„Edda Björk var snúin niður á Hólmsheiði,“ segir Elísabet Sæmundsdóttir, vinkona Eddu Bjarkar Arnardóttur sem var skömmu eftir hádegi flutt með valdi úr klefa sínum í fangelsinu á Hólmsheiði.
Útlit er fyrir að flytja eigi hana til Noregs síðdegis vegna forræðisdeilu sem hún á í við barnsföður sinn sem er búsettur þar í landi.
„Mér finnst þetta dapurlegt,“ segir lögmaður Eddu, Jóhannes Karl Sveinsson.
Samkvæmt upplýsingum Heimildarinnar komu lögreglumennirnir fyrirvaralaust í fangelsið í kringum hádegi og var fangavörðum bannað að láta verjendur eða aðra vita. Samfangar Eddu komust í síma og létu vita af aðförunum. Þá er einnig útlit fyrir að lyf Eddu og sjúkraskýrsla hafi ekki verið tekin með.
Elísabet segir ástandið súrrealískt.
„Maður bara treysti því að íslenskt dómskerfi myndi ekki fara svona með íslenskan ríkisborgara. Maður er bara orðlaus,“ segir Elísabet. „Hún Edda er einstök og við vitum að hún stendur þetta af sér. Hún er með gott bakland og allt það en þetta er með ólíkindum - að þetta skuli látið viðgangast.“
Landsréttur hefur ekki úrskurðað um gæsluvarðhaldið
Edda var fyrst flutt í gæsluvarðhald síðastliðinn þriðjudag vegna komandi réttarhalda í Noregi. Dagsetningin á þeim réttarhöldum hefur ekki verið opinberuð.
„Tilgangur gæsluvarðhaldsins er að hún sé til taks þegar norsk yfirvöld koma og vilja fá hana afhenta,“ segir Jóhannes. „Hún mótmælti því að hún yrði sett í gæsluvarðhald og sagði að það væri allt of þungbært úrræði, sérstaklega í ljósi þess að það er ekki búið að ákveða dagsetningu þessara réttarhalda sem á að tryggja viðveru hennar við úti í Noregi.“
Gæsluvarðhaldsúrskurðurinn var kærður til Landsréttar síðastliðið þriðjudagskvöld en hann hefur ekki enn úrskurðað í málinu.
„Hvaða viðbjóður er hér í gangi?“
Í nótt ætlaði lögreglan að færa Eddu úr landi en um 40 manns hópuðust fyrir utan fangelsið á Hólmsheiði og mótmæltu aðgerðinni.
Ragnheiður Arnardóttir, systir Eddu, heimsótti Eddu í fangelsið í morgun. Í færslu á Facebook segir Ragnheiður að fulltrúar ríkislögreglustjóra hafi mætt á staðinn um leið og hún yfirgaf svæðið. „Hvaða viðbjóður er hér í gangi?“ spyr Ragnheiður í færslu sem má sjá hér að neðan.
Fréttin hefur verið uppfærð
Athugasemdir (2)