Í áratugi var íslenska utanríkisþjónustan leiksoppur og verkfæri valdakjarnans í landinu, það er að segja valdaflokkanna tveggja, Framsóknarflokks og þó fyrst og fremst Sjálfstæðisflokks. Stundum fékk Alþýðuflokkurinn líka að vera með.
Æðstu sendiherraembættin voru bitlingar og sárabætur fyrir afdankaða stjórnmálamenn og aðra gæðinga flokkanna og þótt sumir þeirra sendiherra, sem þannig var troðið í embætti, hafi alveg staðið sig í stykkinu, þá var áreiðanlega sárt fyrir atvinnudiplómata sem höfðu þá réttu menntun, reynslu og þekkingu til að vera fulltrúar okkar á erlendri grund að horfa upp á ýmsa þá fugla sem skreyttu sig fyrirvaralaust sendiherranafnbót, góðum launum, fríðindum og fínum eftirlaunum og höfðu ekki annað til þess unnið en hollustu við flokk og klíku.
Um þetta mætti nefna mörg leið og leiðinleg dæmi, en verst og grátlegust varð þessi spilling auðvitað í tíð Davíðs Oddssonar í þann blessunarlega skamma tíma sem hann var ráðherra utanríkismála.
Þetta breyttist hins vegar í tíð Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra í stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur 2009-2013. Hann tók upp á því að skipa eingöngu í sendiherraembætti fólk sem hafði sannanlega unnið fyrir því innan utanríkisþjónustunnar og kunni sitt fag.
Þótt Össur hafi aldrei viljað um það tala, þá segja mér heimildir mínar djúpt, djúpt innan úr utanríkisráðuneytinu á þessum árum að sér í lagi síðustu daga þeirrar ríkisstjórnar þá hafi beinlínis legið á húninum hjá Össuri allskonar brottfallnir pólitíkusar og silkihúfur (úr mörgum flokkum og valdakimum samfélagsins) og reynt að grenja út sendiherrastöður, en hann lét sig hvergi og öll fóru þau erindisleysu.
Þetta fordæmi Össurar mæltist svo vel fyrir að þótt Sjálfstæðisflokkurinn endurheimti brátt lyklavöldin í utanríkisráðuneytinu treystist hann ekki til að snúa aftur til gamla tímans, nema reyndar einu sinni; þegar Geir Haarde þurfti dúsu fyrir að hafa verið dæmdur að lögum og var þá gerður að sendiherra í Washington.
Þá var þess og gætt að þingmaður VG, sem aldrei hafði komið nálægt utanríkisþjónustunni, væri líka skipaður sendiherra, svo stjórnarandstaðan væri ekki með múður — og viti menn, ekkert múður upphófst úr þeirri átt.
En síðan hafa utanríkisráðherrar að mestu látið þessa vanheillabraut eiga sig, fyrr en nú þegar Bjarni „sagðirðu árás“ Benediktsson er orðinn ráðherra í sérstöku skjóli VG, og eitt hans fyrsta verk er að skipa vinkonu sína og fyrrum aðstoðarmann sendiherra í ... jú, auðvitað Washington.
Bandaríkjamenn eru líklega að verða vanir því að höfuðborg þeirra sé notuð sem dúsa fyrir pólitíkusa á Íslandi.
Og fréttir af þessu eru látnar út ganga á miðjum fyrsta degi eldgoss svo minna beri á þeim og hneykslun brjótist síður út.
Um leið er svo búin til staða sendiherra í Róm til að koma þar í skjól öðrum aðstoðarmanni Bjarna sem var ráðuneytisstjóri hans í fjármálaráðuneytinu er Bjarni klúðraði Íslandsbankasölunni — og ýmsu fleiru.
Ríkið, það er að segja við, borgum brúsann af að koma vinum Bjarna í enn betri og þægilegri djobb.
Nú ítreka ég að sumir hinir pólitísku sendiherra á fyrri tíð gáfust ágætlega og ég efast til að mynda ekki um að Svanhildur Hólm Valsdóttir geti vel valdið djobbinu. Þetta er samt ekki fagleg ráðning, heldur framhald þeirrar frændhygli, klíkuráðninga og vinavæðingar sem alltaf, allsstaðar og undir öllum kringum kringumstæðum fylgir Sjálfstæðisflokknum — nú síðustu sjö árin í boði VG.
Takk, Katrín.
Ráðherrar eiga frekar að láta frekar að láta kunningja og vini gjalda fyrir kunningsskapinn en hygla þeim við ráðningar í embætti. En þeir hafa snúið þessu við og segja: Eiga vinir mínir að gjalda fyrir að þekkja mig?
Vafnings,Falsom og ICE 1, sala a eignum okkar her og þar til sinna manna reyndu b.b. að
mannast og farðu i apa heimkynni sem fyrst og skammastu þin.