Í nýlegri bókun bæjarráðs Hornafjarðar er skorað á stjórnvöld til þess að fara í aðgerðir til þess að tryggja næga raforku til notenda og koma í veg fyrir að aðilar neyðist til keyra starfsemi sína á innfluttri og mengandi orku.
Þá segir þar að í ljósi ástandsins hafi sjávarútvegsfyrirtækið Skinney-Þinganes, sem rekur meðal annars fiskmjöls verksmiðju á Höfn, verið knúið til þess að festa kaup á olíukatli til þess að sjá verksmiðjunni fyrir varaafli. Olíuketillinn er knúinn með díselolíu.
Í bókuninni lýsir bæjarráð „furðu sinni og vonbrigðum með að við hér á landi séum komin í þá grafalvarlegu stöðu að fyrirtæki sem hafa fjárfest mikið og lagt metnað sinn í að reka sína framleiðslu á innlendum sjálfbærum orkugjöfum, sé nú sett í þá stöðu að þurfa að fjárfesta í tækjum sem framleiða orku og keyra á díselolíu.“ Þá segir að þessi þróun sé ekki í takt við loftslagsmarkmið íslenskra stjórnvalda.
Kaupin á olíukatlinum koma í kjölfar tilkynningar Landsvirkjun um að skerða þyrfti afhendingu á víkjandi orku til fiskimjölsverksmiðja. Í þeirri tilkynningu er tekið sérstaklega fram að fiskimjölsframleiðendur sem hafa ekki gert samninga um kaup á forgangsorku muni verða fyrir áhrifum skerðingarinnar.
Í frétt sem var birt á RÚV um málið kemur fram að Skinney-Þinganes sé á meðal þeirra fyrirtækja sem hafi ekki gert samning um kaup á forgangsorku. Þar er haft eftir Erlingi Brynjólfssyni, bræðslustjóra á Höfn, að tilkynningin hafi komið þeim á óvart og að skerðingin gæti ollið vandræðum ef loðna finnst í vetur.
Ítrekaðar skerðingar á afhendingu raforku
Landsvirkjun hefur á undanförnum árum þurft að grípa til þess ráðs í auknum mæli, að skerða afhendingu á orku til stórnotenda og smærri verksmiðja víða um land. Landsvirkjun tilkynnti fyrr í vikunni að skerða þurfi orku til stórnotenda á suðvesturhluta landsins vegna þurrka. Skerðingin tekur gildi í janúar á næsti ári gæti staðið yfir til loka apríl.
Í kjölfarið hafa orkumál verið mikið umræði þar sem deilt er nauðsyn þess að skammta eða auka framboð á rafmagni. Þá benda sömuleiðis margir á að vandinn sé hægt leysa með því að bæta innviði sem snúa að afhendingu rafmagns.
Margir hafa komið fram og lýst yfir neyðarástandi vegna brýns orkuskorts í landinu. Til að mynda sagði Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, í viðtali við RÚV í lok síðasta mánaðar, að ráðast verði tafarlaust í uppbyggingu til þess auka framboð á raforku til þess að leysa vandan. Tilefni ummælanna voru vegna frumvarps atvinnuveganefndar Alþingis til raforkulaga, sem hefur verið rædd á þingi í haust.
Lögin áttu meðal annars að tryggja almenningi og öðrum fyrirtækjum en stórnotendum raforku ef til skammtana kemur. Fjölmörg samtök og fyrirtæki hafa gagnrýnt frumvarpið og sent inn umsagnir. Meðal andmælenda eru stórnotendurnir Norðurál og Alcoa, hagsmunasamtök á borð við Samtök Iðnaðarins og Samtök Atvinnulífsins. Þá leggjast HS orka, Orka náttúrunnar og Veitur gegn frumvarpinu líka.
Þá hafa líka sumir gagnrýnt orðræðuna sem hefur skapast í kringum orkumálin og þá fullyrðingu að hér blasi við neyðarástand vegna skorts á raforku.
Til mynda sagði Björg Eva Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, í viðtali hjá RÚV að eftirspurn eftir orku verði ávallt mikil og hægt sé að selja hana endalaust. Staldra þurfi við að og hugsa um afleiðingarnar sem átak í að aukinni raforkuframleiðslu hefur á náttúru Íslands.
Athugasemdir