„Fallegt að sjá Guðna forseta stíga sterkt inn þegar gamall maður hneig niður í Ikea. Litla góða Ísland í hnotskurn,“ segir Katrín Oddsdóttir lögmaður í færslu á Facebook þar sem hún birtir mynd af þeim sem brugðust skjótt við eftir að maðurinn hneig niður. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands er einn þeirra.
Guðni hefur verið þekktur fyrir hversu alúðlegur hann er, og komist hefur í fréttirnar þegar hann er að plokka rusl fyrir utan forsetabústaðinn við undrun ferðamanna, þegar hann játti beiðni tveggja drengja sem báðu um far með forsetanum eftir að þeir voru að koma af sundmóti en móður annars þeirra hafði seinkað, og þegar hann mætti nýverið á þungarokkshátíð í Þýskalandi.
Einn þeirra sem skrifar athugasemd við færslu Katrínar spyr hvort Guðni hafi bara verið í símanum, en hann sést þar handleika síma. Katrín svarar manninum: „Nei, hann var stumrandi yfir honum allan tímann. Þarna var verið að bíða eftir viðbragðsaðilum.“
Þegar Heimildin hafði samband við skrifstofu forseta vegna atviksins fengust þau svör að Guðni hefði vissulega verið staddur í IKEA fyrr í dag „en hann kýs að tjá sig ekki um þetta atvik að öðru leyti en því að koma á framfæri þökkum til þeirra sem komu fljótt að, bæði starfsfólks IKEA og svæfingarhjúkrunarfræðings sem var sest til borðs með börnum sínum en stýrði viðbrögðum þar til sjúkraflutningafólk kom á vettvang.“
Athugasemdir