Skjálftavirkni vegna tilfærslu kvikugangs undir Grindavík í kvöld hefur haldið áfram að teygja sig lengra til suðvesturs eftir því sem nóttin líður. Virknin minnkaði tímabundið, en jókst á ný. Skjálftarnir hafa nú að stórum hluta færst út í sjó suðvestan við Grindavík.
Í eldfjallafræðunum er þekkt að eldgos í sjó eru annars eðlis en hraungos á þurru landi, líkt og þau sem komu upp við Fagradalsfjall 2021 til 2023. Sprengigos, stundum skilgreind sem öskugos eða tætigos, hafa í för með sér mikið öskufall, ólíkt hraungosum, þar sem gosefnið kemst í tæringu við vatn.
Í mars 2021 var óttast að kvikugangur milli Keilis og Fagradalsfjalls myndi teygja sig sunnar út í sjó, með þeim afleiðingum að sprengigos yrði. Bergrún Arna Óladóttir, gjóskulagafræðingur á Veðurstofu Íslands, sagði í samtali við RÚV á þeim tíma að mikilvægt væri að horfa til allra möguleika.
„Við verðum bara að reyna að horfa á allt sem er mögulegt og það er náttúrulega alveg mögulegt að gangurinn gangi þarna áfram, opnist þá út í sjó og það komi upp sprengigos. Við myndum þá geta fylgst með því ef gangurinn er farinn að færa sig nær sjónum, þá fer sú sviðsmynd að verða sterkari inni í öllum viðbrögðum,“ sagði hún.
Heimildin hefur sent fyrirspurn á Almannavarnir um hvort verið sé að skoða þennan möguleika sérstaklega. Þannig er ekki staðfest að kvikugangurinn sé kominn undir sjó eða hversu líklegt sprengigos er á þessari stundu.
Í kringum landnám, eða árið 920, gaus undan Reykjanesi með mikilli gjóskudreifingu og er gjóskulag frá því gosi þekkt. Næst gaus tvisvar í sjó undan Reykjanesi árin 1160 til 1180 og getið er um sjö gos í hafi undan Reykjanesi á 13. öld. Í annálum er getið um harðindavetur árin 1226 til 1227 vegna öskugoss við Reykjanestá, við ysta og syðsta hluta nessins.
Yrði öskugos við Reykjanes geta efnahagsleg áhrif orðið öll önnur en í hraungosi. Gjóskan getur haft áhrif á millilandaflug frá Keflavíkurflugvelli, minnkað þannig gjaldeyristekjur og lækkað gengi krónunnar, sem aftur getur valdið verðbólgu með hækkun innfluttra vara. Verðbólga leiðir síðan til hækkunar á húsnæðislánum landsmanna, sem í sífellt meiri mæli hafa flust yfir í verðtryggð lán.
Rýmingu í Grindavík er nú lokið en um 15 einstaklingar munu standa vaktina þar í nótt. Erfitt er að spá fyrir um framvinduna, en neyðarstig er á svæðinu vegna aukinna líka á eldgosi í eða við Grindavík. Í tilkynningu frá Almannavörnum til fjölmiðla kom fram að rýming hefði gengið vel.
„Búið er að rýma Grindavíkurbæ, rýmingin gekk vel og lauk rétt eftir klukkan eitt í nótt.
Í Grindavík eru viðbragðsaðilum farið að fækka. Sjálfboðaliðar Rauða krossins eru farnir af svæðinu. Allar leiðir eru enn lokaðar til Grindavíkur, nema fyrir viðbragðsaðila.
Samhæfingarstöð Almannavarna verður áfram starfandi þótt hluti starfsmanna sé farinn heim til hvíldar fyrir komandi vaktir. Visindafólk Veðurstofunnar mun funda með Almannavörnum um klukkan þrjú í nótt og fara yfir stöðuna. Í framhaldi verður næsti stöðufundur samhæfingarstjórnar með aðgerðastjórnum og viðbragðsaðilum.
Fjöldahjálpastöðvar voru opnaðar fyrr í kvöld, í íþróttahúsi Kórsins í Kópavogi eru nú 66 manns, í Keflavík 46 og á Selfossi eru 28. Umsækjendur um alþjóðlega vernd í Reykjanesbæ fóru snemma í kvöld í fjöldahjálparstöð í Borgartúni.“
Athugasemdir