Mál þeldökks manns sem var handtekinn á aðfangadag og mál 17 ára drengs sem lögregla hafði afskipti af á Ljósanótt í haust verða tekin fyrir á fundi nefndar um eftirlit með lögreglu (NEL) á fimmtudag. Alls eru þrjú mál til meðferðar hjá nefndinni sem tengjast kynþáttamörkun (e. racial profiling), það er þegar kynþáttur eða húðlitur er notaður til þess að skilgreina einstaklinga eða hópa fólks og mismunun gagnvart þeim réttlætt á þeim forsendum.
Kynþáttamörkun er tiltölulega nýtt hugtak í íslensku samfélagi, en endurtekin atvik þar sem lögregla hefur afskipti af þeldökkum einstaklingum hafa komið hugtakinu í umræðuna og hefur fólk af erlendum uppruna í kjölfarið bent á brotalamir hvað varðar vinnubrögð lögreglunnar í slíkum málum. Kynþáttamörkun byggist oft á ómeðvitaðri hlutdrægni, samkvæmt hópi fræðafólks og aktívista sem kom með tillöguna að þýðingu á hugtakinu.
„Löggæsla á Suðurnesjum er ekki kynþáttamiðuð“
Í löggæslu birtist þetta með þeim hætti að einstaklingur eða hópur fólks er grunaður um saknæmt athæfi vegna kynþáttar eða húðlitar frekar en sönnunargagna. Lögreglan heldur ekki sérstaklega utan um mál þar sem afskipti lögreglu má mögulega rekja til kynþáttamörkunar og Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, fullyrti í samtali við Kjarnann, annars fyrirrennara Heimildarinnar, í júní 2022 að löggæsla á Suðurnesjum væri ekki kynþáttamiðuð. „Og þekki ég ekki dæmi um slíka löggæslu,“ sagði hann í svari við fyrirspurn.
Síðasta haust hafði lögreglan á Suðurnesjum afskipti af tveimur 17 ára drengjum á Ljósanótt. Lögreglan hafði afskipti af öðrum þeirra, sem er dökkur á hörund, færði hann upp að vegg og lét fíkniefnahund leita á honum. Móðir drengsins sakaði lögreglu um kynþáttafordóma og krafðist skýringa. Úlfar sagðist í samtali við Vísi hafa áhyggjur og þætti „þetta ekki gott“. Hann sendi inn kvörtun til NEL.
Nýjasta málið átti sér stað á aðfangadag þegar Brian Gona, 28 ára maður frá Kenía sem er búsettur á Íslandi, var handtekinn á leið sinni heim frá vinnu. Var hann í kjölfarið vistaður í fangageymslu og yfirheyrður fyrir að geta ekki framvísað skilríkjum. Stjúpmóðir hans sagði frá atvikinu á Facebook en lögreglan sagðist ekki kannast við lýsingu líkt og lýst er í færslunni og sagðist ekki handtaka fólk fyrir það eitt að vera þeldökkt.
Málið var tilkynnt til NEL og verður tekið fyrir á fundi nefndarinnar 11. janúar, rétt eins og atvikið sem átti sér stað á Ljósanótt.
Málið sem kom öllu af stað
En þá er ekki allt upp talið. Málið sem hratt af stað umræðu um kynþáttamörkun er enn til umfjöllunar hjá NEL og verður að öllum líkindum tekið fyrir í mars, samkvæmt upplýsingum frá Skúla Þór Gunnsteinssyni, formanni nefndarinnar.
Í apríl 2022, fyrir tæpum tveimur árum, fylgdi lögregla eftir ábendingu sem sneri að strokufanga sem slapp úr haldi lögreglu við Héraðsdóm Reykjavíkur. Í tvígang, á jafnmörgum dögum, brást lögregla við ábendingum þar sem reyndist svo ekki um að ræða strokufangann heldur 16 ára dreng. Drengurinn er dökkur á hörund líkt og strokufanginn og með svipaða hárgreiðslu. „Þetta eru ekkert annað en fordómar,“ sagði móðir drengsins í samtali við Kjarnann.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri sat fyrir svörum á opnum fundi allsherjar- og menntamálanefndar í maí 2022 þar sem hún ræddi verklag lögreglu í málinu sem og fræðslu og menntun lögreglumanna um fjölmenningu og fordóma. Á fundinum sagði hún að ekki hafi verið um kynþáttamiðaða löggæslu að ræða í tilfelli 16 ára drengsins.

Á fundinum greindi ríkislögreglustjóri einnig frá því að málið væri til skoðunar hjá nefnd um eftirlit með lögreglu. Svo reyndist ekki vera og lét fulltrúi nefndarinnar embætti ríkislögreglustjóra vita. Engin kvörtun hafði þá borist til nefndarinnar vegna málsins líkt og ríkislögreglustjóri taldi og nefndin ákvað að taka málið ekki upp að eigin frumkvæði. Það vissi ríkislögreglustjóri ekki.
Nefndinni barst málið loks formlega í lok júní 2022 fyrir tilstuðlan ríkislögreglustjóra. Í svari Skúla við fyrirspurn Heimildarinnar segir að nefndin taldi rétt að óska eftir afstöðu þess sem í hlut átti, þar á meðal hvort vilji væri til að málið yrði skoðað af nefndinni „í ljósi þess hvernig málið fór af stað“. Ekkert svar barst og málið var því sett á bið. Í lok síðasta árs óskaði aðili máls hins vegar eftir því að koma sjónarmiðum til nefndarinnar og hefur nefndin orðið við því.
„Málið er varðar atvikið þegar lögreglan fór mannavillt í strætó verður ekki tekið fyrir í janúar en líklega í febrúar,“ segir í skriflegu svari Skúla til Heimildarinnar.
Athugasemdir (1)