Samkeppniseftirlitið hefur komist að þeirri niðurstöðu í frummati að Festi hf., eitt stærsta smásölufyrirtæki landsins, hafi brotið gegn ákvæðum sáttar sem félagið gerði við eftirlitið sumarið 2018, þegar N1 sameinaðist Festi. Það er mat eftirlitsins að brot Festi séu „alvarleg“.
Eftir lokun markaða í gær barst Festi andmælaskjal frá Samkeppniseftirlitinu þar sem hin ætluðu brot voru framsett en rannsókn eftirlitsins á þeim hófst í desember 2020, og hefur því þegar staðið yfir í þrjú ár.
Í tilkynningu sem Festi sendi til Kauphallar Íslands í morgun kemur fram að í andmælaskjalinu sé gerð grein fyrir því frummati Samkeppniseftirlitsins að Festi hafi í nokkrum liðum brotið gegn ákvæðum sáttar félagsins við eftirlitið sem gerð var 30. júlí 2018 vegna samruna N1 og Festi. Jafnframt sé vísað til ætlaðra brota gegn 19. og 17. grein samkeppnislaga. Sú fyrri fjallar um upplýsingaskyldu og sú síðari um skilyrði samruna.
Festi segir í tilkynningunni að andmælaskjalið feli „hvorki í sér stjórnvaldsákvörðun né er það á nokkurn hátt bindandi. Svo sem greinir í andmælaskjalinu er það ritað í þeim tilgangi að auðvelda Festi að nýta andmælarétt sinn samkvæmt stjórnsýslulögum og stuðla að því að rétt ákvörðun verði tekin í málinu.“
Þá sé því lýst að ef athugasemdir, skýringar eða ný gögn þykja gefa tilefni til, geti frummatið tekið breytingum. „Festi er enn þeirrar skoðunar að félagið hafi ekki brotið gegn ákvæðum sáttarinnar við SE og er vinna hafin við að bregðast við tilgreindu andmælaskjali og því frummati sem þar er lýst.“
Getur haft alvarlegar afleiðingar
Frummat Samkeppniseftirlitsins er, líkt og áður sagði, „ að meint brot Festi séu alvarleg og að til álita komi að beita viðurlögum á grundvelli 37. gr., 3. mgr. 17. gr. e. og 1. og 2. mgr. 16. gr. samkeppnislaga.“
Í þriðju málsgrein 17. greinar e. er heimild fyrir Samkeppniseftirlitið til að afturkalla ákvörðun um að heimila samruna ef ákvörðunin er byggð á röngum upplýsingum sem einhver samrunaaðila ber ábyrgð á eða þegar hún er fengin fram með blekkingum eða að hlutaðeigandi fyrirtæki brjóta gegn skilyrðum sem samruna hafa verið sett.
Í annarri málsgrein 16. greinar samkeppnislaga segir að aðgerðir Samkeppniseftirlitsins geti falið í sér hverjar þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að efla samkeppni, stöðva brot eða bregðast við athöfnum opinberra aðila sem kunna að hafa skaðleg áhrif á samkeppni. „Samkeppniseftirlitið getur beitt nauðsynlegum úrræðum bæði til breytingar á atferli og skipulagi vegna þeirra atriða sem tilgreind eru í 1. mgr. í réttu hlutfalli við það brot sem framið hefur verið eða þær aðstæður eða háttsemi sem um ræðir.] Þó er einungis heimilt að beita úrræðum til breytingar á skipulagi ef sýnt þykir að ekki sé fyrir hendi árangursríkt úrræði til breytingar á atferli eða þar sem jafnárangursríkt úrræði til breytingar á atferli væri meira íþyngjandi fyrir hlutaðeigandi aðila en úrræði til breytingar á skipulagi.“
Áttu að selja frá sér ýmsar eignir
Umrædd sátt var undirrituð síðla árs 2018. Hún heimilaði Festi, sem rak Krónuna og fleiri matvöruverslanir, Elko og vöruhótelið Bakkann að sameinast eldneytisrisanum N1. Í sáttinni fólst meðal annars að selja átti fimm sjálfsafgreiðslustöðvar til nýrra, óháðra aðila á eldsneytismarkaði. Um var að ræða þrjár sjálfsafgreiðslustöðvar undir merkjum Dælunnar við Fellsmúla og Staldrið í Reykjavík og Hæðarsmára 8 í Kópavogi, og tvær stöðvar undir merkjum N1 við Salaveg í Kópavogi og Vatnagarða í Reykjavík. Þá átti sameinað félag að selja verslun Kjarvals á Hellu ásamt verslun Krónunnar í Nóatúni.
Festi seldi bensínstöðvarnar fimm til Einars Arnar Ólafssonar, fyrrverandi forstjóra Skeljungs og umsvifamikils fjárfestis, og hann seldi þær síðar áfram til Skeljungs, sem í dag heyrir undir SKEL fjárfestingafélag. Samkaup keypti verslanirnar á Hellu og í Nóatúni.
Sérstakur óháður kunnáttumaður, lögmaðurinn Lúðvík Bergvinsson, var skipaður til að hafa eftirlit með því að skilyrðum sáttar Festar við Samkeppniseftirlitið yrði fylgt eftir. Hann átti að ljúka störfum í lok ágúst í ár. Kostnaður vegna kunnáttumannsins var umtalsverður fyrstu árin eftir skipun hans en fór svo hratt lækkandi. Í sumarlok í fyrra var hann alls kominn upp í 61 milljón króna en á fyrstu átta mánuðum ársins 2022 hafði hann einungis verið tæplega 2,6 milljónir króna.
Athugasemdir (2)