Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra segir að vinna við frumvarp sitt um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu sé ekki ætlað að skapa sátt á milli ríkisins og einstakra útgerðarmanna. Frumvarpið var birt í samráðsgátt stjórnvalda í síðustu viku og byggir á vinnu starfshópa sem ráðuneytið skipaði í upphafi árs. Forsvarsfólk Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi hafa þegar gagnrýnt þær breytingar sem lagðar eru til. Svandís ræddi þetta, og margt fleira, í viðtali í sjónvarpsþættinum Pressu. Fyrsti þátturinn var sendur er út í hádeginu í dag en Pressa er á dagskrá alla föstudaga.
„Eins og hún er, og við lögðum hana upp, er hún ekki hugsuð til að skapa sátt við einstaka útgerðarmenn, hún er ekki hugsuð þannig. Ef við ætluðum að gera það hefðum við bara lokað okkur af inni í herbergi, á skrifstofu inni í ráðuneytinu, verið með nokkra lögfræðinga og haldið síðan fundi með hagsmunaaðilum, skrifað frumvarp sem væri þeim hagfellt og tryggt pólitískan meirihluta fyrir þeirri áherslu gagnvart þinginu. Það eru, að mínu mati, vinnubrögð gamals tíma. Ég geri ráð fyrir því að fleiri séu sammála mér hvað varðar vinnubrögðin og við skulum láta á það reyna,“ sagði Svandís meðal annars.
„Ég held það liggi bara fyrir að þeir eru mjög áhrifamiklir“
„Þetta skiptir máli; að koma gagnsæinu upp á yfirborðið, bæði út af því hversu mikilvægt er að stjórnunar- og eignatengsl í sjávarútvegi séu sýnileg en líka vegna þess, sem þú ert að benda á, að stjórnunar- og eignatengsl í samfélaginu í heild þurfa að vera sýnilegri heldur en þau eru. Því það er hluti af því að skapa heilbrigt samfélag, að þessi hagsmunatengsl séu sýnileg og liggi uppi á borðinu fyrir alla.“
- En hver er þín afstaða til þessa, hversu áhrifamiklir útgerðarmenn eru orðnir í samfélaginu þvert á atvinnugreinar?
„Ég held að ég þurfi ekki að tjá mig sérstaklega um það. Ég held það liggi bara fyrir að þeir eru mjög áhrifamiklir, sumir hverjir, og ég tel það alltaf mikilvægt fyrir samfélag að slík samskipti og slík tengsl séu sýnileg og þau séu gagnsæ og að því er unnið, meðal annars, í þessu frumvarpi, þessum drögum,“ svarar Svandís. „Ég held að það sé heilbrigðara fyrir samfélagið að það sé betur búið um lýðræði og lýðræðisleg áhrif almennings.“
Viðtalið var birt í þættinum Pressu sem sendur var út í hádeginu og má nálgast í heild sinni hér.
þjóðareigninnii og enginn segir neitt .