Lögmaðurinn Helgi Þorsteinsson Silva segir málflutning dómsmálaráðherra um atburðarásina í Venesúela eftir að hælisleitendur voru sendir þangað frá Íslandi villandi. Ráðherrann, Guðrún Hafsteinsdóttir, ræddi málið við mbl.is í dag en upplýsingafulltrúi ráðuneytisins hefur neitað viðtalsbeiðni Heimildarinnar.
Í viðtalinu segir Guðrún að hópurinn sé nú frjáls ferða sinna og að allir séu komnir með vegabréfin sín. Heimildin hefur rætt við einn einstakling úr hópnum sem var sleppt í gær.
„Þeir sem hafa fengið tvöfalda neitun, hjá Útlendingastofnun og kærunefnd, það er eiginlega alveg borðleggjandi að ríkinu verður stefnt til ógildingar á þeim úrskurðum“
Helgi dregur það ekki sérstaklega í efa að fólkið hafi verið leyst úr haldi en saknar þess að Guðrún sé látin svara fyrir önnur brot á réttindum fólksins sem það hefur sagt frá.
„Þessi frásögn dómsmálaráðherra er afar villandi því hún tekur ekki á alvarlegustu ásökununum sem hafa komið fram frá tugum fólks við lögmenn sína, ekki bara mig. Þær eru þær að tekið hafi verið af þeim fé og þau látin fylla út ýmis skjöl – þar á meðal að þau hafi framið föðurlandssvik sem er refsivert brot. Hún nefnir það ekki í einu orði,“ segir Helgi.
„Það eru pólitískar ofsóknir“
Málflutningur ráðherrans sé því ekki lýsandi fyrir ástandið.
Hvað lýsir þá ástandinu?
„Það að vopnaðar sveitir hafa tekið fjölmörg viðtöl – sem eru frekar eins og yfirheyrslur – af öllum, merkja þau og mynda í bak og fyrir. Einhverjar frásagnir eru um að það hafi verið haft af þeim fé, mjög líklegt að þeir sem halda því enn þá muni ekki halda því mikið lengur og þetta að þau hafi verið látin skrifa undir fjölda skjala án þess að fá að kynna sér efni þeirra. Þau sem hafi þó náð að kynna sér það lauslega hafi séð að þau hafi skrifað undir að þau hafi framið föðurlandssvik. Það lýsir ástandinu. Það eru pólitískar ofsóknir,“ segir Helgi.
Hann ætlar núna að senda inn viðbótarrökstuðning – byggðan á aðgerðum venesúelskra stjórnvalda gagnvart fólkinu sem flaug til Venesúela frá Íslandi á miðvikudag – fyrir mál fólks sem er enn hér á landi og er í umsóknarferli um alþjóðlega vernd eða hefur fengið neitun.
„Maður gerir ráð fyrir því að margir þeirra gætu í kjölfarið fengið alþjóðlega vernd,“ segir Helgi. „Þeir sem hafa fengið tvöfalda neitun, hjá Útlendingastofnun og kærunefnd, það er eiginlega alveg borðleggjandi að ríkinu verður stefnt til ógildingar á þeim úrskurðum.“
Með vernd á Íslandi en staðsett í Venesúela
Hvað hópinn sem farinn er úr landi varðar segir Helgi að fyrir þau sem drógu umsóknina sína til baka og þáðu far til Venesúela og styrk frá íslenskum stjórnvöldum sé lítið hægt að gera.
En hvað með fólkið sem fór út og hafði fengið tvöfalda neitun?
„Þeir eru enn með umboð hjá íslenskum lögmanni og fyrir þá mun ég fara í dómsmál þó að þeir séu komnir til Venesúela. Ef það fer þannig eins og ég held að það fari og úrskurðurinn verður ógildur – þá stöndum við frammi fyrir því að þeir eru með vernd á Íslandi en séu í Venesúela.“
Athugasemdir (4)