Frá árinu 2010 hefur Dagur, sem oddviti Samfylkingarinnar í borginni, tekið þátt í að mynda fjóra mismunandi meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Sá fyrsti var með Besta flokknum, næsti með Vinstri grænum, Bjartri framtíð og Pírötum, í þeim þriðja var Viðreisn skipt inn á fyrir Bjarta framtíð og í þeim nýjasta kom Framsókn inn úr kuldanum í stað Vinstri grænna, sem biðu afhroð í borgarstjórnarkosningunum 2022.
Þetta eru, í íslensku sögulegu samhengi, óvenjulegt samstarf bæði vegna eðlis flokkanna og vegna þess hversu margir flokkar hafa komið að því að stjórna saman.
Á móti hefur lítið örlað á erjum milli meirihlutaflokkanna. Þeir hafa gengið í takt og unnið vel saman.
Dagur segir að þetta sé fyrirkomulag sem ætti sannarlega erindi í landsmálin. „Ég held að grunnurinn að góðu samstarfi sé bara virðing og að átta sig á því að samstarfsfólk er fyrst og fremst fólk. Það þarf að gefa samstarfi tíma og það þarf að byggja upp traust og trúnað og það held ég að hafi verið lykillinn að hvað þetta hefur gengið vel að vinna með svona ólíku fólki og svona ólíkum flokkum.“
Hann hafi komið nestaður inn í svona samstarf eftir að hafa hafið sinn pólitíska feril í Reykjavíkurlistanum. „Ég kom þar inn óflokksbundinn, og hann er settur saman af fjórum flokkum. Þannig að þar var búið að búa til ákveðinn samræðukúltúr sem höfðaði til mín og er gagnlegur. Ég held að sá andi sem hefur ríkt hérna í ráðhúsinu síðustu tíu ár sé því sannarlega til útflutnings. Þetta meirihlutasamstarf allt á það sameiginlegt að það hefur nánast engan skugga brugðið þar á og birtingarmynd meirihlutasamstarfsins allan þennan tíma er ekki það sem þú sérð oft í pólitík. Enginn að rífast fyrir opnum tjöldum eða lifa út einhverjar frústrasjónir innbyrðis í gegnum fjölmiðla. Þetta er bara gott, einlægt, uppbyggilegt samstarf fólks sem brennur fyrir borgina og þar sem við erum ósammála, þar finnum við fleti. Það er bara galdurinn.“
Versta viðskiptaákvörðun borgarinnar
Dagur segir það alltaf hafa verið býsna fjarri sér að skoða önnur stjórnarmynstur, til dæmis að mynda meirihluta með hinum stóra flokknum í borgarstjórn, Sjálfstæðisflokknum. „Í fyrsta lagi vegna þess að við höfum staðið fyrir ólíka hluti, ólík gildi, ólíka áherslu varðandi stjórn borgarinnar. En til viðbótar þá hefur Sjálfstæðisflokkurinn birst sem býsna ósamstæð heild og innbyrðis klofinn. Og stundum hefur mér liðið þannig að hann þurfi svolítið að gera upp fyrir hvað hann ætlar að standa í borginni áður en hann verður álitlegur samstarfsaðili. Ég held að þetta hafi kristallast í meirihlutamyndun mörg síðustu kjörtímabil. Það er þannig ára og andi og lítil samstaða innan þessa hóps til þess að öðrum finnist það árennilegt. Enda var það svolítið niðurstaða kjörtímabilsins sem Sjálfstæðisflokkurinn fékk að spreyta sig 2006 til 2010, að svona innbyrðis ágreiningur þar varð honum mikill fjötur um fót og leiddi til alls konar vondra niðurstaðna fyrir borgina, eins og sölu á hlut okkar í Landsvirkjun.“
Það er ljóst að sú ákvörðun, þegar meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar ákvað að selja 46 prósent hlut í Landsvirkjun fyrir 27 milljarða króna á þávirði, um 66 milljarðar króna á núvirði, situr mikið í Degi. Ef borgin ætti enn hlut sinn má ætla að hún hefði fengið um 15 milljarða króna í arðgreiðslu á síðustu tveimur árum. Dagur segir að borgin hafi, heilt yfir, orðið af hundruð milljörðum króna vegna sölunnar ef horft sé á þróun eigin fjár Landsvirkjunar á þeim tíma sem er liðinn frá sölunni. Þetta sé því versta viðskiptaákvörðun sem Reykjavíkurborg hafi nokkru sinni tekið.
Sjá meira

Athugasemdir (1)