Í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag hélt Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, því fram að ákveðið stjórnleysi ríkti í stjórn á Airbnb og íbúðum í skammtímaleigu. Beindi hún spurningum sínum til Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur fjármála- og efnahagsráðherra.
Samfylkingin hefur boðað aukna stjórn í þessum málaflokki til að auka húsnæðisöryggi. Talsmenn flokksins hafa haldið því fram að fyrirtæki sem leigja fjölda íbúða í skammtímaleigu til ferðamanna sé sérstaklega vandamál.
Skaðleg reglugerð
Kristrún sagði tiltekna reglugerð, sem Þórdís Kolbrún hefði sett á árið 2018 þegar hún var ferðamálaráðherra, vera sérstaklega skaðlega í þessu samhengi. Reglugerðin kvað á um að ekki væri lengur krafa að allir gististaðir utan heimagistingar þyrftu að vera starfræktir í atvinnuhúsnæði.
Að sögn Kristrúnar hefur reglugerðin það í för með sér að fyrirtæki sem eru með fjölda íbúða í skammtímaleigu til ferðamanna komist hjá því að skrá þær sem atvinnuhúsnæði. Íbúðirnar haldi því áfram að vera skráðar sem íbúðarhúsnæði þrátt fyrir að vera nýttar í atvinnurekstri. Þannig segir hún að fyrirtækin komist hjá því að greiða fasteignagjöld af atvinnuhúsnæði sem geta verið allt að tíu sinnum hærri en af íbúðarhúsnæði.
Sleppa við að fylgja reglum sveitarfélaga
„Og þannig komast þessi fyrirtæki hjá því að fylgja skipulagsreglum sveitarfélaga um atvinnuhúsnæði sem takmarkast yfirleitt við ákveðin svæði. Allt skekkir þetta samskeppnisstöðuna við önnur fyrirtæki í gistiþjónustu eða hvaða fyrirtæki sem er sem þarf að skrá húsnæði sitt sem atvinnuhúsnæði.“
Sagði Kristrún þá þróun hafa ágerst mjög að íbúðir séu frekar nýttar fyrir ferðamennsku en fasta búsetu. „Jafnvel heilu blokkirnar. Án þess að sveitarfélög fái rönd við reist.“
Endurskoðun þörf en bendir á sveitarfélögin
Þórdís Kolbrún svaraði því að ljóst væri að breyta þyrfti umhverfi Airbnb. Hún tók undir það að samkeppnisstaða á markaðnum væri skökk og jafnræði þyrfti á milli aðila.
Fjármála- og efnahagsráðherra hélt því enn fremur fram að þegar reglugerðin hefði verið sett hefði enginn rammi verið utan um þessa starfsemi. Að næstum sex árum liðnum væri eðlilegt og sjálfsagt að þróa rammann utan um skammtímaleigu áfram. „Atvinnurekstur er auðvitað atvinnurekstur og við sjáum það á fjölda íbúða á Airbnb, sérstaklega hérna á höfuðborgarsvæðinu, er gríðarlega mikill.“
Vísaði hún einnig í ábyrgð sveitarfélaganna að fylgjast með starfseminni. Þau þurfi að vera í stakk búin að fylgjast með að reglum sé fylgt.
„Mér sýnist af fjölmiðlaumfjöllun undanfarinna daga að það hafi ekki gengið neitt sérstaklega vel. Þannig að ég skora á hæstvirtan þingmann að tala við sína félaga hjá Reykjavíkurborg og spyrja hvað þau eru að gera til að ná betri tökum á umsvifum Airbnb á höfuðborgarsvæðinu.“
Kristrún virtist ekki nægilega ánægð með þessi svör og benti á að þegar hefði verið reglugerð árið 2018 sem sett var á 2016. Því hefði verið rammi fyrir reglugerðarbreytinguna. „Og nú erum við í þeirri stöðu að íbúar þessa lands búa í ósamþykktu atvinnuhúsnæði á meðan ferðafólk gistir í íbúðarhúsnæði,“ sagði hún.
Athugasemdir (2)