Í ár er dagur jarðvegs, 5. desember, helgaður jarðvegi og vatni, þó bæði eiga sinn sérstaka alþjóðlega dag. Jarðvegur þann 5. desember og vatnið 22.mars. Hvort er öðru mikilvægara fyrir líf á jörðinni. Mikilvægi þeirra er ótvírætt, gæði vatnsins okkar eru nátengd gæðum jarðvegsins.
Síðastliðnar vikur höfum við fengið áminningar um mikilvægi vatnsins í lífi okkar. Hættustig Almannavarna vegna skemmda á neysluvatnslögn í Vestmannaeyjum, mengun í vatnsveitunni á Borgarfirði eystra, í Bolungarvík og á Þingeyri, rof á þjónustu í Grindavík þar sem dreifikerfi vatns og fráveitu hafa laskast vegna jarðskjálfta. Ef við höfum ekki nóg af vatni eða gæðin eru ekki viðunandi kippir það fótunum undan búsetu okkar.
Moldin er hins vegar ekki jafn áberandi í fjölmiðlum. Ekki nema hún fjúki yfir höfuðborgina. Lífið í jarðveginum er jafn háð vatni og við. Líf á jörðinni er háð dýrmætum tengslum jarðvegs og vatns. Saman búa þau til grunninn fyrir framleiðslu á matnum okkar, vistkerfum og velferð manna. Yfir 95 prósent af matnum okkar eru upprunnin úr þessum tveimur grundvallar auðlindum. Umsvif manna, iðnaður, landbúnaður og eiturefni menga jarðveginn og geta rýrt magn og gæði vatns og þar með gæði jarðvegsins. Auðlindirnar eru undir álagi, staðan á heimsvísu er krítísk, staðan á Íslandi er óljós. Skynsamlegast af öllu er að vernda og nýta jarðveginn á sjálfbæran hátt.
Hvernig standa málin í nýtingunni? Fyrirsagnir þar eru líka alvarlegar, neyðarástand, skuldir að sliga bændur, neyðarkall frá ungum bændum, staða nýliðunar sé grafalvarleg og vandinn stór. Stjórnvöld verði að bregðast við strax, annars blasi við brottfall og fjöldagjaldþrot. Matvælaráðherra segir ljóst að ekki verði við það unað lengur að leysa vanda bænda með skammtímalausnum. Fara verði í rætur vandans og horfa til framtíðar. Reglugerð um sjálfbæra nýtingu er væntanleg. Við þurfum að tengja umsjón auðlinda við gögn um ástand þeirra. Við þurfum að bæta fyrirkomulag sem við erum með núna í stuðningi hins opinbera við landbúnað á Íslandi.
Verndum jarðveg og vatn og samfélög til að eiga sjálfbæra framtíð.
Höfundur er jarðfræðingur hjá Landgræðslunni
Athugasemdir