Ísland er nú í 5. sæti á Regnbogakorti ILGA, sem metur lagalega stöðu hinsegin fólks í öllum ríkjum Evrópu og Mið-Asíu, og réttindi trans fólks eru hvergi talin betri en hér á landi. Þetta er ekki síst vegna laganna um kynrænt sjálfræði frá 2019. Lögin gefa fólki rétt til þess að skilgreina kyn sitt í samræmi við eigin kynvitund, jafnframt því sem þeim er ætlað að vernda rétt fólks til líkamlegrar friðhelgi. Hefur mannanafnalögum verið breytt til samræmis við lögin. En með lagabreytingunni og heimild til nafnbreytinga er aðeins hálf sagan sögð, því lög um kynrænt sjálfræði kalla á breytingar á tungumálinu sem hafa vafist fyrir ýmsum.
Í nýlegri rannsókn Þorgerðar J. Einarsdóttur, prófessors í kynjafræði við Háskóla Íslands, Jyl Josephson, prófessors í stjórnmálafræði og kvenna- og kynjafræðum við Rutgers háskóla, og Laufeyjar Axelsdóttur, nýdoktors í kynjafræði við Háskóla Íslands, er stuðningur við lögin kannaður og þekking og skilningur á kynsegin hugtökum og nýyrðum í íslensku. Gögnin byggjast á lagskiptu tilviljunarúrtaki úr netpanel Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands. Könnunin var framkvæmd í nóvember 2022 og var svarhlutfall 50,7%.
Lagabreytingar, menningarlegir þættir og tungumálið
Síðastliðna áratugi hafa ýmsar lagalegar umbætur verið gerðar til að stuðla að bættri stöðu hinsegin, trans og kynsegin fólks á Íslandi. Þar má til dæmis nefna lög um staðfesta samvist frá 1996 sem voru felld úr gildi árið 2010 með nýjum hjúskaparlögum, lög um ættleiðingar samkynja para og tæknifrjóvgun frá 2006, nýleg lög um kynrænt sjálfræði frá 2019 og bann við bælingarmeðferðum frá 2023.
Hinsegin barátta nær þó ekki eingöngu til lagabreytinga heldur einnig menningarlegra þátta og ekki síst tungumálsins. Á undanförnum áratugum hafa ýmis hugtök unnið sér sess í tungumálinu líkt og hinsegin, kynsegin og kynvitund. Lögin um kynrænt sjálfræði hafa kallað á fleiri ný hugtök og orð til að endurspegla veruleika kynsegin fólks og meðal þeirra eru hán, kvár, stálp og bur. Þegar tungumálið á í hlut togast á íhaldssemi og frjálslyndi og kynsegin nýyrði ögra bæði málkerfinu og kynjatvíhyggjunni sem gegnsýrir íslenskuna. Sjálfsmynd einstaklinga er samofin tungumálinu, kynsegin fólk er jaðarsett í samfélaginu og það er ekki síst fyrir tilstilli tungumálsins. Á sama tíma amast ýmsir við þessum tungumálsbreytingum, telja að með því sé verið að gjörbylta málkerfinu í þágu jafnréttissjónarmiða. Efasemdirnar birtast einkum þegar breytingar á persónufornöfnum eiga í hlut, stundum á þeim forsendum að málfræði og mannréttindi séu óskyld fyrirbæri.
Talsverður munur á þekkingu og skilningi
Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að talsverður munur sé á þekkingu og skilningi fólks á hinum ýmsu hugtökum eins og fram kemur á meðfylgjandi mynd. Ekki þarf að koma á óvart að þekking og skilningur er langmestur hjá kynsegin einstaklingum. Almennt þekkja fleiri og skilja orðin hán og kynsegin, sem eiga sér nærri tíu ára sögu hérlendis, en orðin kvár, stálp og bur sem eru nýrri í hugtakaflórunni. Þekking og skilningur er almennt meiri hjá yngra fólki en eldra, meiri eftir því sem menntun eykst og meiri hjá fólki sem er vinstra megin á hinum pólitíska kvarða en hægra megin. Síðast en ekki síst er þekking og skilningur á hugtökum umtalsvert meiri hjá konum en körlum. Þannig er 61% kvenna sem þekkja og skilja orðið hán en 37% karla. Minnst eru þekking og skilningur á orðunum stálp og bur. Könnunin sýnir að 32% kvenna þekkja og skilja orðið kvár og 13% karla en könnunin var gerð í nóvember 2022. Í kvennaverkfallinu 24. október síðastliðinn voru hugtökin konur og kvár meðvitað notuð af aðstandendum verkfallsins og íslenskri kvennahreyfingu. Slíkt er mikilvægur liður í að styðja inngildingu kynsegin fólks og hugsanlega hefur þekking og skilningur á orðinu kvár aukist eftir það.
Eins og komið hefur fram skipta menningarlegir þættir eins og tungumálið miklu máli í veruleika hinsegin og kynsegin fólks og eru ekki síður mikilvægir en lagaleg atriði. En breytingar kosta fyrirhöfn sem meðal annars felst í því að við tileinkum okkur ný orð og fellum þau inn í málfar okkar. Til þess þarf opinn huga, fræðslu og sjálfsmenntun. Stundum kosta breytingar líka átök. Hvað gerum við þegar tungumálið okkar nær ekki utan um veruleika allra? Kynsegin veruleiki krefst þess að fólk hugsi út fyrir kynjatvíhyggjuna og tjái sig með nýjum hætti. Tungumál eru ekki greypt í stein og málnotkun er breytileg frá einum tíma til annars. Kynsegin tilvera er hluti af veruleikanum og nokkuð víst að kynsegin orðaforði sé kominn til að vera.
Rannsóknarniðurstöður voru kynntar á ráðstefnu Þjóðarspegilsins í Háskóla Íslands sem fram fór síðastliðinn föstudag.
Athugasemdir (1)