Mikill meirihluti landsmanna er á þeirri skoðun að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hafi ekki axlað tilhlýðilega ábyrgð á Íslandsbankasölunni með því að segja af sér embætti fjármála- og efnahagsráðherra, en taka svo samstundis við embætti utanríkisráðherra.
Í könnun sem Maskína gerði 19. til 27. desember kemur fram fram að um 50 prósent aðspurðra eru á þeirri skoðun að hann hafi alls ekki axlað þá ábyrgð sem honum bar og 22 prósent til viðbótar telja hann hafi einungis axlað ábyrgðina að litlu leyti.

Það eru einungis kjósendur Sjálfstæðisflokksins sem telja að meirihluta að Bjarni hafi axlað ábyrgð með því að hafa stólaskipti við varaformann sinn, Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur, en 70 prósent þeirra eru á þeirri skoðun að hann hafi axlað ábyrgðina að öllu leyti eða hluta. Kjósendur annarra flokka eru á allt öðru máli. Meirihluti þeirra allra er á þeirri skoðun að Bjarni hafi ekki axlað ábyrgðina eins og vera skyldi. Þar með taldir eru kjósendur hinna stjórnarflokkanna tveggja, Vinstri grænna og Framsóknar. Alls 68 prósent kjósenda Vinstri grænna telja að Bjarni hafi annað hvort ekki axlað þá ábyrgð sem honum bar eða einungis gert það að litlu leyti. Um 59 prósent kjósenda Framsóknar eru sama sinnis. Þar af telur þriðjungur kjósenda Vinstri grænna að Bjarni hafi alls ekki axlað ábyrgð og 41 prósent kjósenda Framsóknar er sama sinnis.
Bjarni sagði af sér í október eftir að umboðsmaður Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að Bjarna hefði skort hæfi til að selja félagi föður síns hlut í ríkisbankanum í lokuðu útboði sem fór fram í mars 2022. Áður hafði Ríkisendurskoðun fellt áfelli yfir þætti Bankasýslu ríkisins í söluferlinu og Íslandsbanki játað margháttuð lögbrot við framkvæmd þess sem leiddi til metsektar og afsagnar ýmissa stjórnenda og stjórnarmanna í bankanum, þar á meðal Birnu Einarsdóttur bankastjóra.
Lítil ánægja með Gaza og hvalveiðimálið
Maskína spurði líka um tvö önnur deilumál sem mikið hefur verið tekist á um. Annars vegar um afstöðu Íslands til þeirra atburða sem hafa átt, og eru að eiga, sér stað á Gaza og hins vegar framgöngu Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra í hvalveiðimálinu.
Í fyrrnefnda málinu kom fram að 50 prósent aðspurðra voru ósáttir með opinbera afstöðu Íslands almennt varðandi Gaza en 23 prósent voru sáttir.

Eini kjósendahópur stjórnmálaflokks á landinu sem var að meirihluta sáttur við afstöðu Íslands voru kjósendur Sjálfstæðisflokksins, en 51 prósent þeirra eru ánægðir með stefnuna.
Hjá hinum tveimur stjórnarflokkunum eru fleiri ósáttir en sáttir. Í tilfelli Vinstri grænna sögðust 40 prósent vera ósátt við opinbera afstöðu Íslands almennt varðandi Gaza en 27 prósent voru sáttir. Innan kjósendahóps Framsóknar sögðust 42 prósent vera ósátt en 32 prósent sátt.
Tæplega 52 prósent svarenda sögðust vera ósátt með Svandísi í hvalveiðimálinu, en hún bannaði hvalveiðar tímabundið í upphafi vertíðar og leyfði þær síðar aftur að ákveðnu skilyrðum uppfylltum. Mun færri, 23 prósent, eru ánægðir með hana í málinu.

Griðarlegur munur er á skoðunum kjósenda stjórnarflokkanna á þessu deilumáli. Alls segjast 59 prósent kjósenda Vinstri grænna vera sátt með framgöngu Svandísar og 12 prósent segjast ósátt. Innan kjósendahóps Sjálfstæðisflokksins segjast einungis átta prósent vera sátt með framgöngu matvælaráðherra og 79 prósent eru ósátt. Staðan er litlu skárri á meðal Framsóknarmanna, en 12 prósent þeirra eru sáttir með Svandísi á meðan að 65 prósent eru ósáttir.
Svarendur í könnuninni voru alls 1.212 talsins.
Athugasemdir (1)