Erlendir fréttamiðlar hafa fjallað af miklum ákafa um þær jarðhræringar sem eiga sér stað í og við Grindavík um þessar mundir.
Efst á vefsíðu breska miðilsins DailyMail er að finna frétt með fyrirsögninni: „Ísland bíður „á brúninni“ og óttast að hrauná geti skollið á orkuveri eftir að risastórar sprungur opnast um bæinn, þúsundir eru flutt á brott og hundruð jarðskjálftar dynja yfir með vanheilögum hljóðum frá jörðinni.“
Með fréttinni birtist myndband af einni af stærstu sprungunum í Grindavík ásamt myndum og umfjöllun um atburði síðustu daga. Þar er vitnað í Matthew James Roberts, framkvæmdastjóri þjónustu- og rannsóknarsviðs Veðurstofu Íslands. „Það ríkir mikil óvissa núna. Verður eldgos og ef það verður, hver verður skaðinn?“
Áhrif mögulegs goss
Aðrir miðlar sem hafa fjallað um mögulegt eldgos eru meðal annarra Sky News, Financial Times, Bloomberg, NRK, BBC, CBC, veðurfréttastofa FOX, Reauters, The Independent, The Guardian og bandaríski morgunþátturinn TODAY á sjónvarpsstöðinni NBC.
Fréttaritari Breska ríkisútvarpsins BBC, Jess Parker, er stödd á Íslandi um þessar mundir til að fylgjast með framvindu mála. Í beinni útsendingu fyrr í dag útskýrði Parker fyrir áhorfendum og hlustendum að þúsundir jarðskjálfta hefðu fundist á Reykjanesinu síðustu vikur. „Mesti óttinn núna ríkir um bæinn Grindavík sem búið er að rýma. Það hefur enginn leyfi til þess að vera þar að svo stöddu.“
Bretar veltu fyrir sér áhrifum mögulegs goss en Eyjafjallajökull er enn í minnum margra enda hafði það gos áhrif á flugumferð um alla Evrópu. „Ég held núna, miðað við það sem mér hefur verið sagt í samræðum við eldfjallafræðinga, að það sé ekki búist við röskun á flugum þegar gosið verður vegna kvikunnar og fyrirhugaðrar staðsetningar gossins.“
Sum myndböndin sem birst hafa á erlendum miðlum eru með tugi þúsunda áhorfa. Fréttamiðillinn Al Jazeera fylgdist með flugmanninum Einari Dagbjartssyni, íbúa Grindavíkur, á meðan hann fékk fimm mínútur til þess að ná í eigur sínar í heimahúsi sínu. Þegar hafa yfir 12 þúsund manns horft á fréttina en hún birtist fyrir aðeins átta klukkustundum síðan.
„Þú þarft alltaf að horfa á björtu hliðarnar,“ sagði Einar í fréttinni. „Það er enginn dáinn. Þrefaldur fjöldi þeirra sem búa í Grindavík eru dáinn á Gasa svæðinu, helmingur þeirra börn.“
Athugasemdir