Útlendingastofnun er að undirbúa flug til Venesúela í nóvember í samvinnu við Frontex, fyrir einstaklinga sem hafa óskað eftir aðstoð við sjálfviljuga heimför,“ segir í Þórhildur Hagalín, upplýsingafulltrúi Útlendingastofnunar, í skriflegu svari til Heimildarinnar.
Útlit er fyrir að 170 til 180 venesúelskir ríkisborgarar muni fara með vélinni.
Kona frá Venesúela sem hefur fengið neitun um hæli hér á landi segir í samtali við Heimildina að hún hafi verið kölluð á fund Útlendingastofnunar í vikunni og henni greint frá því að flugið væri á dagskrá í byrjun nóvember. Nákvæm dagsetning var ekki nefnd.
Mega taka með sér tvær töskur
Í skjali á spænsku sem venesúelskum ríkisborgurum hefur verið boðið að undirrita, í búsetuúrræði í Bæjarhrauni í Hafnarfirði, stendur eftirfarandi á spænsku, lauslega þýtt af hálfspænskumælandi blaðamanni með aðstoð þýðingarvélar:
„Ég lýsi hér með yfir vilja til að vinna með íslenskum stjórnvöldum og snúa aftur til upprunalands míns eða til lands þar sem ég hef löglega heimild til að dveljast, sem er Venesúela.
Ég óska eftir að snúa aftur með aðstoð Útlendingastofnunar og Frontex í leigufluginu.
Aðstoð felur í sér flugmiða aðra leið, eina 10 kílóa handfarangurstösku og eina 30 kílóa innritað tösku.“
1.244 umsóknir á fyrstu átta mánuðum ársins
Á fyrstu átta mánuðum ársins bárust Útlendingastofnun 1.244 umsóknir frá venesúelskum ríkisborgurum.
Útlendingastofnun hefur það sem af er ári neitað um 550 venesúelskum ríkisborgurum um vernd hér á landi en samþykkt 50 umsóknir. Stór hluti þeirra sem hafa fengið neitun hafa kært niðurstöðuna til kærunefndar útlendingamála.
Frá árinu 2018 til ársins 2020 veitti Útlendingastofnun þeim venesúelsku ríkisborgurum sem sóttu um vernd hér svokallaða viðbótarvernd vegna ástandsins í landinu. Árið 2021 fór Útlendingastofnun svo að synja fólki frá landinu en kærunefnd útlendingamála komst að þeirri niðurstöðu að áfram skyldi hún veita fólkinu viðbótarvernd. Aftur reyndi Útlendingastofnun að synja umsóknum fólks frá landinu í fyrra en kærunefndin stóð við sitt.
Í lok síðasta árs ákvað Útlendingastofnun að bíða með umsóknir frá Venesúela. Þegar hún fór aftur að taka fyrir umsóknir fólks þaðan fyrr á þessu ári var þó nokkrum hafnað. Kærunefnd útlendingamála staðfesti nokkra úrskurði Útlendingastofnunar fyrr í haust. Þar með var viðbótarvernd á alla ríkisborgara Venesúela ekki lengur raunin.
Athugasemdir (1)