Íslendingar stæra sig oft af því að búa við „norrænt velferðarríki“. Hvað hin Norðurlöndin varðar er þetta gæðamerki en eins og sýnt var í Kjarafréttum Eflingar frá síðasta ári þá nær íslenska velferðarríkið ekki máli sem norrænt velferðarríki í nokkrum veigamiklum málaflokkum (sjá „Íslenska velferðarríkið nær ekki máli“).
Í þessari grein mun ég sýna hvernig sá hluti velferðarkerfisins sem styður við framfærslu heimila vinnandi fólks hefur skroppið saman á síðustu áratugum. Hér er átt við þann stuðning sem heimilin hafa af barnabótum, vaxtabótum vegna íbúðarkaupa og leigubótum til leigjenda, oft kallað tilfærslukerfi heimilanna. Verkalýðshreyfingin fer nú fram á að þessi kerfi verði endurreist.
Hér verða birtar þrjár myndir sem sýna hvernig útgjöld hins opinbera til þessara málaflokka samanlagðra hafa stórlækkað og eru nú í sögulegri lægð. Seinni tvær myndirnar sýna hvernig þær upphæðir sem fjölskyldur hafa fengið úr þessum tilfærslukerfum hafa lækkað að raunvirði.
Fyrsta myndin sýnir samanlögð útgjöld til barnabóta og húsnæðisstuðnings hafa þróast sem hlutfall af landsframleiðslu frá 1988 til nútímans og hvernig þau munu verða á næsta ári skv. fjárlagafrumvarpi stjórnvalda.
Samanlögð útgjöldin eru nú einungis um þriðjungur af því sem var á tímabilinu 1990 til 1995, fóru úr um 1,8% af landsframleiðslu niður í um 0,6%. Þetta eru miklar breytingar sem eru mikil rýrnun á mikilvægum þætti kjara vinnandi fólks. Þessi afturför skýrir m.a. hvers vegna vaxandi fjöldi fullvinnandi fólks glímir nú við erfiðleika við að ná endum saman í kjölfar mikilla hækkana á húsnæðiskostnaði og matvælum.
Vaxtabótakerfið hefur dregist langmest saman og hefur það komið sérstaklega illa við heimili sem glíma við að eignast íbúðarhúsnæði, eftir miklar vaxtahækkanir seðlabankans og einstaklega miklar hækkanir á íbúðaverði á síðustu árum. Barnabætur hafa einnig rýrnað að raungildi og eru útgjöld vegna þeirra nú í sögulegri lægð, en leigubætur hafa betur haldið raunvirði sínu. Þær voru hins vegar of lágar í upphafi og hafa ekki fylgt hækkun leiguverðs á síðasta áratug.
Sú staðreynd að leiga tekur að jafnaði um 45% af ráðstöfunartekjum leigjenda, þegar markmið stjórnvalda og ESB er að leiga fari ekki yfir 25%, segir allt sem segja þarf um of lágar leigubætur, miðað við ríkjandi markaðsleigu.
Hvað hefur tapast?
En skoðum næst hversu mikið meðalfjölskylda vinnandi fólks með 1-2 börn og fasteign hefur fengið greitt úr velferðarkerfinu á núvirði á síðustu þremur áratugum, frá árinu 1991 til 2021.
Hér má sjá að meðalfjölskyldan hefur tapað um 40 þús. krónum á mánuði í stuðning af barnabótum og vaxtabótum samanlögðum frá 1994 til 2021 – á verðlagi nútímans, upphæðin fór úr um 60 þús. krónum niður fyrir 20 þúsund á mánuði árið 2021.
Með tilkomu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar 1995 lækkuðu bætur þessar verulega og áfram til 2005. Þessi stuðningur var síðan stóraukinn eftir hrun (einkum með mikilli hækkun vaxtabóta) en síðan voru vaxtabæturnar stórlækkaðar aftur og eru nú flestum horfnar. Almennt var þessi stuðningur mestur þegar Jóhanna Sigurðardóttir stýrði þessum málaflokki í ríkisstjórnum (1991-1994 og 2007-2012).
Minnkandi stuðningur í öllum tekjuhópum
Á mynd 3 má sjá hvað hefur tapast í ólíkum tekjuhópum. Það er sýnt fyrir fjóra hópa: lágtekjuhóp (tekjutíundir 1 til 3); lægri millitekjuhóp (tekjutíundir 4 og 5), hærri millitekjuhóp (tíundir 6 og 7; og hátekjuhóp (tíundir 8 til 10). Sýnt er hversu mikið hjón með 1-2 börn og fasteign fengu í þennan stuðning árið 1991 og svo aftur 2021 – á verðlagi nútímans.
Heimili í öllum tekjuhópum hafa tapað umtalsverðum fjárhæðum frá tilfærslukerfum heimilanna á tímabilinu. Fólk í lægsta tekjuhópnum tapaði um 40.000 krónum á mánuði á núvirði. Þau sem voru í lægri millitekjuhópnum (allt fólk með tekjur vel undir meðaltekjum) töpuðu um 50.000 krónum og hærri millitekjuhópurinn tapaði um 57.000 krónum, en þau allra tekjuhæstu töpuðu um 26.000 krónum og fá ekkert í dag.
