„Þú skalt hafa það í huga að það gæti orðið skrýtinn áfangi að verða eldri en mamma þín þegar hún dó,“ sagði krabbameinslæknirinn minn þegar ég hitti hann í reglubundnu eftirliti. Hann var líka læknirinn hennar en hann vissi það strax þegar hann hitti hana fyrst, þá 38 ára gamla, að hún ætti engan séns á að verða gömul kona. 40 ára og 40 daga var talan sem hún kvaddi mig með þegar hjartslátturinn hennar sló flatan tón. Síðasta tóninn sem ég heyrði frá henni.
Mér fannst þetta fallegt innsæi hjá manni sem vinnur við að elta dauðann uppi inni í frumum manneskjunnar og gefa okkur meiri tíma, ef við viljum. Krabbameinslæknirinn ætti líka að vera kallaður tímalæknirinn, greining, meðferð, eftirfylgni – gefa fólki viðbót við tímann sem var að renna út, ef það vill. Hann hafði séð þetta ótal mörgum sinnum, þessa sorg sem fylgdi því að taka fram úr foreldrum sínum í aldri.
„40 ára og 40 daga var talan sem hún kvaddi mig með þegar hjartslátturinn hennar sló flatan tón. Síðasta tóninn sem ég heyrði frá henni.“
Það eru bara nokkrir dagar í þennan áfanga og þó ég óttist dauðann ekki flesta daga, þá finnst mér suma daga erfitt að sjá fyrir mér framtíðina. Ómeðvitað hef ég haldið niðri í mér andanum gagnvart því að lifa, af því hver er ég svo sem að halda að ég verði eldri en mamma mín, segir partur af mér. Eftir nokkra daga, ef ég verð svo lánsöm að verða eldri en 40 ára og 40 daga, get ég hætt að lifa lífinu deyjandi, segir annar partur af mér.
Og þegar við ræddum framtíðina í gönguferð, ég og besta vinkona mín, sem hefur líka greinst með krabbamein, rann upp fyrir mér staðreynd. Ég spurði hana: „Hvað ætlarðu að gera ef þú greinist EKKI aftur með krabbamein?“
Við þögnuðum báðar og gengum restina af leiðinni í þögninni. Þegar á leiðarenda var komið sammæltumst við um að vera hugrakkar, og taka á móti góðu dögunum. Til þess þarf ég ekkert að aðhafast, engu að breyta, engin átök. Bara vera forvitin. Það er kannski það sem er átt við þegar fólk segist ætla að lifa lífinu lifandi?
Athugasemdir