Verðbólga og erfið kjarastaða margra heimila verða stærstu viðfangsefni komandi kjarasamninga. Verkalýðshreyfingin hefur mótað áætlun um hvernig æskilegt sé að bregðast við. Stefnt er að nýrri þjóðarsátt um að ná verðbólgu og vöxtum hratt niður og leita kjarabóta með öðrum hætti en miklum launahækkunum.
Eftirfarandi eru helstu forsendur þeirrar áætlunar sem unnið er nú eftir hjá verkalýðshreyfingunni.
Kjarastaða heimilanna: Ísland og ESB-ríkin samanborin
Atvinnurekendur hafa talað mikið um að laun séu nú orðið með hæsta móti á Íslandi. Laun eru hér vissulega í hærri kantinum miðað við Evrópulöndin, en það er ekki mesta sérstaðan við kjarastöðu heimilanna á Íslandi.
Verðlagið er stærsta sérstaðan. Það er óvenju hátt hér og setur almennt mikinn þrýsting á launahækkanir.
Þetta er sýnt með skýrum hætti á meðfylgjandi mynd sem endurspeglar stöðuna á síðasta ári.
Verðlag á einkaneyslu heimila á Íslandi er það sem víkur lengst frá meðaltali ESB-landanna. Það er að jafnaði um 73% hærra hér. Þetta skýrir mikinn framfærslukostnað á Íslandi. Síðan er það húsnæðiskostnaðurinn sem er um 62% hærri hér á landi en að jafnaði í ESB-ríkjunum.
Launakostnaður á klukkustund er vissulega hærri að jafnaði á Íslandi en í ESB-ríkjunum (41% hærri) – en samt eru laun ekki nógu há hér til að ráða nægilega vel við framfærslukostnaðinn sem hið háa verðlag á matvælum og húsnæði leggur á heimilin.
Sú afkomukreppa sem nú hrjáir heimili í lægri hluta tekjustigans magnaðist upp með óvenju miklum hækkunum húsnæðiskostnaðar og verðhækkunum á nauðsynjum á síðustu misserum (sjá hér). Á sama tíma fór hagnaður fyrirtækja upp í hæstu hæðir (sjá hér).
Þetta hefur komið sérstaklega illa við heimilin vegna þess að tilfærslukerfi þeirra (barnabætur og húsnæðisstuðningur) hafa veikst verulega á síðustu áratugum og veita nú alltof litla vernd gegn sveiflum í afkomu og sérstaklega gegn stórhækkuðum húsnæðiskostnaði (sjá hér).
Það sem blasir við er að verðlagið er stærsta vandamálið sem brýnast er að taka á. Einnig er nauðsynlegt að endurreisa tilfærslukerfi heimilanna til að verja heimili lægri tekjuhópa betur.
Verkalýðshreyfingin er með áætlun
Á vettvangi verkalýðshreyfingarinnar hefur nú verið mótuð heildstæð áætlun til að taka á þessari stöðu í komandi kjarasamningum. Stefnt er að nýrri þjóðarsátt um að ná verðlagi og vöxtum hratt niður með hóflegum launahækkunum í samningi til þriggja ára og samstilltu átaki allra, ekki síst fyrirtækja.
Þetta verði gert mögulegt með endurreisn tilfærslukerfa heimilanna, sem skili sér í auknum greiðslum til barnabóta og húsnæðisstuðnings, sem nemi um 30-50 þúsund krónum til heimila í lægri og milli tekjuhópum. Þetta myndi kosta ríkið um 20-25 milljarða aukalega á ári.
Slík aðgerð myndi færa tilfærslukerfin í átt að því sem var á þeim tíma sem þjóðarsáttin 1990 var gerð. Þetta er því lykilforsenda fyrir því að hægt sé að una við hóflegar launahækkanir nú til að ná verðlagi og vöxtum hratt niður á næstu misserum.
Hvernig væri að stéttarfélög á Íslandi óski eftir þvi að kjaraliðir verði í evrum en ekki íslenskum krónum? Langflest af stærri fyrirtækjum landsmanna gera upp sín árlegu viðskipti flest í evrum en nokkur í öðrum erkendum gjaldmiðlum en fæst í íslenskum krónum.
Með þvi að hafa evruna sem viðmið þá ætti að vera kominn traustur grundvöllur fyrir að byggja upp stöðugra efnahagslíf á Íslandi, tryggja vinnufrið og stuðla að traustara samfélagi. Nú er spurning hvort fjárglæframenn Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Framsóknarflokksins séu tilbúnir að viðurkenna að íslenska krónan hafi verið þeim feþúfa gegnum tíðina? Við þurfum að losa okkur við úslensku krónuna sem fyrst og koma henni fyrir kattarnef. Því fyrr, því betra.