Um tvítugt sat ég inngangskúrs í bókmenntum í Háskólanum. Í vikulegum umræðutímum ræddum við alls konar ljóð undir stjórn aðstoðarkennarans. Þetta voru frábærir tímar, aðstoðarkennarinn áhugasöm, klár og skemmtileg. Eitt ljóðanna sat sérstaklega í mér. Það var eftir Sigfús Daðason og hefst svona: „Orð / ég segi alltaf færri og færri orð / enda hafði ég lengi á þeim illan bifur.“
Ég þarf ekki að fletta ljóðinu upp, það hafði svo sterk áhrif á mig að ég lærði það utanbókar. Ljóðið fjallar um hvernig við beitum tungumálinu, og misbeitum. Mennirnir „gera sér ekki ljóst að orð eru dýr“ segir skáldið: „né með hverju þeir geti borgað“. Eitthvað í þessu var svo einfalt og sterkt og satt í huga mínum og örugglega allra hinna eldhuganna í stofunni, líka kennarans sem leiddi okkur í gegnum næstu erindi sem ég skildi reyndar ekki alveg jafnmikið í.
Skáldið náði þó fullri athygli minni undir lokin, þegar það biður okkur „að fara varlega með orð / þau geta sprungið / og þó er hitt öllu hættulegra / það getur vöknað í púðrinu.“ Vá, hugsaði ég. Það er einmitt það hættulegasta. Þegar orðin missa máttinn, eru beygð undir vald, gerð að merkingarleysu fyrir stjórnmálamenn sem vilja helst segja sem minnst í sem flestum orðum.
Seinna átti aðstoðarkennarinn reyndar sjálf eftir að verða stjórnmálakona í stjórnarandstöðu. Hún átti eftir að berjast gegn misskiptingu auðs og fátækt, hún átti eftir að taka skýra afstöðu með flóttafólki og fórnarlömbum blóðugra stríðsátaka, berjast fyrir viðskiptabanni við Ísrael, sýna okkur að orð eru máttug, það er í þeim púður.
Enn síðar átti hún eftir að verða forsætisráðherra í ríkisstjórn sem jók á hörku í garð flóttafólks, seldi ríkisbanka á afslætti til útvalinna, þorði ekki að styðja ályktanir um vopnahlé milli Ísraela og Hamas, hvorki árið 2021 né 2023, og svo framvegis.
Stundum finnst mér eins og stjórnmálaferill Katrínar Jakobsdóttur hafi verið framhald af þessari kennslustund fyrir 17 árum, eins og hún hafi virkilega viljað sýna okkur nemendum sínum hvað það er hættulegt þegar vöknar í púðrinu.
Athugasemdir (2)