„Samkvæmt Árna Guðmundssyni þá ætla þeir að leita allra leiða til að hjálpa Grindvíkingum eins og bankastofnanirnar hafa gert. Ég verð að trúa og treysta honum í þessu tilfelli. Þetta er í fyrsta sinn sem mér finnst Gildi sýna smá auðmýkt. Þeir sjá það að við ætlum ekki að gefast upp. Við stöndum saman sem samfélag og munum ekki hætta fyrr en við fáum þessi mál á hreint.“ Þetta segir Einar Hannes Harðarson, formaður Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur, sem var á meðal þeirra sem stóð fyrir mótmælum við skrifstofur lífeyrissjóðsins Gildis í dag. Þar var þess krafist að Gildi felli niður vexti og verðbætur á lánum til Grindvíkinga líkt og viðskiptabankarnir hafa gert. Hingað til hefur Gildi, og aðrir lífeyrissjóðir, ekki viljað gera það og sagt að lög standi í vegi fyrir því að bjóða annað en greiðsluskjól.
Umræddur Árni Guðmundsson er framkvæmdastjóri Gildis. Hann sagði við hópinn sem mótmælti að verið væri að leita leiða til að koma til móts við kröfur Grindvíkinga og að gert sé ráð fyrir að niðurstaða liggi fyrir síðar í vikunni. „Þetta eru ekki stórar fjárhæðir fyrir sjóðinn,” sagði Árni þegar hann ávarpaði mótmælendur í dag.
Fólkið fékk ekki að fara inn á skrifstofu lífeyrissjóðsins þar sem stjórnendur sögðu starfsfólk sitt hafa staðið ógn að mótmælendum þegar þeir mótmæltu síðast, en þetta er í þriðja sinn sem verkalýðsforkólfar úr Grindavík hafa mótmælt við skrifstofur Gildis ásamt Ragnari Þór Ingólfssyni, formanni VR.
Einar segir að hann vilji sjá það að lífeyrissjóðirnir geri nákvæmlega sama og bankarnir, felli niður vexti og verðbætur. Ef lífeyrissjóðirnir megi ekki bregðast við þegar náttúruhamfarir dynji yfir þá eigi þeir ekkert erindi á lánamarkað. Einar er sjálfur ekki með lán hjá Gildi en segir marga félagsmenn sína vera í þeirri stöðu. „Það er fullt af fólki sem á um mjög sárt að binda. Húsið þeirra er ónýtt og það á enn að borga af því, það fær ekki vexti og verðbætur niðurfelld. Ef þessi hús verða dæmd ónýt, og þú ert með lán hjá Gildi, þá er það að rýra eignarhlutinn um kannski einhverjar milljónir og greiðslur frá Náttúruhamfaratryggingu Íslands munu rýrna í kjölfarið. Þetta er galið.“
Eru í kortlagningu og segjast vera að flýta sér
Í tilkynningu sem Gildi birti fyrr í dag kom fram að sjóðurinn hafi enn ekki komist að niðurstöðu um hvort hann telji sér heimilt að fellar viður vexti og verðbætur á íbúðalánum sem hann hefur eitt Grindvíkingum.
Þar kom einnig fram að bæði þeir sem borguðu og þeir sem borguðu ekki af lánum sínum um liðin mánaðarmót, væru í greiðsluskjóli. Rúmlega tuttugu lántakendur í Grindavík sem væru með lán hjá sjóðnum hefðu þegar ákveðið að nýta sér þann kost að fresta greiðslum í allt að sex mánuði. „Tæplega tuttugu til viðbótar greiddu af lánum sínum um síðustu mánaðamót og hafa ekki að svo stöddu óskað eftir öðru. Eftir standa tæplega tíu lántakendur sem ekki hafa gengið formlega frá frystingu lána sinna. Rétt er að ítreka að allir lántakendurnir eiga kost á greiðsluskjóli sem þýðir að þeir þurfa ekki að reiða fram greiðslur út maímánuð 2024.“
Eftir stendur að lífeyrissjóðir rukka lántakendur í Grindavík samt sem áður um vexti og verðbætur á lánum sínum, sem leggjast þá ofan á höfuðstól þeirra. Viðskiptabankar hafa þegar tilkynnt að þeir muni ekki gera slíkt í þrjá mánuði.
Í tilkynningu Gildis segir að starfsfólk sjóðsins hafi, allt frá því að hamfarirnar í Grindavík riðu yfir, unnið að því að kortleggja hvort til staðar séu lagaheimildir fyrir lífeyrissjóði til að fara í almennar niðurfellingar á vöxtum og verðbótum á umræddum lánum. „Í því sambandi er nauðsynlegt að hafa í huga að um lífeyrissjóði gilda önnur og oft mun strangari lög en eiga við um aðrar fjármálastofnanir. Unnið hefur verið að kortlagningu á stöðunni innan sjóðsins, en verkefnið er flókið þar sem taka þarf tillit til fjölmargra þátta. Lögð hefur verið áhersla á að vinna málið eins hratt og mögulegt er og er nú gert ráð fyrir að niðurstaða liggi fyrir síðar í vikunni.“
Athugasemdir