Það er gefandi og nærandi að hafa áhrif á umhverfi sitt og líf fólks. Það er valdeflandi að hafa rödd og beita henni fyrir góðum málstað. Stundum er röddin hávær og árangursrík, stundum lækkar hún aðeins en hættir aldrei að hljóma. Málstaðurinn getur orðið alltumvefjandi, skiptir alltaf máli, er alltaf á dagskrá, er bæði starf og áhugamál. Þessi sami málstaður er líka ógn, því hann beitir sér gegn ríkjandi skilgreiningarvaldi.
Valdhafar í gegnum alla söguna hafa verið einsleitur hópur, þar sem hver hugsar um annan og passar upp á að aðrir hópar taki ekki forréttindin frá þeim. Ríkjandi hópurinn upplifir nefnilega að hann hafi tilkall til alls valds, hvort sem það varðar að skilgreina rétt frá röngu eða æskilegu frá óæskilegu. Valdið nær líka til forræðis yfir líkömum fólks í öðrum hópum og yfirráða yfir þeim – hvort heldur sem er til að nota sem boxpúða, þrælkunarvinnu eða eigin kynferðislegrar útrásar. Ríkjandi hópurinn telur sig einan geta skilgreint annað fólk, það gildir einu hvort um sé að ræða verðmæti einstaklinga í öðrum hópum, upplifun fólks á eigin tilveru og hvötum eða óskir og þrár til annars en þess sem ríkjandi hópurinn hefur ákveðið að sé við hæfi.
Valdahópurinn hefur vandlega valið hvernig hann lítur út, hegðar sér og merkir sig með alls kyns táknum – til að tryggja samstöðuna og hafa sýnilega sérstöðu – öðrum hópum til varnaðar að ögra.
„Ekki verða eldri konur bara ljótar og kynþokkalausar heldur líka erfiðar og klikkaðar“
Til að draga fram eina af fjöldamörgum aðferðum sem valdahópurinn beitir til kúgunar er framkoma þeirra við eldri konur. Öll vitum við að með árunum öðlumst við þroska sem færir okkur margvíslega hæfni – meðal annars að vera meira sama um hvað öðrum finnst og í því er mikill styrkur. Svona einstaklingar geta jafnvel viljað upp á dekk og gert þar usla. En valdahópurinn er sem fyrr með krók á móti bragði – og býr til æsku- og útlitsdýrkun sem þroskaðar konur geta aldrei uppfyllt nema með skurðaðgerðum. Ef konur breyta útliti sínu í samræmi við kröfurnar, þá eru þær líka gerðar hlægilegar eða aumkunarverðar. Ekki verða eldri konur bara ljótar og kynþokkalausar heldur líka erfiðar og klikkaðar. Engin leið að vinna slagina.
Í gegnum tíðina hafa hópar náð árangri gegn yfirgangi valdahópsins, en aldrei án baráttu. Átökin hafa alltaf kostað hina kúguðu blóð, svita og tár. Eftir því sem árangur baráttunnar verður meiri, því ofbeldisfyllri verða viðbrögð valdsins. Aðgerðir valdahópsins geta verið almennar eins og fyrr greinir, en líka persónulegar.
Tiltekin kennslukona hefur beitt sér fyrir réttlæti og sanngjarnara samfélagi. Konan er vön því að fá ýmsar ákúrur og skeytasendingar í ólíku formi sem stundum hafa sett hana aðeins út af laginu. Konan þekkir söguna og veit að valdið slær til baka. Enn er gengið lengra gegn kennslukonunni. Ungur maður hefur samband við hana í gegnum sms, segist vera fyrrum nemandi. Kennslukona leggur metnað í að svara nemendum. Samtalið verður strax skrítið, án sýnilegs tilgangs – annars en bara að spjalla. „Nemandanum“ er svarað af kurteisi, varkárni og með óþægindatilfinningu. Fljótlega tekur „nemandinn“ ákveðna stefnu í samtalinu – verður persónulegur og undirtónninn óviðeigandi. Konan verður tortryggin og sýnir vinkonum sínum – sem eru á einu máli að þetta sé í meira lagi grunsamlegt. Kennslukonan sendir lokasvar á „nemandann“ og segir varfærnislega að hana gruni að verið sé að reyna að klekkja á henni. Ekkert svar.
Það er mikill fórnarkostnaðurinn fyrir fólk sem berst fyrir mannréttindum, að þurfa alltaf að líta um öxl. Að geta ekki lifað sínu persónulega lífi án þess að eiga á hættu að lagðar séu gildrur á leið þeirra, búnar til aðstæður sem hægt er að mistúlka, gera óviðeigandi og nota til að svipta röddina trúverðugleika.
Öryggi er ein af frumþörfum okkar og án þess lifum við í stöðugum ótta. Þannig hafa konur og kvár þurft að lifa lífi sínu með valdahópnum. Þegar baráttufólk gegn valdinu er svo annars vegar, þá verður varnarleysið algjört. Tilhugsunin um að hvar sem er og hvenær sem er getur „einhver“ gert þér eitthvað, tætt þig niður, svipt þig ærunni – er óásættanlegur kostnaður fyrir heiðarlega baráttu fyrir réttlæti. Að lifa í tortryggni er ekki bara ófrelsi heldur líka hugræn byrði.
Kona hefur lært að bera kennsl á feðraveldið, að skilja hversu skaðlegt það er. Kona hefur lært að feðraveldið vill henni illt því það er óttaslegið og reiðubúið að gera hvað sem er til að þagga niður í röddum sem ógna því. Hvað á miðaldra femínísk kennslukona eftir af röddinni sinni ef „sýnt hefur verið fram á“ að hún hafi átt í óviðeigandi sambandi við nemanda sinn – sem er 35 árum yngri en hún?
Feðraveldið hikar ekki við tvískinnung og býr til sérreglur fyrir sig og dáist að eldri körlum sem eiga í samböndum við yngri – miklu yngri konur. Svoleiðis karlar eru silfurrefir og sigurvegarar í hugum samherja. Siðferðið þvælist ekki fyrir mönnum.
Kona hefur líka lært að feðraveldið er knúið áfram af körlum sem eru hræddir, með minnimáttarkennd, brothættir og þannig eru þeir hættulegastir.
Athugasemdir (3)