Einu sinni hitti ég konu sem bað mig um að fletta upp bókum fyrir sig um Bayeux-refilinn. Svo varð hún mjög hissa á mér, sko allt að því hneyksluð, því ég hafði ekki hugmynd um hvernig Bayeux væri skrifað. Ég þorði ekki fyrir mitt litla líf að segja henni að á þessu augnabliki vissi ég ekki heldur neitt hvað refill væri.
Einhvern veginn hafði ég komist langt fram á fullorðinsár án þess að veggteppi náðu að spila nokkra rullu í mínu lífi. Ég hafði aldrei tekið eftir þeim, vinir mínir minnast aldrei á þau og ég hef aldrei lesið bók um þau. Ég vissi ekki hvert móðir mín ætlaði þegar ég sagði henni frá þessari fákunnáttu minni og síðan hefur hún oft reynt að fræða mig um veggteppi.
Ein glæsilegasta fræðibókin í ár er um refla, bókin Með verkum handanna eftir Elsu E. Guðjónsson, og ég er að spá í að gefa mömmu minni hana. Hún á eftir að verða svo glöð.
Á Íslandi eru til svakalega margar bækur um kindur og ég hef rekist á allavega tvær í jólabókaflóðinu í ár, bókina Sauðfjárbúskapur í Reykjavík eftir Ólaf Dýrmundsson og bókina Forystufé og fólkið í landinu eftir Daníel Hansen og Guðjón Ragnar Jónasson.
Ég frétti að það hafi orðið uppi fótur og fit þegar það átti að halda útgáfuboð þeirrar síðarnefndu í Smáralind. Einhverjir voru sannfærðir um að það myndi alvöru forystufé mæta í partíið og svo fór að MAST sendi bréf og minnti á að sauðfé hefði ekkert gaman af því að vera í verslunarmiðstöðvum. Ég held ég hafi sjaldan hlegið jafnmikið og þegar ég sá þetta bréf. Gott að einhver sé að hugsa um kindurnar en það er eitthvað svo fyndið við að ímynda sér kindur velja sér rétta varalitinn í MAC.
Fræðibækurnar sem mér heyrist flestir vera að tala um er bókin hennar Báru Baldursdóttur um ástandið Kynlegt stríð og bókin Lífið er kynlíf eftir Áslaugu Kristjánsdóttur. Ólíkar bækur en ég er spennt að komast yfir þær báðar. Mig langar líka mjög mikið í bókina Rauður þráður um Hildi Hákonardóttur.
Annars eru ævisögur eiginlega uppáhaldsfræðibækurnar mínar. Ég fór í útgáfuboðið hans Tómasar R. Einarssonar fyrir bókina Gangandi bassi. Þar svignuðu borð undan alls konar veitingum, bæði vegan og óvegan. Allt í einu kom röltandi inn heil lúðrahljómsveit og svo hélt Tómas sjálfur fyndna ræðu og fleiri tónlistarmenn tróðu upp. Margir rithöfundar á svæðinu ákváðu þá að halda aldrei aftur útgáfupartí því þetta yrði aldrei toppað.
„Gott að einhver sé að hugsa um kindurnar en það er eitthvað svo fyndið við að ímynda sér kindur velja sér rétta varalitinn í MAC.“
Aðrar ævisögur sem ég ætla líka að ná mér í eru: Ég verð aldrei ungfrú meðfærileg eftir Ingibjörgu Dögg Kjartansdóttur, Morðin í Dillonshúsi eftir Sigríði Dúu Goldsworthy og Horfinn heimur eftir Þröst Ólafsson.
Mest af öllu langar mig samt í bókina Born to Run - Sjálfsævisaga sem er eftir Bruce Springsteen sem er ást lífs míns. Ég hef hlustað á hana sem hljóðbók þar sem Bruce sjálfur les en röddin hans er svo falleg að ég hélt illa þræði yfir sögunni sjálfri. Verður gott að fá þessa íslensku þýðingu.
En þegar ég fæ leið á mannfólki ætla ég að lesa bókina Skrímsli í sjó og vatni eftir Þorvald Friðriksson og Skemmtilegu dýrin eftir Veru Illuga og Illuga Jökulsson. Í þeirri síðarnefndu er bæði sagt frá akandi rottum og bálreiðum mörgæsum og það hljómar eiginlega miklu betur en nokkur manneskja sem ég hef kynnst. Þegar ég meika svo ekki heldur nein dýr lengur, þá fer ég bara aftur í veggteppin.
Athugasemdir