Orðatiltækið „Að hugsa með klofinu“ er áhugavert. Það var lengi vel eignað karlmönnum sem þóttu vonlausir þegar kom að því að standa vörð um kristilegt siðgæði sitt í tengslum við kynlíf. Orðatiltæki þetta var venjulega sagt með fyrirlitningu af eldri konum sem ofbauð kynferðisleg og víðförul viðkoma karlmanna. Það þóttu vera glaumgosar sem hugsuðu með klofinu og þóttu ekki vænlegir til viðveru ef til undaneldis kæmi.
Á þessum tímapunkti í lífi mínu finn ég mig hins vegar knúna til að hugsa út frá klofinu, en þó ekki líkt og glaumgosi. Ég er á forstigum svokallaðs breytingaskeiðs og er nú tilneydd til að hugsa allt út frá hnignandi hormónabúskap mínum sem á uppruna sinn í klofinu. Þessar hugleiðingar mínar um klof kvenna sendu mig á stað í rannsóknarleiðangur sem er hvergi nærri lokið.
Drullan sem lak fyrir bakkann
Það var ekki búið að vera burðugt ástandið á mér undanfarið árið. Ég var umframkomin af þreytu og með hamlandi kvíða. Ég þjáðist af gloppóttu svefnmynstri og dagsorkan var í samræmi við það. Ég var orðin skugginn af sjálfri mér og gleðisnauð. Ég var eins og drullan sem lak fyrir bakkann. Ég var handviss um að ég væri á leið í kulnun og ákvað að fara á heilsugæsluna til að fá staðfestingu á greiningu minni. Á grámyglulegum degi hitti ég þar fyrir geðþekkan hjúkrunarfræðing og hóf að ræða ástandið á mér. Ég taldi upp einkennin sem hjúkrunarfræðingurinn pikkaði inn á tölvuna með það sem mér þótti vera undarlega heillandi klínískur kuldi og fagleg fjarlægð. Það var ákveðin gjá á milli okkar.
Hegðun hennar var í samræmi við samfélag og kerfi þar sem ofuráhersla á skýra og afmarkaða hlutverkaskipan virðist koma niður á samkenndarmiðaðri nálgun. Þetta var ljóshærð hnellin kona, um 15 árum eldri en ég. Hún virtist sitja vel í sjálfri sér þótt vélræn væri í háttum. Á meðan hún pikkaði inn einkenni vanlíðanar minnar, andvarpaði ég þreytulega. Ég hallaði mér aftur í stólnum og sárvorkenndi sálartetrinu mínu. „Gleðin hefur yfirgefið mig,“ hugsaði ég óþarflega dramatísk og sá fyrir mér einmana framtíð og bitur skrif. En allt í einu og upp úr þurru var eins og það væri kveikt á ljósaperu. „Heyrðu!“ – sagði ég og varð á örskotsstund hnakkareist í baki. „Getur verið að ég sé að byrja á breytingaskeiðinu?“ sagði ég með galopin augun eins og ugla. Hjúkrunarfræðingurinn hætti að pikka, lagði hendur sínar á skrifborðshornið sem ég sat við, togaði sig nær mér, hallaði sér bratt, brosti samkenndarlega og sagði, „já, elskan, það gæti verið“.
Allt hennar svipbragð og öll hennar líkamstjáning breyttist. Á einu sekúndubroti breyttist hún í mömmu mína, ömmu, bestu vinkonu og systur. Samstaðan var áþreifanleg og gjáin hvarf. Hún sneri tölvuskjánum að mér og listaði þar allt sem hefði hjálpað henni þegar hún gekk minn veg. Við urðum að liðsfélögum. Ég tók óð niður glósur, athugasemdir, tillögur að bætiefnum og nöfnum réttu læknanna. Hún sagði mér að skilningur fyrir heilsu kvenna á þessu skeiði sárlega vantaði í íslenskt heilbrigðiskerfi. Hún benti mér á einkastofu sem nýverið hefði verið stofnuð til að mæta þessari þörf með skilningi og heildrænni nálgun. Ég pantaði mér tíma þar um leið og ég labbaði vongóð út frá þessari nýju systur minni.
Vonin
Þau voru ekki aðlaðandi einkennin sem einkastofan taldi upp sem algeng í kjölfarið af hnignandi hormónabúskap kvenna. Hjartsláttarónot og yfirspenna. Svefnvandamál, minnisleysi, kvíðaköst, einbeitingarerfiðleikar, þreyta, orku- og áhugaleysi. Depurð, grátgirni, pirringur og svimi. Höfuðverkur, eyrnasuð, vöðvaverkir, liðverkir og náladofi. Andþyngsli, hitakóf, nætursviti, minnkuð kynhvöt, óþægindi við þvaglát og leggangaþurrkur. Ég tengdi við flest. „Frábært!” hugsaði ég og ranghvolfdi augunum. Ekki batnaði síðan tilfinningin gagnvart hrörlegu ástandi mínu þegar ég las ummæli nokkur við nýútgefna grein mína þar sem gamall kall sagði mig bæði of feita og of gamla fyrir sig. Grein þessi var ekki um mig heldur um menn sem meiða. Lífið er léttara þegar fíflin sjá um sig sjálf. Hann virtist trúa því staðfastlega að hann gæti lagt lag sitt við mig ef hann kærði sig um. Ég andvarpaði þreytulega og minnti mig á að ekkert er jafn sálfræðilega merkilegt og stórkostlegt sjálfsmat sjúklegrar sjálfhverfu og ranghugmyndir risaeðlunnar. Fjöldreifð fitusöfnun er smekksatriði en of gömul!, þar fannst mér að mér vegið. Dæmd úr leik rúmlega fertug og það af gömlum kalli sem leit út eins og yfirgefinn endaþarmur í framan. Ég setti í brýrnar og gaf ummælunum eitt gott „fnuss“ eins og sannri úreltri konu sæmir og settist svo aftur við rokkinn minn og hóf akfeit og önug að spinna, á meðan ég gluggaði í handritin – eða þannig.
