Ég heiti Viktor Örn Jónsson og við erum hérna fyrir framan Tollhúsið. Þetta er reyndar orðin aðstaða fyrir Grindvíkinga og bæjarskrifstofur Grindavíkur eru hérna, það er nú ekki mikið meira spennandi en það. Ég er dyravörður fyrir Securitas og við erum aðallega að passa upp á manngang hérna í Tollhúsinu, það mega náttúrlega bara Grindvíkingar koma hingað inn. Það er ekkert flóknara en það. Það reynir enginn að ráfa hér inn sem á ekki erindi, bara þeir sem eru að leita að Skattinum. Ég er hér á tólf tíma vöktum. Nei, ég stend ekki fyrir utan allan tímann, mig langaði bara í ferskt loft.
Augnablikið sem breytti farvegi lífs míns var þegar ég hitti kærustuna mína. Hún hefur svolítið mótað mig og breytt mér til góðs. Sambandið okkar verður þriggja ára í janúar svo þetta gerðist fyrir þremur árum. Þetta var góður tími.
Ég hef alltaf verið einmana og hún hefur komið mér út fyrir þægindarammann. Ég hef farið meira út á lífið og hitt vini og félaga og annað. Við erum mjög ólík að eðlisfari. Ég var mjög feiminn á tímabili en ég er alveg búinn að breytast, núna tala ég bara við alla og fer allt, ég er bara í öllu núna.
Það var erfitt að kynnast henni fyrst því ég var svo feiminn, en svo bara breyttist ég. Ég veit ekki nákvæmlega hvað það var en ég breyttist. Ég veit ekki hvernig ég á að útskýra það en þetta er allavega góð breyting. Lífið er öðruvísi þegar maður er ekki jafn feiminn lengur, maður kynnist samfélaginu meira og gerir hluti sem maður þorði ekki áður. Ég veit ekki hvernig er best að orða þetta.
Ég er búinn að kynnast mörgum Grindvíkingum og þetta er indælt fólk og það er gott að vera hérna. Andinn í húsinu er góður og við stöndum saman í þessu og reynum að hjálpast að.
Athugasemdir