Logi Einarsson, þingflokksformaður Samfylkingar, fór ómjúkum orðum um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar í ræðu sinni á Alþingi í dag. Segir hann flokk sinn ekki standa með þeim áherslum gagnvart almenningi sem fram kæmu í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. „Það er ömurlegt að þurfa hér í síðustu störfum þingsins á þessu ári að þurfa að lýsa vonbrigðum með afrakstur haustsins,“ sagði hann.
5.000 heimilum „skutlað út úr vaxtabótakerfinu“
Var Logi helst óánægður með að ekki nægilega væri hugað að hag heimilanna í fjárlögum. „Það er eins og ríkisstjórnin telji að íslenska meðalheimilið svífi um á einhverju rósrauðu skýi.“ Vísaði hann til mikillar verðbólgu og hárra stýrivaxta sem hafa mikil áhrif á kjör almennings.
Sagði Logi að viðbrögð ríkisstjórnarinnar við slæmum hag heimilanna væri að „skutla 5.000 heimilum út úr vaxtabótakerfinu og með því að leyfa barnabótum og húsnæðisbótum að lækka að raunvirði.“
Sagði hann forkastanlegt væri að fjárlögin væru „gersneydd skilningi á stöðu almennings í landinu.“ Við lok ræðu sinnar sagði Logi að „ef ríkisstjórnin væri bíómynd hefði hún fengið svona 1,2 til 2 á Rotten Tomatoes.“
Fjármagnseigendur teknir fram yfir almenning
Guðbrandur Einarsson, þingmaður Viðreisnar, talaði í svipuðum dúr í ræðu sinni. Hann sagði að það að kaupmáttur ráðstöfunartekna hefði minnkað fimm ársfjórðunga í röð og að rúm 30% landsmanna ættu erfiðara með að ná endum saman en áður ættu að vera skýr skilaboð til stjórnmálamanna.
Harmaði hann að fjárlagafrumvarpið sem kosið verður um á morgun væri ekki nýtt til að snúa þessari þróun við. „Þeir möguleikar sem ríkisstjórnin hefur m.a. í tilfærslukerfunum til að jafna hlut fólks eru ekki nýttir. Þvert á móti munu mun færri fá húsnæðis-, vaxta- og barnabætur á næsta ári og það segir ýmislegt um forgangsröðun þessarar ríkisstjórnar.“
Hélt Guðbrandur því fram að um tilfærslu fjármuna frá íslensku launafólki til fjármagnseigenda væri að ræða. En þeir síðarnefndu þyrftu ekki á auknum fjármunum að halda. „Við eigum að taka almannahagsmuni fram yfir sérhagsmuni og tryggja að ekki sé verið að grafa dýpra og dýpra ofan í vasa almennings.“
Athugasemdir (1)