Nú þegar við Íslendingar drögum fram Betlehemskertin og undirbúum komu jóla fáum við sífellt skuggalegri fréttir frá Landinu helga, Palestínu. Svo skuggalegar að margir eiga erfitt með að hlusta eftir fréttum þaðan og margir eiga erfitt með svefn. Börn eru drepin þúsundum saman og enginn gerir neitt.
Við Íslendingar berum vissulega ríka ábyrgð í þessu máli, við viðurkenndum Palestínu sem sjálfstætt ríki en hvað gerum við svo? Fátt. Sjaldan heyrast raddir frá opinberum aðilum hér á landi um að þetta blóðbað, þessa ómennsku verði að stöðva, hvorki frá ríkisstjórn, né frá Samfylkingu sem studdi sjálfstæðið. Ekki frá öðrum stjórnmálaflokkum sem telja sig þó vilja vernda hina smáu, ekki frá íslensku kirkjunni sem nú ætlar að fagna jólum án þess að minnast á barnamorðin, ekki frá íslenskum stéttar- eða verkalýðsfélögum eða öðrum félagasamtökum sem setja þó mennskuna á oddinn. Þeir einu sem tjá sig eru félagasamtök sem styðja frelsi Palestínu, þau eru raunar býsna fjölmenn sem sjá má í mótmælum, en valdalaus og þar ættu valdamennirnir að hlusta og stíga inn.
Barnamorð eru ekki alveg ný staðreynd í sögunni. Margir hafa ugglaust lesið Biblíuna svo vel að þeir þekkja söguna um barnamorðin í Betlehem, þar sem Heródes gyðingakonungur fyrirskipaði morð allra sveinbarna af ótta við spádóma og fregnir af fæðingu nýs gyðingakonungs í Galíleu. Kirkjumenn leiðrétta ef hér er farið með rangt mál. Fyrir stuttu var sýnd kvikmynd í danska sjónvarpinu um Ravensbrück en þar var ein af fjölmörgum útrýmingarbúðum ríkiskanslara Þýskalands nasismans. Þar var samkvæmt þeirri heimild sérstaklega lögð áhersla á að drepa konur og ungabörn, helst nýfædd. Íslendingi dagsins í dag gæti dottið í hug að með helförinni lyki öllum barnamorðum sögunnar. Nei, myndir frá Al-Shifa sjúkrahúsi á Gasa segja aðra sögu. Enn er verið að myrða saklaus börn, af ásetningi og án tilefnis. Hvað hefur nýfætt barnið gert af sér? Þarna gildir reglan: Skjótið fyrst, spyrjið svo. Og hverju getur barnið svarað hvort sem það er ómálga eða komið á legg? Engu.
Svo er það Vesturbakkinn, þar sem dánartölur hækka dag frá degi og þar verða börn fyrir byssukjöftum hermanna og landránsmanna rétt eins og aðrir. Enginn kannski trúir nema hafa séð, hvernig utanaðkomandi gyðingar, víða frá í heiminum, þrengja sér inná svæði palestínskra bænda, búa um sig, heimta meira land, meira rými og nú eru þeir vígvæddir samkvæmt áreiðanlegum heimildum greinarhöfundar. Og múrar eru reistir en verða ef til vill þýðingarlausir þegar íbúum hefur verið útrýmt eða þeir reknir á flótta. Þetta heitir á mannamáli þjóðarmorð og sagan mun dæma.
Fyrir tvö þúsund árum kom fram á sjónarsviðið í Palestínu maður nokkur sem við vissulega munum enn í dag, fæddur í Betlehem segir sagan, Kristur eða Messías, sumir nefna hann Jesús. Hafi ég ekki misskilið, vildu gyðingar ekki viðurkenna að þarna væri kominn sá sem spáð hafi verið fyrir um, maður sem bæri með sér mannkærleika og endurlausn mannkyns. „Leyfið börnunum að koma til mín“ sagði hann, „og bannið þeim það ekki“ og ef hann vissi hvað fram fer núna þar eystra, bætti hann eflaust við: „og myrðið þau ekki“.
Ráðamenn Íslands er ekki kominn tími til að taka undir þetta og standa við stóru orðin gagnvart palestínsku þjóðinni?
Athugasemdir (1)