verið er að sækja að blaðamönnum einvörðungu fyrir að skrifa fréttir. Það er það eina sem okkur hefur verið gefið að sök að gera, að það er að hafa tekið við gögnum og skrifað frétt um það.“
Fyrirvari: Blaðamennirnir sem fjallað er um, þeir Þórður Snær Júlíusson og Aðalsteinn Kjartansson, eru starfsmenn Heimildarinnar.
Athugasemdir (2)