Núverandi stjórnvöld tala oft um að þau séu að færa stuðninginn frá þeim tekjuhærri til þeirra tekjulægstu. En þau tekjulægstu og fólk almennt sem er með í kringum meðaltekjur hefur í reynd tapað verulegum upphæðum, einmitt þegar húsnæðiskostnaður hefur hækkað upp úr öllu valdi og þörf fyrir slíkan stuðning hefur sjaldan eða aldrei verið meiri hjá tekjulægri helmingi þjóðarinnar.
Stuðningur við hjón á leigumarkaði hefur einnig rýrnað verulega en stuðningur við einstæða foreldra á leigumarkaði hefur haldist betur að raungildi, enda hafa leigubætur betur haldið verðgildi sínu en aðrar bætur.
„Í útfærðum tillögum ASÍ er gert ráð fyrir fullri fjármögnun slíks framlags ríkisins með tilgreindum lagfæringum á skattkerfinu, sem einkum legðust á fjármagnstekjur, miklar eignir, ferðaþjónustu og auðlindanotkun“
Samt hafa húsaleigubæturnar ekki verið nógu öflugar til að vega á móti miklum hækkunum leiguverðs á síðasta áratug, enda þarf meðalleigjandi nú að verja um 45% af ráðstöfunartekjum sínum í leigu þegar markmið íslenskra stjórnvalda og ESB almennt er að slíkur kostnaður fari ekki upp fyrir 25% af ráðstöfunartekjum. Það er því líka of lítill stuðningur af leigubótunum.
Fleiri þætti velferðarkerfisins má nefna sem hafa verið í afturför, eins og heilbrigðisþjónustan og lífeyrismál almannatrygginga, en það bíður seinni skrifa.
Endurreisa þarf tilfærslukerfi heimila vinnandi fólks
Þessi afleita þróun sem orðið hefur á síðustu 30 árum er ein helsta skýringin á því að erfitt er nú fyrir fullvinnandi fólk á lægri tekjum að ná endum saman.
Óhófleg hækkun íbúðaverðs, vaxta og leigu á síðasta áratug, ein sú allramesta í Evrópu, og mikil hækkun matvælaverðs í verðbólgu síðustu tveggja ára hefur magnað upp fjárhagsvanda heimila þeirra tekjulægri, ungs fjölskyldufólks og innflytjenda, enda er vernd velferðarkerfisins hér alltof lítil.
Rétt er að hafa í huga að barnabætur og húsnæðisstuðningur eru ekki styrkir heldur tilfærslur til fjölskyldna á fyrri árum starfsferils þegar fólk er að koma börnum á legg og afla sér íbúðarhúsnæðis. Þessi stuðningur greiðist svo til baka á seinni hluta starfsferils þegar afkoman hefur batnað, eftir að börnin hafa flogið úr hreiðrinu, í lítillega hærri sköttum.
Þessi stuðningskerfi eru einnig mikilvæg sem „sveiflujafnari fyrir afkomu heimilanna“. Þau taka af stærstu höggin á tekjulægri helming þjóðarinnar þegar kreppur ganga yfir. Veikleiki þessara kerfa á Íslandi skýrir hvers vegna afkomusveiflur heimila eru mun meiri hér á landi en á hinum Norðurlöndunum (sbr. greinin „Leiftursókn gegn lífskjörum láglaunafólks“).
Sú þróun sem hér hefur verið lýst var mikil afturför í sögu íslenska velferðarríkisins og hefur nú komið almennu launafólki afar illa þegar kostnaður nauðsynja (húsnæðis og matvöru) hefur farið upp úr öllu valdi.
Efnahags- og skattanefnd ASÍ hefur nú mótað kröfu á ríkisvaldið í tengslum við komandi kjarasamninga um að þessi stuðningur við heimilin verði endurreistur. Það sem af heimilunum var tekið verði fært til baka á myndarlegan hátt, einkum á lægri og milli tekjuhópa. Til að ná því marki þarf að setja strax um 25 milljarða aukalega á ári inn í þessi þrjú kerfi.
Gegn þessu gæti verkalýðshreyfingin sætt sig við hóflegri launahækkanir á fyrsta ári þriggja ára kjarasamnings í anda Lífskjarasamningsins 2019, sem myndi auðvelda lækkun verðbólgunnar á næsta ári.
Ríkisstjórnin lagði fram stuðning við Lífskjarasamninginn 2019 sem hún mat að væri rúmlega 80 milljarða virði á samningstímanum (m.a. skattalækkanir á tekjulægri hópa), eða um 25 -30 milljarðar á ári á núvirði. Nú er tímabært að endurtaka sambærilegt framlag, sem mun í senn verja tekjulægri heimili og stuðla að lækkun verðbólgunnar.
Í útfærðum tillögum ASÍ er gert ráð fyrir fullri fjármögnun slíks framlags ríkisins með tilgreindum lagfæringum á skattkerfinu, sem einkum legðust á fjármagnstekjur, miklar eignir, ferðaþjónustu og auðlindanotkun, sem myndi þó einungis færa skattbyrði hærri tekna og mikilla eigna í átt að því sem tíðkast í grannríkjunum á Norðurlöndum.
Athugasemdir (1)