„Ég sé það hins vegar skýrt í dag að konur af kynslóð skammarinnar bera það með sér að þær eru þrautseigari en andskotinn.“
Eftir að ég losaði mig við úldnu fýlu ummælanna fór ég á fund ættmæðra minna og leitaði ráða. Þar var fátt um upplífgandi svör. Þær könnuðust allar við líkamlega og andlega vanlíðan í aðdraganda tíðahvarfa. Ættmæður mínar tilheyrðu hins vegar öðrum tíma og á þeim tíma var ekki staldrað mikið við tilfinningaleg innlit í eigin garð. Þær höfðu einfaldlega ekki tíma til þess og tíðarandinn hvatti heldur ekki til þess. Ég fékk samviskubit þegar ég hlustaði á þær og hugsaði um allan þann tíma og allt það rými sem tilfinningar mínar taka í dag og gera sjálfsagt tilkall til. Það virtist hafa verið mikil skömm yfir þessum breytingum kvenna á þeirra tíma. Konur urðu erfiðar og leiðinlegar og það var bara þeirra böl. Ég sé það hins vegar skýrt í dag að konur af kynslóð skammarinnar bera það með sér að þær eru þrautseigari en andskotinn.
Í sögulegu samhengi samtímans fór ég hins vegar að hugsa aftur til gamla endaþarmsins og hvort einkenni breytingaskeiðsins hafi alltaf verið notuð til að gjaldfella konur. Þær urðu úreltar og verðlausar. Óáhugaverðar og leiðinlegar. Hættu að vera tilkippilegar og fjörugar og gáfu kynlíf upp á bátinn. Klipptu sig stutt, hættu að hafa sig til og fóru í leggings og ljóta flíspeysu. Hún er ekki lengur kona, hún er kind, og merkt Olís. Grámygluleg kindin er mætt og verður jarmandi í mónótónískri síbylju til dauðadags. Þvílík endemis vitleysa! Líffræðileg hringrás konunnar er loksins að fá rými í samfélagslegri umræðu og fá heildræna meðferð við hæfi.
Upprisa drullunnar
„Þú ert allt of lág í estrógeni! Við viljum hafa okkar konur í kringum 200,“ sagði læknirinn á einkastofunni þegar hún skoðaði blóðprufurnar mínar. „Ha! já?“ sagði ég, engu nær. Ég var komin inn á ókunnugt, framandi og spennandi svæði. Hérna var líðan mín ekki dæmd sem kéllingavæl, kvennaböl eða klofvesen. Hérna voru engar kindur og ég var ekki á leið í réttir. Hérna var verið að skoða niðurstöður rannsókna og láta hlutleysi vísindanna leiða sig áfram í leit að réttri meðferð til að auka lífsgæði mín. Klínískar leiðbeiningar og gagnreyndar aðferðir. Hér kunni ég vel við mig. Ég fékk ítarlega fræðslu um hvað gerist þegar hormónatap á sér stað hjá konum. Ég veit núna ýmislegt um hormónin estrógen, prógesterón og testósterón og að konur geta byrjað að upplifa einkenni fyrir fertugt.
„Orkan til að klára vinnudaginn er komin aftur og meira að segja er stundum það mikið aukreitis að ég get farið á æfingu og tekið vel á. Kvíðinn hvarf að mestu og viðhorf mitt til lífsins stórbatnaði. Tilhlökkunin kom aftur.“
Ég veit líka núna að estrógen hefur áhrif á heilann. Það hefur áhrif á vinnsluminnið, samtímaminnið, úrvinnslu upplýsinga, athygli og kvíðastjórnun, tilfinningar, hitastjórnun líkamans og svefn. Það hefur einnig áhrif á orku, jafnvægi, matarlyst, minnið og hæfnina til að læra nýja hluti. Estrógen í ólagi skerðir hæfni heilans. Læknirinn kynnti mig fyrir hormónauppbótarmeðferð og ég sló til. Þremur mánuðum síðar er líðan mín allt önnur. Orkan til að klára vinnudaginn er komin aftur og meira að segja er stundum það mikið aukreitis að ég get farið á æfingu og tekið vel á. Kvíðinn hvarf að mestu og viðhorf mitt til lífsins stórbatnaði. Tilhlökkunin kom aftur. Ekkert er orðið fullkomið enda tel ég að ekkert eigi að vera það. Það er kominn kunnuglegur stöðugleiki í óstöðugleikann. Þannig á það að vera. Ég get ekki skýrt það betur. Ég kvíði því ekki lengur að eldast sem kona.
Athugasemdir (2)