Það mun hafa verið í byrjun síðustu aldar að sálkönnuðurinn Sigmund Freud setti fram kenningu sína um gangverk sálarlífsins og gekk út á að leitun eftir unaði væri frumafl mannlífsins, (das Lustprinzip). En gegndarlaust brjálæði heimsstyrjaldarinnar fyrri þegar milljónirnar virtust marséra blindandi og gott ef ekki syngjandi út í opinn dauðann varð til þess að hann tók málið til róttækrar endurskoðunar í þá veru að dýpsta þrá mannsins væri í raun að leysast upp og verða að engu, dauðahvötin (der Todestrieb).
Dauðahvöt í stað lífshvatar.
Þetta kemur í hugann nú þegar mannskepnan virðist vera í þann mund að gefa sig sjálfseyðingarhvötinni endanlega á vald. Ef mannfólkinu væri sjálfrátt hlytu þjóðirnar allar sem ein að leggjast á árar við að koma í veg fyrir yfirvofandi heimshrun af völdum loftslagsbreytinga. En þess í stað geisa styrjaldir eins og enginn sé morgundagurinn – sem er kannski er málið – að undirniðri hafi mannskepnan sæst á endalokin, að dauðahvötin hafi sest undir stýri?
Um þessar mundir eru þjóðarmorð í öllum áttum og ber þar hæst helför Rússa á hendur Úkraínumönnum með stuðningi Kína og þjóðarmorð Ísraela á Palestínumönnum með stuðningi Bandaríkjanna. Hvorutveggja helförin virðist vera í boði Öryggisráðs SÞ, allar tilraunir til að stöðva villimennskuna hafa strandað á neitunarvaldi einhverra af „stórþjóðunum“ fimm sem Öryggisráðið skipa. Sameinuðu þjóðirnar samanstanda eins og kunnugt er af 193 þjóðum, en í raun ráða Rússar, Bandaríkjamenn, Kínverjar, Bretar og Frakkar ferðinni í krafti þess neitunarvalds sem þeir hafa áskilið sér. Núverandi ástand er í raun stjórnleysi algert, hvaða þjóð sem er gæti þess vegna ráðist á hvaða aðra þjóð sem er, Sameinuðu þjóðirnar væru dæmdar til að standa aðgerðalausar hjá.
Helför Gyðinga á hendur Palestínumönnum er nöturlegt dæmi: að þjóðin sem mátti sæta útrýmingu í heimsstyrjöldinni síðari skuli nú leika sama leikinn í Palestínu. Þannig minna hóprefsingar Ísraela á alþýðu Palestínu á fátt meira en aðferðir nasista þegar karlpeningur í heilu þorpi hernumins lands var iðulega látinn gjalda fyrir tilræði gegn þýska setuliðinu. Í Palestínu eru það aðallega konur, gamalmenni og börn sem verða fyrir barðinu – Benjamin Netanjahú er að verða afkastamesti barnamorðingi sögunnar næst á eftir landa sínum Heródesi.
Hvað getum við gert? Við eigum rödd innan SÞ en látum fulltrúa okkar ár eftir ár þylja svo sjálfsagða hluti að stafsetningarforritið í farsímanum okkar gæti sem hægast leyst það af hólmi. Hættum þeim sýndarleik, látum fulltrúa okkar mótmæla neitunarvaldi „úrvalsþjóðanna“, að SÞ verði loks sá lýðræðisvettvangur sem þeim var ætlað að vera í upphafi. Að hver þjóð gildi eitt atkvæði. Neitunarvald hinna útvöldu fimm er uppskrift að lögleysu sem ber í sér það glórulausa ofbeldi sem við nú horfum upp á – og stöndum aðgerðalaus hjá.
Athugasemdir